Sauðfjárbændur séu vakandi gagnvart Albencare ormalyfinu

Landssamtök sauðfjárbænda áttu í lok síðasta mánaðar fund með fulltrúum Matvælastofnunar og Lyfjastofnunar vegna lyfsins ormalyfsins Albencare en eins og kunnugt er þá sendu samtökin greinargerð um málið til beggja stofnananna í síðasta mánuði vegna gruns um að lyfið væri að valda tjóni hjá bændum.
MAST hefur hafið upplýsingaöflun í málinu og hefur m.a. skrifað öllum dýralæknum og óskað eftir upplýsingum um umfang notkunar lyfsins.

Í ljósi þess að nú er sauðburður að hefjast eða er hafinn þá óskar MAST eftir því að það sé tilkynnt án tafar ef bændur sem gáfu Albencare í vetur verða varir við eitthvað óeðlilegt á sauðburði sem mögulega má rekja til lyfsins.  Þar er t.d. átt við ef mikið er um dauðfædd eða vansköpuð lömb.  Tilkynna ber þetta til Björns Steinbjörnssonar eða Þorsteins Ólafssonar hjá MAST í síma 530 4800.


back to top