Myndir frá hlaupinu í Markarfljóti
Valur G. Ragnarsson í Stóra-Dal sendi okkur nokkrar myndir af fyrra hlaupinu í Markarfljóti í gær. Á myndunum má sjá vatnsmagnið í fljótinu og svo áhrif þess á flag sem sáð var í káli í fyrravor. Glöggt má sjá hvernig plógstrengirnir skófust í burtu á stóru svæði.
Búfé smalað austan sands í gærkvöldi vegna öskufalls
Bændur og björgunarsveitarmenn smöluðu búfé í Meðallandi í gærkvöldi, en þar gerði mikið öskufall, svo mikið að ekki sá á milli stika á veginum. Töluvert öskufall er einnig í Álftaveri og Skaftártungu. Veginum um Mýrdalssand hefur verið lokað þar sést ekki á milli stika. Öskufallið nær ekki að Kirkjubæjarklaustri.
Ingunn Magnúsdóttir, bóndi á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, segir á mbl.is að ekki sé öskufall þessa stundina.
„Það kemur ekkert niður núna, en það var talsvert mikið öskufall í gærkvöldi. Það er grá hula yfir öllu. Bílarnir eru gráir,“ sagði Ingunn.
Öskufallið byrjaði um kl. 8 í gærkvöldi og stóð fram eftir nóttu. Vindáttin breyttist eitthvað í nótt, en hún er ennþá vestlæg.
Bændum austan sands er bent á að huga að búfénaði vegna öskufalls
Öskufalls frá gosinu í Eyjafjallajökli er farið að gæta verulega á svæðinu austan gosstöðvanna, í Meðallandi, Skaftártungu og neðri hluta Landbrots. Rekja má kolsvartan strók sem lagði frá gosstöðvunum fyrr í kvöld til gjóskunnar. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur verið haft samband við bændur í Meðallandi og Skaftártungum og eru þeir nú að taka búfénað inn. Þá hafa Almannavarnir sent út tilkynningu þar sem búfjáreigendum á áhrifasvæði eldgossins er bent á að fylgjast grannt með mögulegu öskufalli, t.d. með því að leggja út hvítan disk.
Á www.ruv.is er haft eftir Hauki Snorrasyni í Hrífunesi í Skaftártungu að ský hafi tekið að myndast yfir jöklinum síðdegis. Á mjög skömmum tíma hafi askan tekið að falla og svartamyrkur hafi verið komið kl. hálfátta vegna öskunnar. Ekki sé hægt að vera úti því askan fylli öll vit. Haukur segir mjög dimmt, askan hafi lagst yfir eins og ský.
Mikið tjón á Þorvaldseyri
„Þetta er engu líkt og ótrúlegt að sjá þetta,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri að því er fram kemur á mbl.is. Ólafur er nú að skoða aðstæður heima við eftir flóð sem varð í Svaðbælisá fyrr í dag. Ljóst er að tjón á Þorvaldseyri er umtalsvert, leiðslur fyrir heitt vatn og kalt vatn eru í sundur sem og rafmagnsleiðslur. Vatnslaust er í fjósinu og forgangsmál í augnablikinu að reyna að tryggja að gripirnir fái vatn.
Bændur mega sinna skepnum sínum
Lögreglustjórinn á Hvolsvelli hefur ákveðið að leifa bændum að fara heim til sín, tímabundið, að sinna skepnum sínum. Þetta er gert vegna vísbendinga um að flóðið niður Markarfljót sé í rénun, í augnablikinu.
Verðlaun fyrir bestu sæðingahrútana 2010
Viðurkenning fyrir bestu hrúta sæðingastöðvanna var veitt á afmælisráðstefnu Landsamtaka sauðfjárbænda 9. apríl. Á síðasta ári hófu stöðvarnar að veita þessa viðurkenningu sem eru farandgripir og mikil listaverk eftir Sigríði Kristjánsdóttur á Grund, styttur af hrúti.
Veittar eru tvær viðurkenningar, önnur fyrir besta lambaföðurinn á stöðvunum og féll hún í hlut félagsbúsins í Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum og veitti Sigurður Sigurjónsson henni viðtöku.
Flóðið virðist vera í rénun
Vatnamælingamenn segja að svo virðist sem flóðið hafi náð hámarki og búast jafnvel við að það sé í rénun. Engir jakar eru í hlaupinu, sem þykir benda til þess að gosið sé ekki stórt.
Eldgos hófst undir Eyjafjallajökli í nótt. Það er margfalt kröftugra en gosið á Fimmvörðuhálsi. Gossprungan er um tveggja kílómetra löng.
Mikið flóð flæðir nú niður Markarfljótsaura og niður heiðarnar ofan við bæinn Þorvaldseyri, undir Eyjafjöllum. Flóðið á Markarfljótsaurum flæðir nú yfir þjóðveginn við bæinn Seljaland. Búið er að rjúfa veginn á nokkrum stöðum og enn flæðir undir brýr og ekki yfir þær.
Markarfljót flæðir yfir þjóðveginn
Gosið í Eyjafjallajökli er mun öflugra en það sem varð á Fimmvörðuhálsi. Skv. upplýsingum frá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð er það talið vera um 10 til 20 sinnum öflugra. Sprungan norður-suður er nú um 2 km á lengd. Þrjú göt eru nú sjáanleg á jöklinum.
Flóð er í Markarfljóti og flæðir yfir þjóðveginn við bæinn Seljaland. Búið er að rjúfa veginn á nokkrum stöðum og enn flæðir undir brýrnar og ekki yfir þær. Flóðið er kolmórautt og illúðlegt á að líta og gríðarmikill straumur, þótt jarðvísindamenn segi þetta enn minna en Gjálparhlaupið, sem fylgdi gosinu í Vatnajökli árið 1996. Athygli vekji að engir ísjakar hafi borist með flóðinu. Menn eigi síst von á því að flóðið dvíni í bráð, en útilokað sé að spá um hvað gerist. Jarðvísindamenn eru ekki farnir að taka sýni, enda aðstæður mjög varasamar, fljótið eins og haf á að líta.
Gos í Eyjafjallajökli?
Upp úr kl. 23:00 í gærkvöldi byrjaði jarðskjálftahrina undir Eyjafjallajökli. Í kjölfarið var skilgreint hættusvæði rýmt og um 700 íbúum gert að yfirgefa heimili sín en talið er líklegt að gos geti verið að hefjast í Eyjafjallajökli. Tveimur flugvélum var flogið yfir Eyjafjallajökul snemma í morgun og sáu bólstur sem bendir til þess að þar sé gosmökkur, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Hann hefur ekki heyrt af vatnavöxtum. Ákafur gosórói hafi mælst í jöklinum meirihluta nætur. Líklegasti staðurinn fyrir gos sé í suðvesturrótum Eyjafjallajökuls, upp af Steinafjalli.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Almannavarna náðu bólstrarnir, sem sáust úr flugvélunum, í 1000 feta hæð. Það teljist frekar lítið. Allt bendi til þess að gos sé hafið og það sé af svipaðri stærð og það sem var á Fimmvörðuhálsi.
Töluverðar mannabreytingar í stjórn Auðhumlu

Aðalfundur Auðhumlu var haldinn á Hótel KEA föstudaginn 9. apríl 2010. Á fundinn mættu allir 60 fulltrúar eða varamenn sem boðaðir voru til fundarins ásamt stjórn, forstjóra og starfsmönnum. Kynntar voru skýrslur um rekstur Auðhumlu samstæðunnar árið 2009. Fram kemur í ársskýrslu Auðhumlu að á árinu 2009 batnaði rekstrarniðurstaða Auðhumlu nokkuð þrátt fyrir afar erfið ytri skilyrði og 10-15% samdrátt í ráðstöfunartekjum einstaklinga frá árinu 2008. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði varð 297 milljónir króna en var 92 milljónir króna árið 2008. Tap varð af rekstrinum fyrir skatta sem nam 624 milljónum króna sem er um 354 milljónum króna betri niðurstaða en á árinu 2008.
Reykjahlíð gefur hvergi eftir
Uppgjör mars-mánaðar í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hefur verið birt á vef Bændasamtakanna. Afurðir eftir árskú halda áfram að lækka og eru nú 5.082 kg/árskú. Hér á Suðurlandi hafa afurðir aftur á móti aukist lítillega frá því í febrúar og reiknast nú 5.403 kg/árskú.
Skýrsluskil eru mjög góð eða 96% á landinu öllu. Hér á Suðurlandi eru skýrsluskil best í A-Skaft. eða 100%. Síðan koma Árnessýsla og V-Skaft. með 97% og Rangárvallasýsla með 89%. Í Rangárvallasýslu eru lökustu skýrsluskil á landinu sem hlýtur að teljast miður.
Afurðir eru sem fyrr mestar í Skagafirði en Snæfellingar koma þar mjög skammt á eftir. Hér á Suðurlandi eru afurðir nú mestar í Árnessýslu.
Sauðfjárbændur vilja endurskoðun á niðurfellingum varnarlína
Aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda lauk á Hótel Sögu í gær. Helgi Haukur Hauksson var kjörinn fulltrúi Austurlands í stjórn samtakanna í stað Baldurs Grétarssonar sem hafði lokið kjörtíma sínum. Þórarinn Pétursson var endurkjörinn í stjórn sem fulltrúi Norðurlands. Ekki var kosið um aðra fulltrúa í stjórninni.
Fundurinn afgreiddi alls 39 mál um fjölbreyttustu málefni og fara samþykktir fundarins hér á eftir:
Niðurstöður skýrsluhalds sauðfjárræktarinnar
Niðurstöður úr skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar fyrir árið 2009 eru komnar á vefinn hjá okkur. Um er að ræða afurðatölur, kjötgæðatölur og lista yfir afurðahæstu búin og bú með bestu flokkun með tilliti til kjötgæða í fyrra. Smellið hér til að skoða niðurstöðurnar.
Sauðfjárbændur vilja skoða sameiningu og verkaskiptingu afurðastöðva í kjötiðnaði
Í gærkvöldi hófst afgreiðsla mála á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda en fundurinn hófst kl. 10.00 í gærmorgun. Þá voru afgreidd 17 mál m.a. um ESB, varnarlínur, sameiningu ráðuneyta og margt fleira.
Fundurinn stendur til kl. 12.00 en eftir hádegi hefst málþing í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna. Dagskrá og önnur gögn vegna aðlfundarins er að finna á vefsíðu LS, www.saudfe.is.
Hér fyrir neðan má lesa samþykktir gærdagsins:
Námskeiðið orkubóndinn í Landbúnaðarháskólanum
Námskeiðið Orkubóndinn verður haldið í Ásgarði hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri 13. og 14. apríl næstkomandi en á námskeiðinu getur áhugafólk um virkjun orku kynnt sér smávirkjanir af ýmsu tagi og fengið ráð um hvernig hægt er að beisla orkuna heima fyrir. Orkubóndinn hefur verið haldinn á sjö stöðum í vetur og hafa 650 þátttakendur sótt námskeiðið. Lögð er áhersla á að gera efnið skemmtilegt og aðgengilegt öllum og er námskeiðsgjaldið einungis 3000 krónur.
Samtök lánþega í landbúnaði stofnuð
Á morgun, fimmtudaginn 8. apríl verða samtök lánþega í landbúnaði stofnuð á Hótel Hvolsvelli. Markmið samtakanna er að berjast fyrir réttlátum skuldbreytingum hjá lántakendum, þannig að lántakendur geti eftirleiðis staðið í skilum. Einnig að berjast fyrir því að fjölskyldur geti áfram stundað búskap.
Málþing um sauðfjárrækt
Í tilefni af 25 ára afmæli Landssamtaka sauðfjárbænda efna samtökin til málþings um sauðfjárrækt næst komandi föstudag, 9. apríl. Málþingið verður haldið á Hótel Sögu, nánar tiltekið í ráðstefnusalnum Stanford. Þingið hefst kl 13.00 og er áætlað að það standi til kl. 17.00.
Dagskrá þingsins er eftirfarandi:
Uppbygging háhraðanets á góðri leið
Í febrúar og mars s.l. hófst sala á háhraðanettengingum í Hornafirði, Skaftárhreppi og Mýrdalshreppi. Stefnt er að því að hefja sölu á tengingum í síðasta áfanga háhraðanetsverkefnis fjarskiptasjóðs í ágúst næstkomandi í stað desember eins og áður var áætlað, að sögn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Samkvæmt áætlun um framvindu verkefnisins er fyrirhugað að sala á háhraðanettengingum hefjist í maí n.k. á þeim svæðum/bæjum hér sunnanlands sem ekki eiga nú þegar kost á slíkum tengingum. Um er að ræða svæði/bæi í Ásahreppi, Rangárþingi eystra og ytra, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshr., Hrunamannahr., Skeiða- og Gnúpverjahr. og Ölfusi.
Ungir bændur taka undir með LK varðandi viðskipti með greiðslumark
Stjórn Samtaka ungra bænda fagnar mjög ályktun frá aðalfundi LK sem lýtur að því að koma á sameiginlegum tilboðsmarkaði fyrir viðskipti með greiðslumark í mjólk ekki síðar en kvótaárið 2011. Það gríðarlega háa verð sem verið hefur á greiðslumarki hefur verið greininni dýrt auk þess sem það hefur hamlað mjög nýliðun í greininni. Einnig er mjög mikilvægt að allt greiðslumark komi á markað nú þegar að mikil hætta er á að bankastofnanir eignist bú skuldsettra bænda og geti farið að ráðstafa greiðslumarki útúr bönkunum líkt og öðrum eignum án auglýsingar eins og dæmin sanna.
Enn versnar hagur svínabænda
Sláturfélag Suðurlands hefur lækkaði verð á svínakjöti til bænda um 8% í gær. Þann 8. feb. s.l. hafði verðið hækkað um 9% en nú er sú hækkun tekin til baka og verðið orðið það sama og það var frá 6. júlí í fyrra. Þannig er verð á Grís IA til bænda nú 280 kr/kg. Ástæður lækkunarinnar eru gríðarlegt offramboð á svínakjöti og stöðug undirboð á markaði að sögn Sláturfélagsins. Allt eins má búast við frekari verðlækkunum á næstunni.






