Stórt hlaup í Markarfljóti

Gos hefur verið jafnt og stöðugt í allan dag. Stórt vatnsflóð kom niður Gígjökul kl. 18.30 er að fara niður í byggð. Rauf það varnargarða í Fljótshlíð við Þórólfsfell á leið sinni til sjávar. Svo virðist sem að gamla brúin hafi sloppið en flóðið er farið að sjatna.
Öskufall hefur verið mikið í allan dag og aðallega bundið við svæðið á milli Hjörleifshöfða og Kirkjubæjarklausturs en þar féll aska er leið á daginn. Ekki sást handaskil þegar verst var á Mýrdalssandi og í Álftaveri. Vegurinn á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur var opnaður þegar leið á daginn og öskufall minnkaði þegar leið á kvöldið. Aska er farin að falla á Höfn á Hornafirði en þar liggur víða þunnt lag af ösku yfir. Veðurspá gerir ráð fyrir að vindur fari í norðanátt og þá má búast við öskufalli undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum þegar líður á morgundaginn.

Flúorinnihald hættulegt búpeningi
Greining á ösku hefur leitt í ljós að flúorinnihald er hættulegt búpeningi þegar öskulag er meira en 1 cm.  Vel er fylgst með eldingum og þær hafa verið bundnar við gosmökkinn hingað til.
Fólk er hvatt til að kynna sér leiðbeiningar Almannavarna og Umhverfisstofu er varða hvernig bregðast eigi við gjóskufalli.


back to top