Mikið óvissuástand á öskufallssvæðunum

Það er öllum ljóst að ástandið undir Eyjafjöllum, Mýrdal og Skaftárhreppi er mjög alvarlegt vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Því miður hefur öskufall aukist á nýjan leik en hraun er á þessari stundu hætt að renna og gosið orðið sprengigos með tilheyrandi öskufalli á nýjan leik. Nú fellur aska fyrst og fremst til austurs, í Mýrdal og Álftaveri og jafnvel austar í Skaftárhreppi. Búnaðarsambandið vinnur að því að aðstoða bændur á svæðinu og finna möguleg úrræði. Líkur á því að sauðfé verði beitt á afrétti í sumar fara nú minnkandi með hverjum degi sem líður auk þess sem heyskapur sumarsins er í mikilli óvissu.
Búnaðarsambandið hefur að undanförnu fundað með sveitastjórn Rangárþings eystra út af heybirgðum og væntanlegri fóðuröflun. Nú standa yfir heimsóknir á bæji á öskufallssvæðinu þar sem farið er yfir heybirgðir og aðstæður manna á einstökum bæjum. Þetta er gert í góðu samstarfi við Bændasamtök Íslands. Brýnt er að kortleggja stöðuna og huga svo eins skjótt og verða má að tiltækum úrræðum.
Landbúnaðarháskólinn hefur hafið skipulega sýnatöku og rannsóknir á gróðri.
Verið er að vinna í aðkomu Bjargráðsjóðs varðandi fjárhagslegan stuðning og bætur til handa þeim sem orðið hafa fyrir tjóni. Hins vegar gerir ástandið núna mönnum erfitt fyrir þar sem ekki sér fyrir endann á gosinu og alls ekki ljóst hvert endanlegt tjón verður. Áfram verður þó unnið með öllum tiltækum ráðum að úrlausn mála og reynt að aðstoða bændur á svæðinu eftir því sem nokkur kostur er.

Við minnum svo á að í hádeginu í dag verða Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, og Guðbjörg Jónsdóttir, formaður Búnaðarsambandsins, á Heimalandi til skrafs og ráðagerða


back to top