Töluverðar mannabreytingar í stjórn Auðhumlu

Aðalfundur Auðhumlu var haldinn á Hótel KEA föstudaginn 9. apríl 2010. Á fundinn mættu allir 60 fulltrúar eða varamenn sem boðaðir voru til fundarins ásamt stjórn, forstjóra og starfsmönnum. Kynntar voru skýrslur um rekstur Auðhumlu samstæðunnar árið 2009. Fram kemur í ársskýrslu Auðhumlu að á árinu 2009 batnaði rekstrarniðurstaða Auðhumlu nokkuð þrátt fyrir afar erfið ytri skilyrði og 10-15% samdrátt í ráðstöfunartekjum einstaklinga frá árinu 2008. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði varð 297 milljónir króna en var 92 milljónir króna árið 2008. Tap varð af rekstrinum fyrir skatta sem nam 624 milljónum króna sem er um 354 milljónum króna betri niðurstaða en á árinu 2008.

Niðurstaða af rekstri félagsins í heild var tap að fjárhæð 474 milljónir króna en var 742 milljónir árið 2008. Hagur fyrirtækisins hefur þannig batnað við mjög erfið skilyrði í efnahags- og atvinnulífi. Afkomubata má rekja til þess að verulegur árangur hefur náðst í hagræðingu í vinnslu og dreifingu mjólkurvara og til þess að staða félagsins á markaði er traust og tekjumyndun sterk.

Ný stjórn var kjörin en hana skipa, Egill Sigurðsson, Berustöðum, Erlingur Teitsson, Brún, Guðrún Sigurjónsdóttir, Glitstöðum, Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum, Jóhannes Torfason, Torfalæk, Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli og Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti.
Varamenn eru; Pétur Diðriksson, Helgavatni, Björn Harðarsson, Holti og Stefán Magnússon, Fagraskógi.

Ársskýrsla Auðhumlu 2009


back to top