Miklar og góðar afurðir á Stóra Ármóti á síðasta ári

Ársuppgjör nautgriparæktarinnar hefur nú verið birt og afurðir á síðasta ári á tilraunabúinu á Stóra Ármóti enduðu í 6.972 kg mjólkur eftir árskú sem eru mestu afurðir þar frá upphafi. Segja verður að mjólkurframleiðsla þar hafi gengið ákaflega vel undanfarin ár og afurðir hafa aukist jafnt og þétt. Að verulegum hluta má þakka það hve vel hefur tekist til með það fóðrunarkerfi sem notast er við. Þá hefur betra uppeldi kvígnanna skilað betur undirbúnum gripum fyrir sitt hlutverk sem mjólkurkýr. Ekki má gleyma því að frjósemin hefur verið með ágætum og hefur tekist að halda bili milli burða innan skikkanlegra marka. Bil milli burða reiknast nú 390 dagar á búinu og fanghlutfallið 50% hjá kúnum en 71-72% hjá 1. kálfs kvígum og kvígum.
Mjólkurnýting hefur verið mjög góð á búinu sem sýnir okkur að mælingar og niðurstöður skýrsluhaldsins eru í góðu samræmi við raunveruleikann í fjósinu. Undanfarin ár hefur hún verið 95-99% en á s.l. var hún 101,7%. Með hliðsjón af því er nauðsynlegt að skoða/stilla mjólkurmælana auk þess sem þetta bendir ótvírætt til þess að í reynd séu afurðir yfir 7.000 kg eftir árskú.
Á sama tíma og afurðir hafa aukist hefur efnainnihald mjólkurinnar einnig aukist. Þannig hefur fituhlutfall í innleggsmjólk hækkað á síðustu þremur árum úr 3,99% í 4.14% og próteinhlutfallið hefur hækkað úr 3,45% í 3,49%.
Mjólkurgæði á búinu hafa einnig verið með ágætum og árangur þar batnað. Líftala eða gerlastök hefur haldist mjög stöðug undanfarin ár og er að meðaltali í tæpum 12 þús. Frumutalan hefur farið lækkandi og frá árinu 2008 hefur hún lækkað úr 324 þús. í 243 þús. á síðasta ári.

Af einstökum kúm á Stóra Ármóti má nefna að Klauf 1041 mjólkaði á síðasta ári 10.414 kg mjólkur. Klauf er dóttir Þverteins 97032 og móðurfaðir hennar er Blakkur 93026. Klauf var á sínu þriðja mjólkurskeiði allt árið í fyrra en hún bar í des. 2009. Klauf fór hæst í 43 kg dagsnyt.

Þá mjólkaði Baula 1084, f. Fontur 98027, mf. Kaðall 94017, 8.888 kg mjólkur á árinu 2010. Hún bar 1. kálfi í sept. 2009 og öðrum kálfi í sept. 2010 þannig að hún er þeim kvíguárgangi sem kom í framleiðslu 2009/10 og var ákaflega vel heppnaður. Baula er hálfsystir Ára 04043 en móðir þeirra
Hönk 213 var ákaflega mjólkurlagin og góð kýr. Baula fór hæst í 42 kg á árinu.

Nútíð 1039 mjólkaði 8.615 kg árið 2010. Hún fór hæst í 37 kg en hún bar í des. 2009. Nútíð er dóttir Þverteins 97032 sem hefur reynst ákaflega farsæll kýrfaðir á Stóra Ármóti. Móðurfaðir hennar er Skyggnir 94010.

Þvæla 1083 mjólkaði 8.382 kg og fór hæst í 37 kg en hún bar í nóv. 2009 og aftur í nóv. s.l. Hún er dóttir Ára 04043, mf. Strokkur 00003, og er af kvíguárgangi 2009/10.

Lukka 1057 mjólkaði 8.245 og fór hæst í 34 kg. Hún bar í okt. 2009 og aftur í árslok 2010. Lukka er dóttir Akurs 03009 og móðurfaðir hennar er Barði 98016.

Holtasól 1044 mjólkaði á árinu 2010 8.056 kg og fór hæst í 42 kg. Hún bar í árslok 2009 og aftur í nóv. 2010. Holtasól er ein af þessum farsælu Þverteinsdætrum 97032 á búinu en móðurfaðir hennar er Galsi 94034.


Miklar og góðar afurðir á Stóra Ármóti á síðasta ári

Ársuppgjör nautgriparæktarinnar hefur nú verið birt og afurðir á síðasta ári á tilraunabúinu á Stóra Ármóti enduðu í 6.972 kg mjólkur eftir árskú sem eru mestu afurðir þar frá upphafi. Segja verður að mjólkurframleiðsla þar hafi gengið ákaflega vel undanfarin ár og afurðir hafa aukist jafnt og þétt. Að verulegum hluta má þakka það hve vel hefur tekist til með það fóðrunarkerfi sem notast er við. Þá hefur betra uppeldi kvígnanna skilað betur undirbúnum gripum fyrir sitt hlutverk sem mjólkurkýr. Ekki má gleyma því að frjósemin hefur verið með ágætum og hefur tekist að halda bili milli burða innan skikkanlegra marka. Bil milli burða reiknast nú 390 dagar á búinu og fanghlutfallið 50% hjá kúnum en 71-72% hjá 1. kálfs kvígum og kvígum.
(meira…)


back to top