Taka þyrfti upp nýtt landbúnaðarkerfi

Álit Framkvæmdastjórnar ESB á aðildarumsókn Íslands var til umfjöllunar á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis í fyrradag að ósk Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Hann segir ljóst að aðild að ESB muni hafa gríðarleg áhrif á sjávarútveg og landbúnað hér á landi.

„Í landbúnaðinum er ljóst að það þarf hreinlega að taka upp nýtt landbúnaðarkerfi,“ segir Einar. „Okkar stuðningur við landbúnað er fyrst og fremst framleiðslutengdur, en í Evrópusambandinu er lagt blátt bann við því. Það er líka ljóst mál að umsýslukostnaður verður mun meiri.“


Einar segir það sama eiga við í sjávarútveginum. „Ég tel að núna blasi við eftir þessa yfirferð og svar framkvæmdastjórnar ESB að þetta mál verður ekki leyst í einhverjum tæknilegum viðræðum sérfræðinga Íslendinga við ESB. Þetta eru pólitísk úrlausnarefni,“ segir hann.


back to top