Hreinsun túna undir Eyjafjöllum að hefjast
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í samráði við stjórn Bjargráðsjóðs ákveðið að heimila að hafist verði handa við hreinsun túna á bænum Önundarhorni undir Eyjafjöllum. Í tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu kemur fram að Önundarhorn hafi farið einstaklega illa undan flóðinu í Svaðbælisá, eftir að gosið hófst í Eyjafjallajökli. Verulegur hluti túnanna er þakin jökulleir og öðrum framburði. Mjög mikilvægt er að hefjast handa sem allra fyrst vegna vorkomunnar og eru bændurnir Pála Kristin Buch og Sigurður Þór Þórhallsson tilbúin að takast á við það með tilstyrk Bjargráðasjóðs.
Öskufall til norðvesturs og vesturs næstu daga
Í nótt var fremur rólegt yfir gosstöðinni í Eyjafjallajökli. Upp úr miðnætti dökknaði gosmökkurinn talsvert samkvæmt upplýsingum lögreglu og vindátt breyttist þegar leið á nóttina til suðausturs. Aska fellur nú í norðvestur frá eldstöðinni í átt að Fljótshlíð. Rétt er að taka fram að öskufall er nú ekkert í líkingu við það sem var í fyrstu.
Veðurstofan spáir suðaustlægri átt í dag og vaxandi vindi smám saman. Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni. Með öskumistri er átt við truflun í skyggni vegna ösku, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.
Bændur bíða og sjá hvað setur
Sigurður Þórhallsson, bóndi á Önundarhorni undir Eyjafjöllum, segist í viðtali við RÚV standa frammi fyrir því að öll hans ræktun, 100 hektarar, séu hulin aur og ösku. Hann segir jafnframt að yfirlýsingar bænda um að bregða búi dragi mátt úr öðrum og efast um að Bjargráðasjóður dekki allan kostnað sem eldgosið hefur skapað bændum. Hann telur að kostnaðurinn geti sýnt sig þegar líður á, hvað varðar tækjabúnað og vélakost.
Sigurður segist nú vinna að því að gera umhverfi sitt vistlegra og að áður en hann taki ákvörðun um það að hætta búskap vilji hann sjá hver þróun öskufallsins verður. „Ef það hættir þá held ég það sé óhætt að skoða það að byrja að hreinsa.“
Opið hús að Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta
Á sumardaginn fyrsta verður opið hús í að Reykjum í Ölfusi, en þar er miðstöð garðyrkjunáms á Íslandi. Reykir eru í útjaðri Hveragerðisbæjar; skammt frá sundlauginni. Skólinn er opinn frá kl. 10 til 18. Í aðalbyggingu skólans fer fram Íslandsmeistarakeppni í blómaskreytingum og eru allir velkomnir til að fylgjast með keppendum að störfum. Sumarið er komið í garðskálanum og hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu. Verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju verða til sýnis í verknámshúsi. Kaffiveitingar og markaðstorg með garðyrkjuafurðir. Kl. 14:00-15:00 verður hátíðardagskrá þar sem afhent verða garðyrkjuverðlaun LbhÍ og Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar.
Róleg nótt á gosstöðvunum
Að sögn vettvangsstjórnar á Hvolsvelli hefur nóttin verið mjög róleg. Rétt fyrir kl. 01:00 í nótt varð örlítil aukning á vatnsrennsli í Markarfljóti og barst nokkur krapi með en þegar leið að morgni hafði vatnsmagn ekki aukist frekar í ánni. Frá eldstöðvunum má þó enn finna markvissan takt umbrotanna. Vetur og sumar frusu saman undir Eyjafjöllum og er nú mikill snjór og hálka á veginum austan við Markarfljót. Má í dag búast við öskufalli í grennd við eldstöðina og vestur af henni. Þetta kemur fram í féttatilkynningu frá Almannavörnum.
Í tilefni sumardagsins fyrsta verður í dag opið hús og veisla í Heimalandi frá kl. 11-17.
Verða veitingar í boði SS, Emmess ís og Ölgerðarinnar. Rangárvallasýsludeild Rauða Krossins sér um að halda utan um samkomuna líkt og undanfarna daga í Heimalandi.
Heilsugæsla í Rangárþingi efld
Heilsugæslan í Rangárþingi hefur eflt þjónustu sína vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Opnaður hefur verið sérstakur þjónustusími til að sinna líkamlegri og andlegri vanlíðan vegna gossins.
Viðbrögð BSSL við eldgosinu í Eyjafjallajökli
Búnaðarsamband Suðurlands hefur brugðist við eldgosinu í Eyjafjallajökli á margvíslegan hátt. Rauði þráðurinn í viðbrögðunum hefur verið aðstoð, upplýsingamiðlun og ráðgjöf til bænda við þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Hér á heimasíðunni hefur verið reynt að miðla upplýsingum um framgang gossins og hvernig bregðast skuli við, einkum og sér í lagi öskufalli.
Búnaðarsambandið hefur tekið þátt í starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna eldgossins í Eyjafjallajökli en í honum eiga sæti Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri, sem stýrir hópnum, og fulltrúar frá BSSL, BÍ, MAST og Samtökum sveitarfélaga. Starfshópurinn hefur einkum það hlutverk að samræma aðgerðir sem falla utan almannavarnarkerfisins og lögbundinna hlutverka sveitarfélaga.
Eldgosið reynir mjög á bændur
Ljóst er að eldgosið í Eyjafjallajökli hefur reynt mjög á þolrif þeirra bænda sem á svæðinu búa. Það er erfitt að horfa upp á slíkar hamfarir að maður tali nú ekki um þá nagandi óvissu sem um framhaldið ríkir. Á slíkum stundum er mikilvægt að fólk finni fyrir og fái stuðning og ekki verður annað séð en að öll þjóðin hafi samúð með bændum á svæðinu og sé öll af vilja gerð til þess að styðja við bakið á þeim. Þá verður að segjast eins og að aðgangsharka fjölmiðla er oft á tíðum full mikil og brýnt að fólk sem orðið hefur fyrir áföllum sem þessum fái frið og andrými til þess að íhuga sína stöðu og meta ástandið.
Áföll á borð við þessi eru ávallt erfið viðfangs og þrátt fyrir stuðning er ljóst að einhverjir bændur munu gera hlé á búskap sínum en nú þegar hefur verið tilkynnt um slíkt á tveimur búum. Þessi bú eru á því svæði sem orðið hefur hvað verst úti af völdum öskufalls.
Kynbótasýningar hrossa 2010
Senn líður að kynbótasýningum og því rétt að kynna þær. Reiknað er með því að dómar standi samfleytt frá 10. maí til 11. júní. Sýningar á Suðurlandi verða að venju þrjár. Fyrsta sýningin verður í Víðidal í Reykjavík. Tvær dómnefndir verði að störfum á Sörlastöðum og Hellu. Stefnt er að sýningu í Hornafirði ef næg þátttaka fæst, lágmarks skráning er 15 hross.
Sýningar í umsjón Búnaðarsambands Suðurlands eru:
Víðidalur í Reykjavík dagana 10. til 14. maí
Tekið við skráningum í síma 480-1800 dagana 29.apríl til 3. maí
Sörlastaðir í Hafnarfirði dagana 17. til 28. maí
Tekið við skráningum í síma 480-1800 dagana 4. til 6. maí
Héraðssýning Gaddstaðaflötum dagana 31. maí til 11. júní
Tekið við skráningum í síma 480-1800 dagana 17. til 20. maí
Hornafjörður 1. til 2. júní
Tekið við skráningum í síma 470-8088/864-6487 dagana 26.og 27.maí
Ástandið ekki eins slæmt og óttast var
Í gær viðraði til þess að meta ástandið á öskufallssvæðinu undir Eyjafjöllum. Öskufallið er langmest á svæðinu frá Steinum austur að Hrútafelli. Að mati sérfræðinga er ástandið ekki eins slæmt og hafði verið talið fyrirfram en engu að síður grafalvarlegt. Ljóst er að á þeim bæjum sem orðið hafa fyrir mesta öskufallinu þarf að grípa til einhverra aðgerða. Ef hins vegar bætist ekki þeim mun meira við öskuna munu rigningar að öllum líkindum skola henni burt og bændur ættu geta slegið tún sín í sumar. Hins vegar þarf að meta aðstæður á hverjum stað og gefa sér tíma til þess.
Aðalfundi BSSL frestað
Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hefur verið ákveðið að fresta aðalfundi Búnaðarsamband Suðurlands sem halda átti í dag, miðvikudaginn 21. apríl, um óákveðinn tíma.
Ný tímasetning verður tilkynnt síðar.
Dregið hefur úr öskufalli og virkni gossins í dag
Dregið hefur úr virkni gossins í Eyjafjallajökli í dag og öskufall minnkað mikið. Á sama tíma hefur flúorinnihald öskunnar aukist vegna þess að nú bráðnar ís í minni mæli og því á sér ekki stað „forþvottur“ á öskunni. Flúormengunin er þó minni en í ösku sem fylgt hefur t.d. Heklugosum.
Veðurstofan spáir öskufalli til norðausturs eða austurs á morgun. Annars hljóðar öskufallsspá næstu daga þannig:
Bjargráðasjóði verður tryggt fjármagn
Á ríkisstjórnarfundi í morgun var fjallað um gosið í Eyjafjallajökli og afleiðingar þess. Stjórnin ákvað að leggja áherslu á að veita íbúum svæðisins sálgæslu og annan nauðsynlegan stuðning. Einnig er tekið fram í frétt frá ríkisstjórninni að hún muni beita sér fyrir því að Bjargráðasjóði verði tryggt nægilegt fjármagn til að standa undir því að bæta það tjón sem honum er lögum samkvæmt ætlað.
Fréttin af ríkisstjórnarfundinum fer hér á eftir í heild sinni:
Eldvirkni í þremur gígum
Í flugi sérfræðinga með Landhelgisgæslunni eftir hádegi í gær kom í ljós að talsvert gos er í gangi, eldvirkni er enn í þremur gígum sem ennþá virðast vera aðskildir. Gosmökkurinn er lítill og ljós sem bendir til að gjóska sé ekki mikil í honum, segir í yfirliti frá Samhæfingarstöð. Gjóskan úr eldstöðinni virðist hlaðast upp á brúnina og mynda þar hrygg.
Kleprar úr sprengingum í gígunum náðu í um 1,5 – 3 km hæð í gærmorgun. Ekkert hraunrennsli var frá gígunum. Sunnar náðu öskuskýin í um 5-6 km hæð. Ekki var hægt að merkja hraunrennsli frá gosinu, hvorki til norðurs né suðurs. Hætta á hlaupi er ekki til staðar vegna sírennslis vatns niður jökulinn.
Erlend bændasamtök senda íslenskum bændum kveðjur og hvatningarorð
Bændasamtökum Íslands hafa borist kveðjur og hvatningarorð til bænda á Íslandi vegna áhrifa eldgossins í Eyjafjallajökli. Norsku bændasamtökin, Norges bondelag, sendu í dag bréf til BÍ þar sem forsvarsmenn þeirra lýstu yfir stuðningi við þá bændur sem nú berjast við náttúruöflin og bjóða aðstoð sína ef þörf krefur. Þá sendi David King, aðalritari Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda, IFAP, íslenskum bændum góðar kveðjur og ítrekaði samstöðu IFAP með þeim. Kveðjur hafa borist víðar frá erlendum bændum og samtökum þeirra, m.a. frá Finnlandi og Svíþjóð.
Nauðsynlegt að hvíla hross sem hósta
Smitandi hósti í hrossum breiðist nú á milli hesthúsa víða um land og er talið líklegast að um veirusýkingu sé að ræða. Fyrstu rannsóknir benda til þess að ekki sé um hestainflúensu eða smitandi háls- og lungnakvef/fósturlát (EHV-1) að ræða en það eru alvarlegustu veirusýkingarnar sem leggjast á öndunarfæri hrossa. Áfram er unnið að því að greina orsökina. Ekki er enn vitað til þess að hross á útigangi hafi sýkst og óvíst hvort það muni gerast, en það kæmi sér sérlega illa nú þegar hætta á öskufalli er yfirvofandi á stórum landssvæðum. Hestamönnum er því ráðlagt að hafa fataskipti og þvo sér um hendur áður en útigangshrossum er gefið og ekki gefa útigangi moð frá sýktum hrossum.
Hraungos líklega hafið
Hraungos er líklega hafið í gígnum á Eyjafjallajökli, að sögn Veðurstofu Íslands. Miklar sprengingar eru í honum. Í morgun náði mökkurinn í um 4 km hæð og bendir lægri gosmökkur til þess að vatn komist ekki lengur í gíginn og hraunflæði sé hafið. Veðurstofan segir að óróinn sem jókst kl. 4 í nótt geti gefið til kynna að hraun sé byrjað að renna úr gígnum.
Mökkinn leggur beint í suður enda stíf norðanátt. Laus aska fýkur af Mýrdalsjökli.
Veðurstofan spáir því að öskufall verði einkum undir Eyjafjöllum næstu daga.
Áríðandi tilkynning til eigenda útigangshrossa
Eigendur útigangshrossa um allt land þurfa að búa sig undir verja hross sín fyrir öskufalli. Of seint er að bregðast við eftir að umtalsvert öskufall er skollið á.
Miðað við veðurspá fyrir næstu daga er mest hætta á öskufalli í Rangárvallasýslu en hrossaeigendur á öllu Suður- og Suðausturlandi þurfa að vera í viðbragðsstöðu.
Þar sem mikið öskufall verður er hrossum bráð hætta búin af því að anda að sér öskunni, drekka mengað vatn og éta hana í sig með menguðu fóðri. Því þarf að hýsa öll hross á þeim svæðum. Sé það ekki hægt þarf að flytja þau á öruggari svæði.
Mikið öskufall undir Eyjafjöllum nú
Talsvert öskufall var á svæðinu frá Ásólfsskála að Sólheimajökli í nótt. Skyggni hefur verið á bilinu fjögur til fimm hundruð metrar en á köflum hefur það farið niður í um eitt hundrað metra. Í morgun barst tilkynning frá Þorvaldseyri um nær ekkert skyggni á svæðinu og að sögn Magnúsar Ragnarssonar, lögreglumanns á Hvolsvelli er skyggnið um einn metri. Núna er mikið öskufall undir Eyjafjöllum enda hefur verið norðanátt yfir gosstöðvunum sem samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands heldur áfram í dag og því hætt við öskufalli undir Eyjafjöllum og jafnvel yfir Vestmannaeyjar. Þá er mikið öskumistur í Mýrdal.
Íbúafundir næstu daga
Næstu daga verða haldnir íbúafundir á Suðurlandi. Þar munu yfirvöld fara yfir stöðu mála með íbúum ásamt almannavarnanefnd í héraði, dýralækni, veðurfræðingi, jarðvísindamanni og fleiri sérfræðingum og fulltrúum stofnana.
Fundirnir eru sem hér segir: