Bændur um land allt séu tilbúnir að bregðast við öskufalli

Gosmökkur úr eldgosinu í Eyjafjallajökli með tilheyrandi öskufalli er á leið austur eftir landinu og talsverðs öskufalls hefur orðið vart nú þegar á Kirkjubæjarklaustri og nærsveitum. Búist er við suðvestan-átt í dag og nótt en líkur til að vindur snúist í norðaustan-átt á morgun. Bændur um allt land verða því að vera tilbúnir að bregðast við ef öskufalls gætir á þeirra svæðum. Leiðbeiningar um viðbrögð við eldgosum má finna á síðu Bændasamtakanna, bondi.is og eru bændur allir hvattir til að kynna sér þær grannt.

Grétar Már Þorkelsson búfjáreftirlitsmaður á Höfn sem sinnir öllum Skaftárhrepp leggur mikla áherslu á að bændur á svæðinu hýsi búfé ef þess er nokkur kostur. Ef það er ekki hægt er lífsnauðsynlegt að tryggja skepnum nægt hey og rennandi, hreint vatn. Grétar var í stjórnstöð björgunarsveitarinnar á Klaustri þegar Bændablaðið heyrði í honum og var hann þar að kortleggja útigang og undirbúa að senda menn til að smala fé sem væri úti. „Í allflestum tilfellum verður hægt að koma fé á hús en annars verður gengið frá því að það hafi næg hey og rennandi vatn.“


Haft var samband við bændur á svæðinu í gær af fulltrúum Matvælastofnunar. Fanney Ólöf Lárusdóttir ráðunautur sagði í samtali við Bændablaðið að henni hefði þótt nokkuð skorta upp á að skilaboðin sem menn fengju væru nægilega skýr um til hvaða aðgerða ætti að grípa. Undir þetta tekur Grétar. „Það á ekki að biðja menn um að hýsa, það er skylda þeirra og í langflestum tilvikum brugðust menn auðvitað vel við.“ Erfiðara getur verið um vik að hýsa hross en Grétar segir að fjöldinn á svæðinu sé ekki slíkur að það verði stórfellt vandamál. „Ég reikna með að hægt verði að koma flestum þeirra inn og annars staðar verði málum háttað þannig að sem minnst áhrif verði á hrossin.“


Grétar segir að menn eigi bara að halda sínu búfé inni á meðan öskufall stendur yfir. „Það er meira að segja óþægilegt að standa úti hérna á Klaustri vegna öskufalls og það byrjaði að rigna aðeins áðan. Ef það verður eitthvað úr því gæti sest flúrormengun í polla sem búfé drekkur síðan úr. Aðalatriðið og númer eitt, tvö og þrjú er að útigangur hafi hreint og gott vatn ef það er alls ekki hægt að hýsa. Ég tel að þetta séu um tuttugu bæir sem þarf að huga þessum málum á og það má vel vera að einhverjir séu þegar búnir að gera ráðstafanir. Við munum ganga úr skugga um það.“


Myndirnar sem hér fylgja tók Valgerður Erlingsdóttir, svæðisstjóri Suðurlandsskóga í Skaftafellssýslum, á ferð í Meðallandinu í morgun. Eins og sjá má er skyggni ekki mikið og aðstæður allar heldur skuggalegar.











Meðallandsvegur að morgni 15. apríl.

Leiðvöllur í Meðallandi.

Rúllustæða á bænum Melhóli í Meðallandi.


back to top