Bændur bíða og sjá hvað setur

Sigurður Þórhallsson, bóndi á Önundarhorni undir Eyjafjöllum, segist í viðtali við RÚV standa frammi fyrir því að öll hans ræktun, 100 hektarar, séu hulin aur og ösku. Hann segir jafnframt að yfirlýsingar bænda um að bregða búi dragi mátt úr öðrum og efast um að Bjargráðasjóður dekki allan kostnað sem eldgosið hefur skapað bændum. Hann telur að kostnaðurinn geti sýnt sig þegar líður á, hvað varðar tækjabúnað og vélakost.
Sigurður segist nú vinna að því að gera umhverfi sitt vistlegra og að áður en hann taki ákvörðun um það að hætta búskap vilji hann sjá hver þróun öskufallsins verður. „Ef það hættir þá held ég það sé óhætt að skoða það að byrja að hreinsa.“

Aðrir bændur gera slíkt hið sama og Sigurður, bíða og sjá hvað setur. Sigurður Sigurjónsson bóndi á Ytri-Skógum sagðist vona það besta í sjónvarpsfréttum RÚV og ætlar að bíða og sjá hvort ekki úr rætist. Hann segir að erfitt sé að bíða með að setja féð út mikið lengur en fram yfir miðjan maí. Öskulag liggur yfir heiðarlöndunum fyrir ofan Eyjafjöllin og setur sauðfjárrækt á svæðinu í hættu en í venjulegu árferði hefst sauðféð þar við í þrjá mánuði á ári.


Sauðfjárbændur sjá fram á að geta ekki rekið féð upp í heiðarlöndin sem liggja upp að jöklinum. Önnur beitilönd eru ekki fyrir hendi og gæti farið svo að flytja þurfi fé yfir varnarlínu og verið er að skoða beitilönd í kringum Gunnarsholt.


back to top