Aftur milljarða tap vegna svínaræktar

Sjö árum eftir að lánastofnanir þurftu að afskrifa milljarða vegna taps í svínarækt þurfa fjármálastofnanir aftur að taka á sig milljarða tap vegna lánveitinga til svínabúa. Arion banki er enn á ný farinn að reka svínabú, en bankinn er núna með um 25% markaðshlutdeild í svínarækt.
Verð á svínakjöti hefur lækkað mikið að undanförnu. Verðið er núna næstum 40% lægra en það var í ársbyrjun 2008. Þessa lækkun má fyrst og fremst rekja til þess að framleitt er of mikið af svínakjöti í landinu. Markaðurinn hefur verið að dragast saman m.a. vegna þess að landsmönnum hefur fækkað. Þar munar ekki síst um útlendinga sem flutt hafa frá landinu, en þeir eru margir aldir upp við matarmenningu sem byggist á mikilli neyslu á svínakjöti.

Framleiðsla á svínakjöti hefur verið að minnka undanfarna mánuði, en hefur hefur greinilega þurft að minnka hraðar því að undanfarnar vikur hafa kjötvinnslur sett mikið af svínakjöti í frystigeymslur. Frysting á svínakjöti þýðir að það fellur óhjákvæmilega mikið í verði. Allt bendir því til að það muni taka marga mánuði að koma á jafnvægi á markað fyrir svínakjöt.


Sagan frá árinu 2003 að endurtaka sig
Mikil umframafkastageta er í svínarækt á Íslandi. Stærstu búin gætu auðveldlega aukið framleiðsluna mikið án þess að ráðast í fjárfestingar. Það er því dálítið eftir að sjá hvað er framundan í greininni. Tekið skal fram að svínabændum er óheimilt samkvæmt samkeppnislögum að hafa samráð sín á milli um framleiðsluna eða verðlagningu.


Árið 2003 fór kjötmarkaðurinn á Íslandi á hliðina. Þetta gerðist í kjölfar mikilla fjárfestinga í svína- og kjúklingarækt. Sala á kjúklingum og svínakjöti hafði verið að aukast og stórir aðilar í greininni vildu tryggja sér aukna markaðshlutdeild með því að stækka framleiðslueiningar, auk þess sem mikil barátta átti sér stað í kjötiðnaði. Niðurstaðan varð algjört verðhrun á markaðinum. Verð á kjúklingum og svínakjöti lækkaði um 40-50%, en verð á lambakjöti lækkaði einnig mikið. Afleiðingin af þessu varð sú að milljarðar voru afskrifaðir vegna fyrirtækja í svínarækt, kjúklingarækt, eggjaframleiðslu, kjötiðnaði og fóðurframleiðslu. Ljóst var að sumir sem stóðu að rekstri í þessum greinum tefldu allt of djarft, en það er einnig ljóst að lánveitingar bankanna voru miklar og í sumum tilvikum glórulausar. Starfsmenn bankanna virðast ekki hafa búið yfir nægilega mikilli þekkingu á svína- og kjúklingarækt.


Árið 2003 yfirtók Kaupþing svínabúið í Brautarholti á Kjalarnesi. Sparisjóður Mýrasýslu sá um að fjármagna svínabúið á Hýrumel í Borgarfirði, en það stóð mjög illa og þurfti sparisjóðurinn að taka á sig afskriftir vegna búsins. Kaupþing rak svínabúið í Brautarholti í nokkur ár, en sumarið 2008 komst búið að nýju í eigu þeirra sem settu það á stofn. Aðeins einu og hálfu ári síðar er búið aftur komið í eigu bankans. Hann neyddist líka til að yfirtaka svínabúið á Hýrumel. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er tap bankans vegna svínabúsins á Brautarholti yfir milljarður og annað eins vegna búsins á Hýrumel.


Morgunblaðið 16. mars 2010, Egill Ólafsson egol@mbl.is


back to top