Heilsugæsla í Rangárþingi efld

Heilsugæslan í Rangárþingi hefur eflt þjónustu sína vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Opnaður hefur verið sérstakur þjónustusími til að sinna líkamlegri og andlegri vanlíðan vegna gossins.

Þjónusta læknis og hjúkrunarfræðings er veitt við heilsugæslustöðvarnar á Hellu (sími 480 5320) og Hvolsvelli (480 5330) á dagvinnutíma og utan þess tíma sinnir vakthafandi læknir bráðatilvikum, sími 480 5111


Búið er að opna sérstakan þjónustusíma heilsugæslunnar í Rangárþingi, 896 5080, vegna líkamlegrar og andlegrar vanliðan tengd eldgosi. Síminn er opinn milli 8-16 en framvísað á  síma RKÍ 1717 utan þess tíma. Í þessu númeri er tekið við beiðnum um þjónustu.


Í íbúamiðstöð að samkomuhúsinu Hvoli Hvolsvelli er hægt að setjast niður í spjall og kaffi.  Þar liggja frammi upplýsingar og bæklingar vegna eldgoss og afleiðinga þess og þar er einnig skráðar niður beiðnir um frekari aðstoð.


Að Heimalandi V-Eyjafjöllum er opin íbúamiðstöð kringum hádegið og fram eftir degi.  Þar er einnig veitt tímabundið ákveðin þjónusta heilsugæslu og sálfræðiþjónusta en upplýsingar um nánari viðverutíma eru veittar á staðnum og Heilsugæslu Rangárþings.


Skólasálfræðingar hafa veitt starfsfólki grunnskóla og leikskóla fræðslu vegna einkenna um streitu og álag hjá börnum.   Nú fyrst um sinn verður aukin viðvera skólahjúkrunarfræðings við Grunnskólann Hvolsvelli.


Stofnaður hefur verið samræmingarhópur vegna sálfélagslegs stuðnings í Rangárvallasýslu með aðkomu heilsugæslunnar, þjóðkirkjunnar, RKÍ og Félagsþjónustu Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu.


Viðbrögð í Rangárvallasýslu eru skipulögð í náinni samvinnu við sveitarstjórnir, viðbragðsaðila og heimamenn.


Heilsugæslan hefur góða samvinnu bæði við áfallateymi Landlæknis og Landspítalans sem og áfallateymi RKÍ. 


Náið samstarf er við Almannavarnir ríkisins og Almannavarnanefnd Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu


back to top