Markarfljót flæðir yfir þjóðveginn

Gosið í Eyjafjallajökli er mun öflugra en það sem varð á Fimmvörðuhálsi. Skv. upplýsingum frá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð er það talið vera um 10 til 20 sinnum öflugra. Sprungan norður-suður er nú um 2 km á lengd. Þrjú göt eru nú sjáanleg á jöklinum.
Flóð er í Markarfljóti og flæðir yfir þjóðveginn við bæinn Seljaland. Búið er að rjúfa veginn á nokkrum stöðum og enn flæðir undir brýrnar og ekki yfir þær. Flóðið er kolmórautt og illúðlegt á að líta og gríðarmikill straumur, þótt jarðvísindamenn segi þetta enn minna en Gjálparhlaupið, sem fylgdi gosinu í Vatnajökli árið 1996. Athygli vekji að engir ísjakar hafi borist með flóðinu. Menn eigi síst von á því að flóðið dvíni í bráð, en útilokað sé að spá um hvað gerist. Jarðvísindamenn eru ekki farnir að taka sýni, enda aðstæður mjög varasamar, fljótið eins og haf á að líta.

Þá er flóð í Svaðbælisá við Þorvaldseyri þar sem vatn og aur flæðir nú yfir tún og akra. „Það er þegar orðið tjón hjá mér. Aur flæðir yfir túnin. Það er sárt að sjá þetta því túnin voru orðin græn,“ sagði Ólafur Þorvaldsson, bóndi á Þorvaldseyri, í viðtali við mbl.is. Ólafi var gert að fara af svæðinu og segir hann það verið erfitt vitandi af 200 gripum í fjósi. Ekki er talið að bærinn eða gripirnir séu í hættu.


Verði gosið með svipuðum hætti og fyrir 189 árum þegar síðast gaus má búast við töluverðu öskufalli í sveitum og því nauðsynlegt að forða fé frá flúoreitrun auk þess sem ekki er hægt að útiloka hættu af hraunrennsli. Þar sem eldgosið yrði undir ís stafar þó mest hætta af jökulhlaupi. Í hættumati sem gefið var út árið 2005 fyrir ríkislögreglustjóra vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli kemur fram að gos á þessu svæði eru talin geta valdið jökulhlaupum með rennsli á bilinu 3.000-30.000 m³/s.


back to top