Afkvæmarannsóknir á hrútum fyrir kjötgæðaeiginleika haustið 2009

Haustið 2009 var umfang afkvæmarannsókna á hrútum sem unnar voru á vegum búnaðarsambandanna um allt land meira en nokkru sinni. Rannsóknir voru gerðar á samtals 269 búum og voru yfir 2.400 afkvæmahópar sem þar fengu sinn dóm. Allar niðurstöður úr einstökum rannsóknum hafa nú verið settar á vef Bændasamtaknna. Þarna má finna allar helstu meðaltalstölur fyrir hvern einstakan afkvæmahóp ásamt einkunnum hrúta í rannsókninni.

Niðurstöður á flúormælingum í 4 gróðursýnum

Fjögur gróðursýni voru tekin á jafnmörgum bæjum undir Eyjafjöllum þann 3. maí síðast liðinn. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun þá er miðað við flúorþolmörk í fóðri hjá nautgripum um 25-30 mg/kg og sauðfjár við 70-100 mg/kg.
Niðurstöður úr þessum fjórum gróðursýnum eru allt frá því að vera vel yfir þeim viðmiðunarmörkum upp í að vera langt yfir mörkunum.

Stærstu eigendur Líflands vilja innleysa hlutabréf

Sagt er frá því í Morgunblaðinu í dag að stærstu eigendur í Líflandi hf. hafa óskað eftir að innleysa hlutabréf í félaginu á genginu 2,5. Þórarinn V. Þórarinsson lögfræðingur segir þetta gert vegna þess að einn aðili sé kominn með yfir 90% hlut í félaginu, en um 250 smáir hluthafar fari með liðlega 7% hlutafjár.
Lífland hét áður Mjólkurfélag Reykjavíkur. Það félag var samvinnufélag, en var breytt í hlutafélag fyrir nokkrum árum í kjölfar rekstrarerfiðleika og fékk þá nafnið Lífland. Langstærsti eigandi Líflands er Geri ehf. en stærstu eigendur þess eru Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, og Þórir Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Líflands.

Sækja þarf um leyfi til flutnings líflamba milli varnahólfa fyrir 1. júlí n.k.

Þeir sem sækja um leyfi til að flytja líflömb milli varnarhólfa skulu sækja um það til Matvælastofnunar fyrir 1. júlí á sérstökum eyðublöðum, sem eru að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Matvælastofnun veitir leyfi fyrir 1. ágúst eða hafnar umsókninni ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði reglugerðarinnar.
Þeir sem hyggjast sækja um eru hvattir til að kynna sér reglugerð nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða.

Búast má við öskufalli frá Hvammi að Skógum næstu daga

Samkvæmt sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans frá kl. 12 í dag bendir ekkert til þess að gosinu sé að ljúka. Gosmökkurinn er ljósgrár og er að jafnaði í 4-5 km hæð samkvæmt veðurratsjá en rís stundum ofar. Hann stefnir í suðaustur en vindáttir eru þó breytilegri við yfirborð og austlægar. Gjóskufall er vestar en áður, var á Skógum í morgun og hófst á Þorvaldseyri um klukkan átta. Er að sögn ábúenda þar að færast vestar. Askan er svört.
Veðurstofan spáir hægri vestlægri eða norðlægri átt og hægviðri af og til fram á þriðjudag. Búast má við öskufalli suður af eldstöðinni eða undir Eyjafjöllum, frá Hvammi og austur að Skógum fram á þriðjudag. Á miðvikudag og fimmtudag má búast við öskufalli fyrir austan eldstöðina.

Reglur um aðstoð Bjargráðasjóðs vegna eldgossins í Eyjafjallajökli

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú staðfest reglur Bjargráðasjóðs um aðstoð vegna tjóns af völdum öskufalls og flóða vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Bændur sem þurfa aðstoð hringi í 112

Sett hefur verið upp hjálparmiðstöð í Vík, með svipuðu formi og þeirri sem er á Heimalandi undir Eyjafjöllum. Miðstöðin verður í félagsheimilinu Leikskála. Þar verða fundir á milli 11:30 og 13:30 alla virka daga og getur fólk komið þangað til að ræða málin og fá ráðgjöf, bæði bændur og aðrir. Hreinsunarstarf er að fara af stað í Vík og verða skólinn, leikskólinn og elliheimilið þrifin í dag. Guðmundur Ingi INgason, lögreglumaður, mun stjórna miðstöðinni.
Sérstaklega verður reynt að meta þörf bænda í nágrenninu fyrir aðstoð og hvetur Guðmundur Ingi alla bændur sem þurfa einhverja hjálp, sama hvað það er, að hringja einfaldlega í 112, og biðja um að verða áframsendir á miðstöðina í Vík.

Sauðfjárbændur séu vakandi gagnvart Albencare ormalyfinu

Landssamtök sauðfjárbænda áttu í lok síðasta mánaðar fund með fulltrúum Matvælastofnunar og Lyfjastofnunar vegna lyfsins ormalyfsins Albencare en eins og kunnugt er þá sendu samtökin greinargerð um málið til beggja stofnananna í síðasta mánuði vegna gruns um að lyfið væri að valda tjóni hjá bændum.
MAST hefur hafið upplýsingaöflun í málinu og hefur m.a. skrifað öllum dýralæknum og óskað eftir upplýsingum um umfang notkunar lyfsins.

Mikið óvissuástand á öskufallssvæðunum

Það er öllum ljóst að ástandið undir Eyjafjöllum, Mýrdal og Skaftárhreppi er mjög alvarlegt vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Því miður hefur öskufall aukist á nýjan leik en hraun er á þessari stundu hætt að renna og gosið orðið sprengigos með tilheyrandi öskufalli á nýjan leik. Nú fellur aska fyrst og fremst til austurs, í Mýrdal og Álftaveri og jafnvel austar í Skaftárhreppi. Búnaðarsambandið vinnur að því að aðstoða bændur á svæðinu og finna möguleg úrræði. Líkur á því að sauðfé verði beitt á afrétti í sumar fara nú minnkandi með hverjum degi sem líður auk þess sem heyskapur sumarsins er í mikilli óvissu.

Mikið öskufall í Vík og Mýrdal – fólk haldi sig innan dyra

Mikið öskufall hefur verið í Vík í Mýrdal í gærkvöldi og nótt. Mælingar á svifryki sýndu talsverða hækkun í gærkvöldi og sólarhringsmeðaltal gærdagsins, 6. maí, var 418µg/m3 sem er langt yfir heilsuverndarmörkum. Nokkur klukkutímagildi í nótt voru með þeim hæstu sem mælst hafa frá því farið var að mæla svifryk á Íslandi. Fólki er eindregið ráðlagt að halda sig innan dyra við þessar aðstæður. Ef nauðsynlegt er að fara úr húsi er brýnt að nota rykgrímu og þétt hlífðargleraugu. Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til að þétta hurðir og glugga og hækka hitastig í íbúðum svo askan berist síður inn.

Töluvert gjóskufall viðbúið

Nýr fasi er kominn í gosið. Hraun er hætt að renna og mestur hluti kvikunnar er sundrað í kröftugu sprengigosi. Gosmökkur rís hátt yfir gosstöðvum og má búast við töluverðu gjóskufalli undan vindi. Þetta kemur í fram í nýju mati Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Samkvæmt athugun flugmanna milli kl. 05:30 og 08:00 fór mökkurinn þá upp í 30.000 fet/ 9 km. Hæð var breytileg í ratsjá, 4-7 km. Mökkurinn var þrískiptur, efsta lag lagði til SA, neðra lag var með jaðar til SSA og neðst var rykský í jaðarlagi sem sameinaðist fjúki undir Eyjafjöllum.

Verðbreytingar hjá fóðursölum

Á vef Landssambands kúabænda, www.naut.is, er greint frá því að Fóðurblandan hf og Bústólpi ehf hafi lækkað verð á kjarnfóðri um allt að 3% vegna gengisþróunar og hagstæðrar þróunar á hráefnisverði. Lækkunin hjá Bústólpa tók gildi 30. apríl en í fyrradag, 4. maí hjá Fóðurblöndunni eins og fram kom hér á síðunni í gær. Þá lækkaði Lífland verðið þann 12. apríl s.l. eins og fram hefur komið. SS hækkaði hins vegar verð á kjarnfóðri um 2% þann 1. apríl sl. Þeirrar hækkunar hefur í engu verið getið og ber að átelja það, að mati LK er það eðlileg kurteisi gagnvart viðskiptavinum að tilkynna um verðbreytingar.

Framlengdur skráningarfrestur

Vegna kvefpestar sem nú herjar á hross hefur verið ákveðið að framlengja skráningafrest á kynbótasýninguna á Sörlastöðum í Hafnarfirði til mánudagsins 10. maí. Hollaröðun mun því sennilega ekki birtast fyrr en föstudaginn 14. maí. Forfallist hross sem þegar hafa verið skráð til sýningar verður hægt að fá þau færð yfir á Gaddstaðaflatir eða sýningargjöld verða endurgreidd gegn framvísun læknisvottorðs.

Flúor í öskunni er um 900 mg/kg

Samkvæmt upplýsingum frá Níels Óskarssyni hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands er um 900 mg/kg (ppm) af vatnsleysanlegum flúor í þeirri ösku sem er að falla núna. Þessi mæling er úr sýni sem tekið var á Skógum 2. maí s.l. Þetta er svipað og mælst hefur frá því að gosið bræddi af sér ísinn en mælingar hafa verið á bilinu 850-1000 mg/kg (ppm) af flúor. Að sögn Níelsar má búast við því að flúormagnið verði á þessu bili meðan að á gosinu stendur og rétt að vinna samkvæmt því.

Gosið virðist aftur orðið öskugos

Gosið í Eyjafjallajökli virðist aftur orðið kröftugt öskugos eins og í upphafi goss. Mikill öskustrókur reis upp frá eldstöðvunum í gær og í nótt. Krafturinn í sprengigosinu hefur verið mikill og stöðugur, sprengivirkni hefur farið vaxandi. Almannavarnanefnd fundar um stöðuna í dag.
Gosmökkurinn var hæstur um klukkan hálf átta í gærkvöld, eða um tíu og hálfur kílómetri, í nótt hefur hann verið 6-7 kílómetra hár. Efnissamsetning öskunnar verður rannsökuð í dag. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans, segir að krafturinn í sprengigosinu hafi verið mikill og stöðugur.

Nýtt kvikuskot undir Eyjafjallajökli

Jarðskjálftamælingar sýna nú nýtt kvikuskot undir Eyjafjallajökli. Á vef Veðurstofunnar er greint frá því að síðan á mánudag hafi verið aukin skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli. Nákvæm staðsetning skjálftanna sýni að þeir fyrstu verði djúpt í jörðu, á um 23 km dýpi, en færist síðan upp. Þetta bendi að öllum líkindum til þess að ný kvika sé að þrýstast upp neðst í kvikurásinni. Hún ýti við ofanáliggjandi kviku þannig að þrýstingsbreytingin færist upp að yfirborðið. Því megi búast við að gosið haldi áfram af fullum krafti næstu daga.

Tilkynning frá hrossaræktarráðunauti BÍ

Varla hefur hún farið framhjá nokkrum hestamanni sú kvefpest sem þessa dagana herjar á hrossastofninn. Ljóst er að pestin er mun alvarlegri en í fyrstu var talið og virðist hrossum mjög hætt við að slá niður ef ekki er varlega farið, þó menn telji einkenni horfin.

Bændur áhyggjufullir vegna öskufalls

Bændur undir Eyjafjöllum og V-Skaftafellssýslu hafa nú miklar áhyggjur af því ástandi sem er að skapast vegna öskufalls. Flest fjárhús eru að fyllast og því lítið annað eftir í stöðunni en að koma fénu út en passa jafnframt upp á að nóg sé af rennandi vatni og fóðri fyrir féð.
Haft er eftir Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur, bónda og ráðunaut á Kirkjubæjarklaustri, á vef bændablaðsins að öskufallið sé breytilegt eftir því hvar maður búi á svæðinu. „Askan sem kom fyrst fór yfir hluta af Meðallandinu en þann 15. apríl fór hún vestar yfir Meðallandið, Álftaverið og á neðstu bæina í Skaftártungu. Það er búið að koma nokkur aska undanfarna daga með vestanáttinni. Í gærmorgun var örlítið inni á Klaustri, það var örþunn skel á bílunum þar og hátt í millimeter í Álftaveri í gærmorgun. Menn telja að það verði mikið öskufall næstu daga svo við erum ekki hólpin enn þá,“ segir Fanney Ólöf sem var á leið í eftirlitsför á bæi í Meðallandi þegar blaðamaður náði tali af henni.

Gróðursýni tekin

Tekin voru fjögur gróðursýni 3. maí síðast liðinn undir Eyjafjöllum. Sýnin voru tekin á Raufarfelli, Hlíð, Efstu-Grund og Núpi. Niðurstaðna er að vænta seinni part föstudagsins 7. maí eða strax í byrjun næstu viku þ.e.a.s. 10. maí.

Hádegisfundir í Heimalandi alla vikuna

Alla þessa viku verða haldnir fræðslufundir í hádeginu í þjónustumiðstöðinni í Heimalandi þar sem sérfræðingar koma og miðla upplýsingum til heimamanna. Í hádeginu í gær svaraði Jónatan Hermannsson, jarðræktarfræðingur fyrirspurnum og í dag var Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir með fræðslu og svaraði fyrirspurnum. Á miðvikudaginn 5. maí verður Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri til viðtals, fimmtudaginn 6. maí Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytissjóri í landbúnaðarráðuneytinu og 7. maí verður formaður Bændasamtaka Íslands Haraldur Benediktsson í hádeginu í Heimalandi.

back to top