Viðbrögð BSSL við eldgosinu í Eyjafjallajökli

Búnaðarsamband Suðurlands hefur brugðist við eldgosinu í Eyjafjallajökli á margvíslegan hátt. Rauði þráðurinn í viðbrögðunum hefur verið aðstoð, upplýsingamiðlun og ráðgjöf til bænda við þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Hér á heimasíðunni hefur verið reynt að miðla upplýsingum um framgang gossins og hvernig bregðast skuli við, einkum og sér í lagi öskufalli.
Búnaðarsambandið hefur tekið þátt í starfshópi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna eldgossins í Eyjafjallajökli en í honum eiga sæti Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri, sem stýrir hópnum, og fulltrúar frá BSSL, BÍ, MAST og Samtökum sveitarfélaga. Starfshópurinn hefur einkum það hlutverk að samræma aðgerðir sem falla utan almannavarnarkerfisins og lögbundinna hlutverka sveitarfélaga.


  • Strax í kjölfar gossins var hafist handa við að gera ákveðið stöðumat, m.a. úttekt á húsakosti í Skaftárhreppi og fjölda búfjár á svæðinu. Einnig hafa birgðir tilbúins áburðar og sáðvöru í landinu verið kannaðar. Þá hefur verið hafist handa við að meta það tjón sem orðið hefur á ræktunarlöndum.

  • Hafin er upplýsingasöfnun varðandi áhrif ösku, út frá efnainnihaldi hennar, á ræktun og hvernig bregðast eigi við. Í undirbúningi er útgáfa leiðbeininga þar að lútandi.

  • Verið er að vinna að leiðbeiningum varðandi meðhöndlun sauðfjár og hvernig bregðast eigi við þessum breyttu aðstæðum en nú styttist óðfluga í sauðburð og raunar er hann hafinn á einhverjum bæjum.

  • Fylgst er grannt með öllum rannsóknum á flúorinnihaldi öskunnar en því miður hefur flúormagn í henni aukist þó öskumagn hafi á hinn bóginn minnkað.

  • Búnaðarsambandið hefur einnig reynt að aðstoða bændur, dýralækna, rannsóknaaðila og sveitarfélög eftir því sem kostur er og eftir hefur verið leitað.
Mörgum spurningum er enn ósvarað og á það sérstaklega við um framvindu gróðurs á svæðinu og hvernig bregðast skuli við öskufallinu með hliðsjón af því. Áhersla næstu daga verður lögð á að koma leiðbeiningum um meðhöndlun sauðfjár til bænda sem og ráðgjöf varðandi áburð, sáningu og jarðvinnslu.


back to top