Sáðvörur lækka í mörgum tilfellum í verði
Fóðurblandan hefur birt sáðvöruverð. Ánægjulegt er að sjá að sáðvara lækkar í mörgum tilfellum og á það einkum við um grasfræ, í sumum tilvikum grænfóðurs. Ef litið er á algengustu tegundir þá lækka grasfræblöndurnar í verði f.f. ári um 4-13%, Vega vallarfoxgras lækkar um 5% en aðrar tegundir vallarfoxgrass hækka um 8%.
Umsóknir um leyfi til að selja líflömb 2010
Sauðfjárbændur sem ætla að sækja um nýtt leyfi til að selja líflömb skulu senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar eigi síðar en 1. apríl 2010 á eyðublöðum sem finna má á www.mast.is eða með því að hafa samband í síma 530-4800 og fá þau send.
Sauðfjárbóndi sem nú þegar hefur fengið söluleyfi heldur því milli ára án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar. Tilkynna þarf Matvælastofnun ef óskað er að söluleyfi verði fellt niður og mun stofnunin þá taka nafn búsins af lista yfir bú sem hafa leyfi til að selja líflömb árið 2010.
Aftur milljarða tap vegna svínaræktar
Sjö árum eftir að lánastofnanir þurftu að afskrifa milljarða vegna taps í svínarækt þurfa fjármálastofnanir aftur að taka á sig milljarða tap vegna lánveitinga til svínabúa. Arion banki er enn á ný farinn að reka svínabú, en bankinn er núna með um 25% markaðshlutdeild í svínarækt.
Verð á svínakjöti hefur lækkað mikið að undanförnu. Verðið er núna næstum 40% lægra en það var í ársbyrjun 2008. Þessa lækkun má fyrst og fremst rekja til þess að framleitt er of mikið af svínakjöti í landinu. Markaðurinn hefur verið að dragast saman m.a. vegna þess að landsmönnum hefur fækkað. Þar munar ekki síst um útlendinga sem flutt hafa frá landinu, en þeir eru margir aldir upp við matarmenningu sem byggist á mikilli neyslu á svínakjöti.
Kostnaður við landbúnaðarkerfið mun aukast
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði alveg ljóst að kostnaður við stofnanakerfi landbúnaðarins hér á landi muni aukast verulega við aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar muni stjórnvöld reyna að ná fram sem hagstæðastri niðurstöðu í aðildarviðræðum.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að umtalsefni viðtal í Morgunblaðinu við Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, á laugardag. Þar sagði Jón m.a. að Evrópusambandið gerði kröfur um að komið verði á fót stofnunum hér á landi til þess að hafa umsjón með framkvæmd sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar.
LS vill rannsókn á ormalyfinu Albencare
Landssamtök sauðfjárbænda hafa óskað eftir rannsókn yfirdýralæknis f.h. MAST og Lyfjastofnunar á málefnum tengdum meðferð ormalyfsins Albencare.
Tilurð málsins er sú að við fósturtalningu á Brjánslæk á Barðaströnd fyrir skömmu kom í ljós að mun fleiri ær eru lamblausar en eðlilegt má telja auk þess sem tvöfalt fleiri eru einlembdar. Í framhaldi af því vaknaði grunur um að lyfið Albencare gæti tengst málinu. Það hefur nú orðið til þess að óskað hefur verið eftir rannsókn.
Reykjahlíð gefur toppsætið ekki eftir
Uppgjör febrúar-mánaðar í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hefur verið birt á vef Bændasamtakanna. Afurðir eftir árskú hafa heldur lækkað frá því um áramót og eru nú 5.116 kg/árskú. Sama þróun hefur orðið á Suðurlandi þar sem afurðir eftir árskú reiknast nú 5.394 kg.
Skýrsluskil eru mjög góð eða 97% á landinu öllu. Hér á Suðurlandi eru skýrsluskil best í A-Skaft. eða 100%. Síðan koma Árnessýsla og V-Skaft. með 97% og Rang. með 95%.
Afurðir eru sem fyrr mestar í Skagafirði en Snæfellingar koma þar mjög skammt á eftir.
Reykjahlíð trónir enn á toppnum á lista yfir afurðahæstu búin með 7.700 kg/árskú en Daníel í Akbraut er í fjórða sæti á landsvísu og Kirkjulækur í því sjötta.
77 kg risakálfur
Í gær fæddist sannkallaður risakálfur á Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum. Kálfurinn vóg 77 kg og var að sjálfsögðu tekinn með keisara enda varla á færi nokkurra kúa að bera slíku flykki. Lars Hansen, dýralæknir, aðstoðaði kálfinn, sem er kvíga, í heiminn. Kvígan lifði burðinn af og heilsast vel. Móðirin er Húfa 350 Trefilsdóttir 96006, móðir Húfs 07049, en hún var komin 35 daga fram yfir tal. Faðir kálfsins er Flói 02029.
Fóðurblandan fær mikla skuldalækkun
Eigendur Fóðurblöndunnar hafa lagt fyrirtækinu til 600 milljónir í aukið hlutafé. Jafnframt hafa skuldir fyrirtækisins verið lækkaðar niður í um tvo milljarða, en fyrirtækið skuldaði rúmlega 5,1 milljarð í árslok 2008.
Stærsti eigandi Fóðurblöndunnar er Kaupfélag Skagfirðinga með yfir 70% hlut og Auðhumla með um 18% hlut. Auðhumla, sem á og rekur Mjólkursamsöluna, keypti árið 2006 hlut í Fóðurblöndunni. Skiptar skoðanir eru meðal bænda um hvort félagið eigi að taka þátt í rekstri fóðurfyrirtækja. Félagið taldi hins vegar að það yrði að reyna að verja eign sína með því að leggja Fóðurblöndunni til aukið eigið fé.
Skjálftavirknin í Eyjafjallajökli tók kipp í nótt
Skjálftavirknin í Eyjafjallajökli tók aftur kipp í nótt og hviða smáskjálfta mældist milli kl. 03:40 og 05:20. Þá urðu nokkrir skjálftar um og yfir 2 stig, sá stærsti 2,6 stig. Alls hafa mælst á milli 270 og 280 skjálftar á þessu svæði frá miðnætti. Skjálftarnir mælast enn á sama dýpi og verið hefur eða 7-10 km.
Hagtölur landbúnaðarins 2010
Hagtölur landbúnaðarins 2010 eru komnar út. Eins og fyrri ár er útgáfan í bæklingsformi og er alls 30 síður. Í Hagtölum landbúnaðarins er m.a. hægt að finna tölfræði um landið og bóndann, bústofn og bústærð, landbúnaðarframleiðsluna, markaðsmál, verðlag og vísitölur o.m.fl. Bæklingurinn fer víða – hann er m.a. vinsæll á meðal ferðamanna, skólafólks og að sjálfsögðu á meðal þeirra sem starfa í landbúnaði.
Mikil andstaða við Reykjavík sem landsmótsstað
Stjórnir 26 hestamannafélaga hafa undiritað mótmælaskjal þar sem mótmælt er hvernig staðið var að vali á Reykjavík sem staðsetningu Landsmóts hestamanna árið 2012. Alls eru 47 félög aðilar að Landssambandi Hestamannafélaga (LH). Búið var að ákveða fund með Haraldi Þórarinssyni formanni LH 5. mars síðastliðinn þar sem afhenda átti mótmælaskjalið en Haraldur aflýsti þeim fundi að kvöldi 4. mars en boðaði til fundar 9. mars í staðinn. Hinn 5. mars skrifuðu Haraldur, forsvarsmenn Fáks í Reykjavík og fulltrúar Reykjavíkurborgar síðan undir samning um að Landsmót skyldi haldið í Reykjavík.
Dregur enn úr skjálftavirkni
Dregið hefur úr skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli. Almannavarnir munu mjög líklega aflétta viðbúnaðarstigi að sögn Steinunnar S. Jakobsdóttur, jarðeðlisfræðingi hjá Veðurstofunni. Mjög ólíklegt sé að þessari skjálftahrinu ljúki með gosi.
Viðbúnaður vegna aukinnar virkni í Eyjafjallajökli
Vegna aukinnar virkni í Eyjafjallajökli hefur almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra beðið Matvælastofnun að hvetja alla þá sem hafa með búfjárhald að gera í nágrenni jökulsins að fylgjast vel með fréttum útvarpsstöðva. Nýjustu fréttir eru einnig að finna á heimasíðu Almannavarna: www.almannavarnir.is.
Búnaðarsamband Suðurlands hvetur umráðamenn búfjár á svæðinu til að fylgjast vel með fréttum, kynna sér rétt viðbrögð og vera viðbúnir ef ástæða verður til.
Fyrsta háskastigi lýst yfir
Vísindamannaráð almannavarna fundaði í morgun vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli, en frá því um áramót hefur virkni færst í aukana. Í lok febrúar jókst svo virknin verulega og síðustu sólarhringana hefur hún verið viðvarandi. Nokkrir jarðskjálftanna hafa verið að stærðinni 2 – 3. Flestir eru á 7-10 kílómetra dýpi.
Almannavarnir eru með viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Vegna aukinnar virkni í jöklinum hefur verið ákveðið að virkja áætlunina á fyrsta háskastigi, óvissustigi, sem einkennist af atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið og samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið. Svona óróahrina leiðir ekki endilega til eldgoss.
Mikill hugur í ungum bændum
Stofnfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi fór fram sl. helgi, laugardaginn 27. febrúar. Fundargestir komu af öllu starfssvæði samtakanna en það spannar yfir Austur-og Vestur Skaftafellssýslur, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Greinilega er mikill áhugi á landbúnaði meðal ungs fólks á Suðurlandi og mikill sóknarhugur í ungum bændum en á fundinn mættu fast að 80 manns.
Systur í fyrsta sinn á Búnaðarþingi
Á nýliðnu Búnaðarþingi sátur þar systur í fyrsta sinn í sögu þingsins. Þetta eru þær Guðrún Lárusdóttir í Keldudal í Hegranesi og Fanney Ólöf Lárusdóttir á Kirkjubæjarklaustri II. Fanney Ólöf, sem er ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands ásamt því að vera bóndi, situr sitt þriðja þing en Guðrún er í fyrsta sinn fulltrúi á Búnaðarþingi. Þær feta í fótspor móður sinnar, Sólrúnar Ólafsdóttur, sem var eitt sinn í stjórn Bændasamtakanna og sótti þar af leiðandi Búnaðarþing.
Opið fjós á Stóra Ármóti
Föstudaginn 19. mars n.k. frá kl. 13.30 til kl. 17.00 verður opið fjós hjá Tilraunabúinu á Stóra Ármóti þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að skoða aðstöðuna og fræðast um starfsemi búsins. Kynntar verða ýmsar tilraunaniðurstöður, sagt frá tilraunum í gangi og undirbúningi. Þá mun Kynbótastöð Suðurlands sýna klaufskurð og boðið verður upp á sýnikennslu í kúadómum.
MS verður með vörukynningu á staðnum og mun m.a. kynna nýja íþróttadrykkinn, Hleðslu.
Ný stjórn Bændasamtakanna kjörin á Búnaðarþingi
Nú fyrir stundu var tilkynnt um úrslit í kosningum til stjórnar Bændasamtaka Íslands á Búnaðarþingi sem haldið er í Bændahöllinni. Haraldur Benediktsson var kjörinn formaður fyrr í dag með öllum greiddum atkvæðum eða 45. Að auki voru kosnir sex fulltrúar í stjórn samtakanna. Alls gáfu ellefu þingfulltrúar kost á sér til stjórnarsetu. Úrslit kosninganna voru þau að Sveinn Ingvarsson í Reykjahlíð fékk 45 atkvæði, Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum fékk 41 atkvæði, Sigurbjartur Pálsson á Skarði fékk 40 atkvæði, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir á Egilsstöðum fékk 40 atkvæði, Árni Brynjólfsson á Vöðlum fékk 23 atkvæði og Guðný Helga Björnsdóttir á Bessastöðum fékk 22 atkvæði.
Þvingunarúrræðum mögulega beitt gegn fjármögnunarfyrirtækjum
Atli Gíslason formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar segir sameiginlegan fund nefndarinnar og efnahags- og skattanefndar með fulltrúum Bændasamtakanna hafa verið mjög gagnlegan. „Það var mikill skilningur hjá þingmönnum og samstaða um að bregðast við þessum mikla vanda bænda. Ráðneytin voru hvött til að leggja til lagabreytingar sé þeirra þörf, bæði varðandi breytingar á virðisaukaskatti, áframhaldandi frystingu lána og möguleg þvingunarúrræði gagnvart fjármögnunarfyrirtækjum. Þingnefndirnar lýstu því yfir að þær væru tilbúnar að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að flýta slíkum málum í gegnum þingið.
Breytt skattlagning á veiðileigutekjum bænda
Með lögum nr. 128 frá 23.desember 2009 var horfið frá því fyrirkomulagi að tekjur úr veiðifélögum verði ávallt skattlagðar sem fjármagnstekjur utan rekstrar.
Fyrirkomulagið hafði verið gagnrýnt enda mátti hvorki nýta beinan kostnað á móti tekjum né tap af rekstri. Þannig voru dæmi um að rekstraraðilar hafi þurft að greiða fjármagnstekjuskatt vegna þessara tekna án nokkurs frádráttar á sama tíma og þeir hafa átt ónotað tap af rekstri sínum.






