Hrossaflutningar úr Mýrdalnum gengu vel

Síðastliðna helgi var vaskur flokkur björgunarsveitarfólks og flutningabílsstjóra að störfum í Mýrdalnum við að flytja 150 hross austur á Síðu í Skaftárhreppi og í Árnessýsluna. Að sögn Hermanns Árnasonar, starfsmanns Búnaðarsambands Suðurlands, gekk þessi vinna gríðarlega vel en nú er unnið að því í Mýrdalnum að setja upp gerði í kringum fjárhús svo hægt sé að viðra féð eilítið.

„Þetta gekk mjög vel, það er ekki annað hægt að segja. Við tókum hross úr Mýrdalnum en það fóru um 100 hross austur á Síðu og í Landbrot og um 50 í Árnessýsluna, Grímsnes og Ölfus. Það eru einhver hross eftir sem eru inni og hafa aðgang að húsi. Það komu gríðarlega margir að þessu verkefni, við fengum björgunarsveitamenn til að hjálpa til og síðan vorum við með landsliðið í gripaflutningum af Suðurlandi, aðilar sem keyra að sláturhúsunum. Frá því að ákveðið var að fara í þetta verk og ráðist var í það leið rétt rúmur sólarhringur. Menn eiga heiður skilið fyrir frammistöðuna, allt þetta góða fólk sem kom að þessu,“ útskýrir Hermann og segir jafnframt:
„Núna er ég í Heimalandi á fundi með ráðunautum og staðan er sú að það er einn dagur tekinn fyrir í einu. Menn upplýsa okkur hér um að þetta sé gríðarlega menguð aska úr gosinu og að ekkert vit sé í að setja neina skepnu út. Nú bíða menn eftir rigningu en öskufallið vofir áfram yfir. Í Mýrdalnum veit ég er verið að setja gerði í kringum fjárhús svo hægt sé að sleppa aðeins og viðra féð. Það er í lagi fyrir féð að fara aðeins út en það verður að gefa því inni ef öskufall er og passa upp á að hafa rennandi vatn fyrir það.“


back to top