Afurðir á síðasta ári mestar í Skagafirði

Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar 2010 verður væntanlega sett á vefinn í dag. Afurðir eru heldur minni en í fyrra eða 5.342 kg/árskú á móti 5.358 kg/árskú á árinu 2009. Hér á Suðurlandi minnkuðu afurðir eftir árskú lítillega milli ára eða um 16 kg, úr 5.440 kg árið 2009 í 5.424 kg árið 2010. Afurðahæsta búið á landinu á síðasta ári var hjá Jóni og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð en þar mjólkuðu 34,4 árskýr 7.818 kg mjólkur til jafnaðar. Í öðru sæti er Steinar Guðbrandsson í Tröð í Borgarbyggð (fyrrum Kolbeinsstaðahreppi) en hjá honum mjólkuðu 23,7 árskýr 7.802 kg að meðaltali.
BSSL raðar afurðahæstu búum ekki eftir mjólkurmagni heldur verðefnum og er þar miðað við mjólkurmagn úr skýrsluhaldi og meðalefnainnihald úr tanksýnum hjá MS. Afurðahæsta búið á Suðurlandi er að þessu sinni bú þeirra Eggerts, Jónu og Páli á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Þar mjólkuðu kýrnar til jafnaðar 7.671 kg mjólkur á árskú og 568 kg verðefna (MFP).

Í öðru sæti eru Ólafur og Sigurlaug í Hraunkoti í Landbroti þar sem kýrnar mjólkuðu 7.632 kg mjólkur/árskú og 560 kg MFP. Þriðja í röðinni eru svo Arnar Bjarni og Berglind í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahr. Kýr þeirra mjólkuðu reyndar mest með tilliti til mjólkur eða 7.706 kg/árskú en eru nokkru lægri í efnum en á hinum búunum tveimiur þannig að magn verðefna er 559 kg MFP/árskú.
Afurðahæsta kýrin á landinu öllu er Örk 166, Almarsdóttir 90019 á Egg í Hegranesi með 12.418 kg mjólkur. Athyglisvert er að Örk er fædd árið 1998 og hefur því sýnt fádæma endingu ásamt miklum afurðum. Tvær kýr ná afurðum yfir 12.000 kg þetta árið en Randa 014, Beradóttir 92021 á Hvanneyri er næst afurðahæst með 12.115 kg. Þess má geta að þetta er þriðja árið í röð sem Örk 166 trónir á toppnum.
Hér á Suðurlandi er Habbý 371 Þverteinsdóttir 97032 í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahr. afurðahæst, og reyndar þriðja á landinu öllu, með 11.755 kg en næstar koma Skjalda 114 Ingjaldsdóttir 04011 í Hraunkoti í Landbroti með 11.627 kg og Rispa 533 Stígsdóttir 97010 í Reykjalíð á Skeiðum með 11.304 kg.
Eins og áður sagði minnkuðu afurðir lítillega hér á Suðurlandi. Hins vegar er afurðaaukning í A-Skaft., V-Skaft. og Rang. en en afurðaminnkun er það mikil í stærstu sýslunni, Árnessýslu, að afurðir minnka í heild á svæðinu eins og sjá má í eftirfarandi töflu.

Sýsla

Afurðir 2009, kg/árskú


Afurðir 2010, kg/árskú


Breyting, kg/árskú

A-Skaft.

5.639


5.765


+126

V-Skaft.

4.673


4.736


+63

Rang.

5.376


5.413


+37

Árn.

5.595


5.508


-87


Á landinu eru afurðir mestar í Skagafirði á síðasta ári eða 5.817 kg mjólkur eftir árskú en síðan kemur A-Skaft. með 5.765 kg og Snæfellsnes með 5.761 kg.

Það sem öðru fremur einkennir skýrsluhaldið 2010 er hve mörg bú ná orðið miklum og góðum afurðum þó engin met hafi fallið að þessu sinni. Mikill hópur búa nær yfir 7.000 kg/árskú og athyglisvert er að sjá að nú fylla þau bú sem eru stór á okkar mælikvarða þann flokk ekkert síður en hin minni.
Á vefinn hjá okkur er kominn listi yfir þau bú sem náðu 350 kg MFP eða meira eftir árskú á árinu 2010 auk lista yfir þær kýr sem mjólkuðu 8.000 kg mjólkur eða meira á árinu 2010.
Fleiri tölur úr niðurstöðum skýrsluhaldsins verða settar inn á nautgriparæktarhluta vefsins okkar á næstu dögum.


Nánari upplýsingar:
Afurðahæstu búin á Suðurlandi 2010
Afurðahæstu kýrnar á Suðurlandi 2010
Niðurstöður skýrsluhaldsins á vef BÍ


back to top