ORF líftækni tvöfaldar ræktun á erfðabreyttu byggi

Nýsköpunarfyrirtækið ORF Líftækni ætlar að tvöfalda ræktun sína á erfðabreyttu byggi í sumar til að anna aukinni eftirspurn eftir afurðum fyrirtækisins. Í sumar mun hluti byggræktunar fyrirtækisins fara fram í 2.500 fermetra gróðurhúsi að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði.
Fyrirtækið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að byggið sem verður ræktað í Borgarfirði myndi í fræjum sínum verðmætt prótein sem m.a. er ætlað til notkunar í snyrtivörur. „Stærstur hluti aukinnar framleiðslu sé ætlað að mæta aukinni eftirspurn meðal erlendra viðskiptavina í snyrtivöruiðnaðinum.

Samhliða aukinni framleiðslu mun dótturfyrirtæki ORF Líftækni, Sif Cosmetics, einnig á næstu vikum markaðssetja nýja og byltingarkennda húðdropa sem þróaðir hafa verið í samvinnu við fremstu vísindamenn landsins á sviði próteintækni, húðlækna og erlend snyrtivörufyrirtæki. Um er að ræða fyrstu vöru fyrirtækisins fyrir almennan neytendamarkað.


Ræktuninni  á Kleppjárnsreykjum fylgja ný störf en auk þess munu aukin umsvif skapa störf við vinnslu próteinsins úr bygginu, markaðssetningu og sölu. Yfir þrjátíu manns starfa nú hjá ORF Líftækni í nýjum höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kópavogi og í hátæknigróðurhúsinu Grænu Smiðjunni í Grindavík.“


back to top