Öskufall til austurs í dag

Í gær féll grófkorna aska undir Eyjafjöllum, einkum í Drangshlíð og Skarðshlíð og svæðinu þar í kring. Gosmökkurinn úr eldstöðinni náði mest fimm til sex kílómetra hæð en aukinn kraftur var í gosinu í kjölfar skjálftahrinu um og rétt fyrir hádegi. Síðdegis dró aftur úr gosvirkni.
Klepragígur hleðst upp í ískatlinum, en hraunrennsli er í lágmarki. Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt og þá má reikna með öskufalli austur af eldstöðinni, allt austur að Kúðafljóti.

Í dag og á morgun mun teymi ráðunauta frá Búnaðarsambandi Suðurlands, Bændasmtökunum og öðrum búnaðarsamböndum heimsækja bæi á öskufallssvæðinu og í nágrenni þess til að meta með bændum aðstæður og þörf fyrir aðstoð vegna föðuröflunar og beitar í vor og sumar. Að heimsóknum loknum ætti að vera hægt að leggja gott mat á hvaða aðgerða grípa Þarf til verði framhald á öskufalli á svæðinu. Þar horfa menn einkum til flutninga á fóðri og búfé sem og möguleika til fóðuröflunar og beitar í sumar.


 


back to top