Bændum austan sands er bent á að huga að búfénaði vegna öskufalls

Öskufalls frá gosinu í Eyjafjallajökli er farið að gæta verulega á svæðinu austan gosstöðvanna, í Meðallandi, Skaftártungu og neðri hluta Landbrots. Rekja má kolsvartan strók sem lagði frá gosstöðvunum fyrr í kvöld til gjóskunnar. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur verið haft samband við bændur í Meðallandi og Skaftártungum og eru þeir nú að taka búfénað inn. Þá hafa Almannavarnir sent út tilkynningu þar sem búfjáreigendum á áhrifasvæði eldgossins er bent á að fylgjast grannt með mögulegu öskufalli, t.d. með því að leggja út hvítan disk.
Á www.ruv.is er haft eftir Hauki Snorrasyni í Hrífunesi í Skaftártungu að ský hafi tekið að myndast yfir jöklinum síðdegis. Á mjög skömmum tíma hafi askan tekið að falla og svartamyrkur hafi verið komið kl. hálfátta vegna öskunnar. Ekki sé hægt að vera úti því askan fylli öll vit. Haukur segir mjög dimmt, askan hafi lagst yfir eins og ský.

Búfjáreigendum á áhrifasvæði eldgossins er bent á að fylgjast grannt með mögulegu öskufalli, t.d. með því að leggja út hvítan disk. Verði vart við öskufall er mikilvægt að hýsa það búfé sem er við opin hús eða á útigangi, sé það mögulegt. Þar sem því verður ekki komið við, er nauðsynlegt að sjá dýrunum fyrir hreinu drykkjarvatni og koma í veg fyrir að búféð drekki úr kyrrstæðu vatni svo sem pollum og skurðum þar sem aska getur safnast fyrir. Nauðsynlegt er að gefa dýrunum vel og oft af heyi, svo þau séu síður á beit. Einnig er gott að búféð hafi aðgang að saltsteinum.


Aska úr eldstöðvum í Eyjafjallajökli er þekkt fyrir að innhalda mikið af flúor, sem getur haft bæði bráð og langvinn eituráhrif við inntöku. Einnig getur askan haft særandi áhrif á öndunar- og meltingarfæri.


Upplýsingar um áhrif eldgosa á dýr má nálgast í eftirfarandi greinum. Einnig er búfjáreigendum bent á að ráðfæra sig við dýralækna og sérfræðinga Matvælastofnunar.


Frekari leiðbeiningar má finna á vef Matvælastofnunar, www.mast.is.


back to top