Aska fellur til vesturs frá eldstöðinni

Talsvert öskufall er nú í vestur frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli og er það í fyrsta skipti frá byrjun goss sem aska fellur til vesturs svo einhverju nemi. Þannig hefur aska fallið í Fljótshlíð og á svæðinu kringum Hvolsvöll en hún virðist ekki ná að neinu ráð niður i Landeyjar. Vart hefur orðið við ösku í Grímsnesi, á Selfossi og í Hveragerði.
Í viðtali við mbl.is segir Eggert Pálsson, bóndi á Kirkjulæk í Fljótshlíð að það sé heldur að birta til en um klukkan sex í morgun hafi verið ansi svart um að litast. „Ég vona bara að þessu fylgi væta, enda skolar þá öskunni af gróandanum. Núna stend ég hér úti á hlaði og myndi ekki hreyfa bílinn nema skola af honum áður,“segir Eggert ennfremur. Hann segir mikinn óróa fylgja gosinu. „Við vorum að stússa í sauðfénu fram til klukkan eitt í nótt og þá voru mikil læti í fjallinu, eldingar og glampar. Ég vona bara að gosinu fari að ljúka enda er nú komið á fimmtu viku frá því það hófst.“
Í gær stefndi gosmökkurinn í suðaustur og þá féll mikil aska undir Eyjafjöllum, m.a. á Drangshlíðar- og Skarðshlíðarbæjum og á Skógum.
Við biðjum menn að fylgjast vel með stöðu mála og hýsa búfénað á því svæði sem nú fellur aska á ef þörf virðist vera á. Athuga þarf vel að skepnur séu ekki á beit á öskufallssvæðinu og hafi aðgang að fóðri og hreinu, rennandi drykkjarvatni. Kynnið ykkur jafnframt rétt viðbrögð við öskufalli.

Leiðbeiningar vegna öskufalls– Umhverfisstofnun

Öskufall – leiðbeiningar um viðbúnað fyrir, eftir og meðan á öskufalli stendur

Upplýsingar vegna eldgosa


back to top