Hreinsunarstarf undir Eyjafjöllum í fullum gangi

Sjálfboðaliðar hafa undanfarna daga aðstoðað bændur undir Eyjafjöllum við hreinsunarstarf eftir öskufallið frá gosinu í Eyjafjallajökli. Hátt í eitt hundrað manns eru að störfum á bæjum undir Eyjafjöllum og er skipulaginu er stýrt frá félagsheimilinu Heimalandi. Að sögn Jóhönnu Róbertsdóttur, svæðisfulltrúa Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum, eru sjálfboðaliðarnir frá 4×4, Rauða krossinum og úr hópi sem var settur saman á Fésbókinni auk liðsmanna úr björgunarsveitunum og frá Brunavörnum Árnessýslu. Fólkið vinnur að hreinsun á bæjum, skolun á veggjum og þökum auk hreinsunar á hlöðum krigum bæina. Einnig fái bændur aðstoð frá fólkinu við ýmislegt sem þeir óski eftir að fá aðstoð við.
Þá eru einhverjir bændur byrjaðir að plægja akra og hreinsa tún eftir föngum. Þannig hefur t.d. einn veghefill verið í því að hreinsa vegi, heimreiðar og hlöð.
Nú rignir hressilega undir Eyjafjöllum og er það kærkomið og vonandi að öskunni skoli niður og tún nái að hreinsa sig að verulegu leyti.


back to top