Bændur sem þurfa aðstoð hringi í 112

Sett hefur verið upp hjálparmiðstöð í Vík, með svipuðu formi og þeirri sem er á Heimalandi undir Eyjafjöllum. Miðstöðin verður í félagsheimilinu Leikskála. Þar verða fundir á milli 11:30 og 13:30 alla virka daga og getur fólk komið þangað til að ræða málin og fá ráðgjöf, bæði bændur og aðrir. Hreinsunarstarf er að fara af stað í Vík og verða skólinn, leikskólinn og elliheimilið þrifin í dag. Guðmundur Ingi INgason, lögreglumaður, mun stjórna miðstöðinni.
Sérstaklega verður reynt að meta þörf bænda í nágrenninu fyrir aðstoð og hvetur Guðmundur Ingi alla bændur sem þurfa einhverja hjálp, sama hvað það er, að hringja einfaldlega í 112, og biðja um að verða áframsendir á miðstöðina í Vík.

Hann segir að í dag sé unnið að því að útvega efni til þess að búa til afmörkuð gerði við fjárhús, hentug til þess að hafa fé úti og gefa hey og vatn. Nú er farið að þrengja um í fjárhúsum víða og þörfin að aukast fyrir að setja fé út. Því er gott fyrir marga að fá gerði af hentugri stærð til að hreinsa af ösku og gefa á.


Í dag er einnig stefnt að umfangsmiklum hrossaflutningum úr Mýrdal og nálægum sveitum. Guðmundur Ingi segir að flytja eigi um hundrað hross austur fyrir Kirkjubæjarklaustur í dag. Þrír stórir flutningabílar muni sjá um það og reyna að fara með öll hrossin í einni ferð. Verið er að örmerkja þau núna. Eitthvað af hrossunum sem á að flytja í dag eru hross sem flutt voru þangað austur undan Eyjafjöllunum þegar ástandið var sem verst þar. Því má segja að hrossin hafi verið á hrakhólum um nokkurn tíma.


Álag á bændur hefur líka verið að aukast mikið eftir því sem liðið hefur á sauðburð. Guðmundur Ingi segir að óskað hafi verið eftir sjálfboðaliðum til þess að aðstoða bændur í sauðburði. Óskað hafi verið eftir vönu fólki sem kann til verka. Segir hann að þó nokkuð af fólki hafi þegar sett sig í samband við yfirvöld og boðið fram aðstoð sína. Þar á meðal eru nokkrir fyrrverandi sauðfjárbændur.


„Þannig að það er ennþá til í okkur samheldni, Íslendingum,“ segir Guðmundur Ingi.


Hann var að koma að austan og sagði að nokkuð öskufok væri á Mýrdalssandi, en hins vegar væri rigning í Skaftártungu og nálægum sveitum.


back to top