Hreinsun túna undir Eyjafjöllum að hefjast

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í samráði við stjórn Bjargráðsjóðs ákveðið að heimila að hafist verði handa við hreinsun túna á bænum Önundarhorni undir Eyjafjöllum. Í tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu kemur fram að Önundarhorn hafi farið einstaklega illa undan flóðinu í Svaðbælisá, eftir að gosið hófst í Eyjafjallajökli. Verulegur hluti túnanna er þakin jökulleir og öðrum framburði. Mjög mikilvægt er að hefjast handa sem allra fyrst vegna vorkomunnar og eru bændurnir Pála Kristin Buch og Sigurður Þór Þórhallsson tilbúin að takast á við það með tilstyrk Bjargráðasjóðs.

Hildur Traustadóttir, stjórnarformaður Bjargráðasjóðs, hefur að undanförnu kynnt sér aðstæður og  sótt upplýsingafundi sem hafa verið haldnir meðal íbúa á áhrifasvæði gossins. Samkvæmt upplýsingum Hildar mun stjórn sjóðsins funda í dag og fara yfir stöðu mála. Kappkostað verður að aðkoma sjóðsins verði bæði skjótvirk og skilvirk.


Jón Bjarnason, landbúnaðarráðherra, fór í gær um öskusvæðið undir Eyjafjöllum og skoðaði vegsumerki eftir hlaup Svaðbælisár við bæinn Þorvaldseyri. Farvegur árinnar þar efst er nú fullur af sandi og aur og getur alls ekki flutt mikið vatn án þess flæða yfir bakka sína og skapa þannig hættu á enn frekara tjóni en þegar er orðið á Þorvaldseyri.


Ráðuneytið segir, að fyrir liggi að styrkja þurfi og hækka varnagarða frekar og jafnvel dýpka farveg árinnar svo fljótt sem verða megi. Slíkt verkefni sé til skoðunar hjá Vegageðinni og Landgræðslu ríkisins í samráði við Ólaf Eggertsson bónda á Þorvaldseyri.


Áfram er unnið að skoðun mála er tengjast sjálfu öskufallinu og aðgerðum tengdum því af samráðsnefnd ráðuneytisins ásamt öðrum aðilum.


back to top