Opið fjós á Stóra Ármóti

Föstudaginn 19. mars n.k. frá kl. 13.30 til kl. 17.00 verður opið fjós hjá Tilraunabúinu á Stóra Ármóti þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að skoða aðstöðuna og fræðast um starfsemi búsins. Kynntar verða ýmsar tilraunaniðurstöður, sagt frá tilraunum í gangi og undirbúningi. Þá mun Kynbótastöð Suðurlands sýna klaufskurð og boðið verður upp á sýnikennslu í kúadómum.
MS verður með vörukynningu á staðnum og mun m.a. kynna nýja íþróttadrykkinn, Hleðslu.

Ágæt afurðaaukning á árinu 2009

Niðurstöður úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hafa nú verið birtar og ekki er hægt að segja annað en að mjólkurframleiðslan hér á Stóra Ármóti hafi gengið vel á síðasta ári. Meðalnyt eftir árskú jókst milli ára, úr 6.321 kg í 6.529 kg. Þetta eru næst mestu afurðir sem náðst hafa á Stóra Ármóti. Fituinnihald í innleggsmjólk hækkaði úr 3,99% í 4,15% og próteininnihaldið stóð nánast í stað, lækkaði úr 3,45% í 3,44%. Afurðir í verðefnum jukust því um 37 kg milli ára eða í 496 kg MFP/árskú.

Kvígur24 – nú frjáls aðgangur að sýrðri mjólk

Meðal burðaraldur hjá fyrsta kálfs kvígum er nú rúmir 28 mánuðir. Samkvæmt hagfræðilegum útreikningum er talið betra að kvígur beri yngri eða u.þ.b. 24 mánaða gamlar. Til þess að svo geti orðið þarf þó hver dagur í uppeldi að nýtast markvisst til vaxtar og þroska. Mikill breytileiki er í fóðrun og meðferð kálfa og kvígna á Íslandi og víða er vaxtargetan vannýtt. Meginmarkmið verkefnisins Kvígur24 er að finna hvaða fóðursamsetning á hinum ýmsu stigum uppeldisins þ.á.m. frjáls aðgangur að sýrðri mjólk, nýti vaxtargetu gripanna best án þess þó að það leiði til óhóflegrar holdsöfnunar. Einnig að þróa þessa fóðrunaraðferð sem vænlegan kost við uppeldi kálfa.

Slátrun lokið á Stóra Ármóti

Í gær lauk slátrun á Stóra Ármóti þetta haustið. Alls var slátrað 68 dilkum sem er 16 dilkum færra en í fyrra. Meðalfallþungi reyndist vera 17,1 kg eða 0,4 kg meiri en árið áður. Þrátt fyrir það kom flokkun eilítið lakar út.

Bústórahúsið á Stóra-Ármóti endurnýjað

Framkvæmdum við bústjórahúsið á Stóra-Ármóti er nú lokið en það hefur fengið verulega andlitslyftingu. Húsið sem byggt var árið 1950 þarfnaðist orðið verulegs viðhalds að utan og hafa framkvæmdir staðið yfir frá síðastliðnu hausti. Mest var unnið í framkvæmdinni á liðnum vetri en endanlega var lokið við alla vinnu utanhúss nú í sumar.

Fjárrag á Stóra-Ármóti

Miðvikudaginn 9. september s.l var féð á Stóra-Ármóti rekið saman úr úthaganum og lömb valin til slátrunar og ásetnings. Sauðfjárræktarráðunautar Bssl og aðrir starfsmenn hauststarfanna í sauðfjárrækt mældu og stiguðu lömbin. Þetta er einn liður í því að samræma vinnubrögðin fyrir haustið. Nokkur lömb voru stiguð og valin til nánari skoðunar í sláturhúsi SS á Selfossi daginn eftir, en þangað mættu líka ráðunautar frá Búvest, Jón Viðar frá Bændasamtökum Íslands og Stefán Vilhjálmsson frá yfirkjötmatinu. Í sláturhúsi SS voru lömbin stiguð á fæti og skrokkarnir síðan skoðaðir í kjötsalnum.

Stóra-Ármót hlýtur umhverfisverðlaun Flóahrepps 2009

Umhverfisnefnd Flóahrepps hefur ákveðið að önnur tveggja umhverfisverðlauna ársins 2009 skuli falla í hlut Tilraunabúsins á Stóra-Ármóti. Veitt eru verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar „Heimili“ og hins vegar „Fyrirtæki/stofnanir“ og fellur Stóra-Ármót undir seinni flokkinn. Alls bárust nefndinni ábendingar um ellefu aðila þar sem snyrtimennska og vel hirt umhverfi þykir bera af og vera sveitarsómi og er þetta niðurstaða umhverfisnefndar eftir skoðun á öllum tilnefningunum.

Kornið skreið 1. júlí

Vel horfir með kornræktina á Stóra-Ármóti það sem af er en segja má að kornið hafi almennt skriðið þann 1. júlí. Það er óvanalega snemma sumars sem þetta gerist en ekki er óalgengt að korn skríði á bilinu 15. – 25. júli, nokkuð breytilegt eftir yrkjum. Ástæðan fyrir því hversu tímanlega kornið skríður er bæði yrkisvalið og sú staðreynd að aldrei fyrr hefur jafn snemma verið sáð korni á Stóra-Ármóti en í ár, en það var gert 18. – 20. apríl sl. Sáð var íslenska tveggja raða yrkinu Kríu í 15,5 ha og íslenska sex raða yrkinu Skúmi í 3,5 ha. Hvoru tveggja eru þessi yrki fremur fljótþroska enda til þess kynbætt af Jónatani Hermannssyni, sérfræðingi hjá LBHÍ.

Heyskapur á Stóra-Ármóti

Heyskapur hófst á Tilraunabúinu á Stóra-Ármóti að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní. Mikið heyskaparæði rann á Höskuld bústjóra eins og jafnan á þessum árstíma og var uppskera af 28 hekturum komnar í 340 rúllur að kvöldi 19. júní, aðeins tveimur sólarhringum síðar. Þroskastig grasa var mjög gott á þessum tíma náðist uppskeran um eða fyrir skrið vallarfoxgrassins. Þetta heymagn er nóg sem hágæða framleiðslufóður fyrir þær 50 mjólkurkýr sem eru í fjósi en enn vantar að afla viðhalds- og geldstöðufóðurs auk meiri heyja fyrir uppeldisgripi.

Veiðileyfi á Stóra Ármóti sumarið 2009

Til sölu eru veiðileyfi í Hvítá í landi Stóra-Ármóts. Þrjár stangir eru leyfðar og eru allar seldar í einu. Aðgangur að veiðhúsi fylgir með leyfunum. Veiðihúsið er 30 m2 A bústaður með eldunaraðstöðu, salerni og svefnaðstöðu. Vatn, gas og rafmagn af geymi fylgir. Umsjónarmenn veiðisvæðisins eru bústjórar að Stóra Ármóti, Hilda Pálmadóttir og Höskuldur Gunnarsson í símum 482-1058 og 897-4766. Veiðileyfin eru seld í Veiðisporti á Selfossi, hjá Búnaðarsambandinu að Austurvegi 1 og hjá bústjórum að Stóra Ármóti. Bændur á Suðurlandi fá 10% afslátt frá listaverði sem er eftirfarandi:

Tilraun í gangi: Kvígur 24

Á Tilraunabúinu á Stóra-Ármóti er nú í gangi verkefni sem ber vinnuheitið Kvígur 24. Verkefnið hófst síðastliðið haust og er ætlunin að skoða áhrif mismunandi fóðursamsetningar á vöxt og þroska kálfa og kvígna. Markmið verkefnisins er að finna heppilegustu fóðursamsetninguna sem bætir nýtingu á vaxtargetu gripanna á hverjum tíma, án þess þó að um óhóflega holdsöfnun verði að ræða.

Jarðræktin á Stóra-Ármóti

Á Tilraunabúinu á Stóra-Ármóti hafa verið brotnir til ræktunar alls 110,8 hektarar af landi jarðarinnar. Ræktunarlandið er breytilegt. Víða er stutt niður á Þjórsárhraunið og jarðvinnsla því víða fremur erfið á hluta jarðarinnar. Framræsla er nauðsynleg á hluta ræktunarlandsin þar sem jarðvegurinn er mýrarkenndur en meðfram Hvítá er jarðvegurinn moldarblandaður sandjarðvegur. Ræktunarlandið í heild myndi teljast fremur áburðarfrekt.

back to top