LS vill rannsókn á ormalyfinu Albencare

Landssamtök sauðfjárbænda hafa óskað eftir rannsókn yfirdýralæknis f.h. MAST og Lyfjastofnunar á málefnum tengdum meðferð ormalyfsins Albencare.
Tilurð málsins er sú að við fósturtalningu á Brjánslæk á Barðaströnd fyrir skömmu kom í ljós að mun fleiri ær eru lamblausar en eðlilegt má telja auk þess sem tvöfalt fleiri eru einlembdar. Í framhaldi af því vaknaði grunur um að lyfið Albencare gæti tengst málinu. Það hefur nú orðið til þess að óskað hefur verið eftir rannsókn.

Óskað er eftir að MAST skoði málið á Brjánslæk og sérstaklega hvort notkun lyfsins Albencare hafi hugsanlega haft þar áhrif.


Einnig er óskað eftir því að samtökunum verið gerð grein fyrir hvaða vinnureglum er farið eftir þegar dýralyf eru gefin öðrum dýrategundum en þeim sem viðkomandi lyf er ætlað frá hendi framleiðanda.


Ennfremur óska samtökin eftir greinargerð um hver sé ábyrgð og upplýsingaskylda innflytjenda, dreifingaraðila og dýralækna ef upp koma álitamál varðandi notkun dýralyfja svo og ef tjón verður af henni.


Í erindi til Lyfjastofnun stofnunin beðin að taka til meðferðar hvort eðlilegt sé að stöðva frekari útgáfur á undanþágum fyrir notkun lyfsins og afturkalla þær sem nú eru í gildi í ljósi rannsóknarinnar sem farið hefur verið fram á.  Jafnframt að skoða á sömu forsendum hvort ástæða sé til að innkalla þær birgðir sem þegar hefur verið veitt leyfi fyrir


Ennfremur er farið fram á að stofnunin skoði hvort umbúðir og aðrar leiðbeiningar með notkun lyfsins frá hendi innflytjanda og/eða dreifingaraðila séu í samræmi við reglur.


Samtökin óska þar að auki eftir upplýsingum hvaða dýralæknar eru handhafar núgildandi undanþága fyrir notkun á Albencare og hvort að stofnunin hafi veitt þær undanþágur með því skilyrði að lyfinu væri aðeins gefið nautgripum eins og leiðbeiningar framleiðanda gefa til kynna.


 


back to top