Fræðslu- og umræðufundur um áhrif gosösku á heyskap og heyverkun

Fræðslu- og umræðufundur um áhrif gosösku á heyskap og heyverkun á Suðurlandi í sumar verður haldinn að Hótel Hvolsvelli í kvöld, mánudaginn 14. júní kl 20:30. Fjallað verður m.a um:

Reykjahlíð gefur ekkert eftir

Uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir maí hefur verið birt á vef BÍ. Afurðir hér á Suðurlandi standa nú í 5.434 kg/árskú sem er 6 kg minna en um áramótin síðustu. Af sýslunum fjórum eru afurðir nú mestar í Rangárvallasýslu eða 5.515 kg /árskú. Á landsvísu standa afurðir eftir árskú nú í 5.115 kg.
Reykjahlíð er enn á toppnum af einstökum búum ef litið er til búa með 10,0 árskýr eða fleiri. Þar standa afurðir nú í 7.791 kg/árskú. Kirkjulækur er í þriðja sæti á landsvísu af búum með fleiri en 10,0 árskýr með 7.568 kg/árskú og Hraunkot er í fimmta sæti með 7.466 kg/árskú.

Uppgræðsla Sólheimasands hafin

Landgræðsla ríkisins, með stuðningi Vegagerðarinnar og heimamanna, hefur hafið aðgerðir til að hefta öskufok á Sólheimasandi í Mýrdal. Tilbúinn áburður verður borinn á og grasfræblöndu sáð í sandana meðfram þjóðvegi 1 á Sólheimasandi og er vonast til þess að árangur sjást strax í sumar. Takist aðgerðirnar mun gróðurinn sem upp kemur draga verulega úr öskufoki á sandinum og tryggja öruggari umferð á þjóðveginum.
Tilgangurinn með aðgerðunum er að endurheimta að einhverju leyti lífsgæði íbúa á þessu svæði, auka möguleika til áframhaldandi búsetu og tryggja betur umferðaröryggi um þjóðveg 1 á Sólheimasandi. Verkið verður unnið að stærstum hluta af heimamönnum en starfsmenn Landgræðslunnar hafa umsjón með því.

Tekið á óvissu um mjólk utan greiðslumarks

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fyrir helgina fram frumvarp til laga á Alþingi um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Frumvarpið felur í sér að tekið verði á þeirri óvissu sem ríkir um innvigtun og sölu á mjólk utan greiðslumarks. Í frumvarpinu er lagt til að afurðastöðvum (mjólkursamlögum) verði gert að greiða fjársekt fyrir að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark og markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði. Sama gildir ef rekstraraðili afurðastöðvar markaðsfærir innan lands afurðir úr mjólk sem er umfram greiðslumark framleiðanda án samþykkis framkvæmdanefndar búvörusamninga. Frumvarpið gerir ráð að sektin nemi 110 kr. fyrir hvern lítra mjólkur sem markaðsfærð er innanlands.

Töluvert flóð í Svaðbælisá

Töluverðir vatnavextir hafa verið í Svaðbælisá í morgun og náði Vatn að flæða yfir varnargarða sem reistir voru í nótt til að sporna gegn því það flæddi yfir tún á svæðinu. Litlu mátti muna að það flæddi yfir þjóðveginn en ræsi undir hann höfðu ekki undan.

Frumvarp um sameiningu ráðuneyta

Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórnarráðið á Alþingi í gærkvöldi. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru að ráðuneytum verður fækkað úr tólf í níu með með því að sameina dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í nýtt innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í nýtt velferðarráðuneyti og nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verður til með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneytið. Þá er lagt til að umhverfisráðuneytið taki að hluta yfir stjórnun og stefnumörkun varðandi nýtingu náttúruauðlinda og nafni ráðuneytisins verði í samræmi við það breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Verði frumvarpið samþykkt taka lögin gildi 1. janúar 2011.

Skerðing á greiðslum til bænda mun meiri en áætlað var

Miðað við verðbólguforsendur Seðlabankans munu greiðslur til bænda skerðast um 1.700 milljónir á árunum 2009 og 2010 frá upphaflegum búvörusamningi. Ástæða þessa eru þær breytingar sem gerðar voru á búvörusamningum vorið 2009 eftir að ákveðið var í fjárlögum sama árs að skerða samningsbundnar greiðslur til bænda samkvæmt þágildandi búvörusamningum. Þær forsendur sem samningsaðilar, Bændasamtökin og ríkisvaldið, gáfu sér við samningagerðina voru hins vegar að skerðingin væri um 1000 milljónir á þessu tímabili.

Hollaröð á yfirlitssýningu á Gaddstaðaflötum

Yfirlitssýning kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum verður á morgun, fimmtudaginn 10. júní, og hefst kl. 9.00. Röð hrossa verður eftirfarandi:

Gæðastýringarnámskeið 14. júní n.k.

Vakin er athygli á því að fyrirhugað er að halda gæðastýringarnámskeið í sauðfjárrækt þann 14, júní n.k. á Stóra-Ármóti en ekki 18. júní eins og misritaðist í síðasta fréttabréfi. Námskeiðið hefst kl. 10.00 og því lýkur kl. 18.00.

Mikilli úrkomu spáð og hætta á aurflóðum

Í nótt er spáð allt að 40 mm úrkomu á Eyjafjallajökli. Reiknað er með að mest rigni á tímabilinu milli kl. 5 og 9 í fyrramálið. Við þessar aðstæður er hætta á að öskulög á Eyjafjallajökli geti skriðið fram og niður farvegi áa sem renna suður af fjöllunum.

Yfirlitssýning kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum

Yfirlitssýning kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum verður á morgun fimmtudaginn 10. júní og hefst kl 9.00. Röðun flokka verður eftirfarandi:

Flúor í öllum gróðursýnum undir þolmörkum búfjár

Búið er að efnagreina gróðursýni sem tekin voru þann 1. júní s.l. Niðurstöðurnar sýna að engin ástæða er til að óttast flúoreitrun í búfénaði á beit þar sem öll sýni eru neðan þolmarka sauðfjár, nautgripa og hrossa.
Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

Reynt að hefta öskufok með uppgræðslu

Í gær hóf Landgræðslan sáningu í um 400 hektara lands á Sólheimasandi í því skyni að reyna að hefta öskufjúk. Síðustu daga hefur svifryk víða um land farið langt yfir heilsuverndarmörk. Nánast óbúandi er við öskufokið í byggðinni undir austanverðum Eyjafjöllum, Skógum, Sólheimabæjum, í Fljótshlíð og Merkurbæjum þegar það er hvað verst.
Á næstu dögum mun Landgræðslan sá níu tonnum af fræi og dreifa 60 tonnum af áburði yfir öskulagið á Sólheimasandi.

Mjög lítil hætta á flúoreitrun í búfé

Ítrekað er að samkvæmt þeim gróðursýnum sem tekin hafa verið virðist ekki vera ástæða til þess að halda búfénaði inni við vegna öskufalls og/eða -fjúks. Síðustu sýni sem tekin voru sýndu litla flúormengun og voru í öllum tilfellum um eða vel undir þolmörkum nautgripa og hrossa en þolmörk sauðfjár eru mun hærri.

Sláttur er hafinn undir Eyjafjöllum

Sláttur er hafinn undir Eyjafjöllum. Ásgeir Árnason, bóndi í Stóru-Mörk byrjaði að slá í gær en Stóra-Mörk stendur við norðurmörk Eyjafjalla og er síðasti bærinn sem ekið er fram hjá á leiðinni inn í Þórsmörk. Ekki er vitað hvaða hvaða áhrif askan mun hafa á hey en það verður kannað á næstu dögum. Í því skyni verða tekin sýni á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum og hey flutt á tilraunabúið á Stóra Ármóti þar sem verkun og lystugleiki heysins verður kannaður.

SS hækkar verð á nautakjöti um rúm 8% til jafnaðar

Sláturfélag Suðurlands hækkar verð á nautakjöti til bænda frá og með deginum í dag, þ.e. mánudeginum 7. júní. Einstakir flokkar hækka á bilinu 6,78% til 17,71%, en vegin meðaltalshækkun er 8,40%. Jafnframt hækkar flutningskostnaður um 8% úr 12 kr/kg. í 13 kr/kg. Heimtökugjald er óbreytt.

Sláturhúsið á Hellu hækkar verð til bænda verulega

Frá og með mánudeginum 7. júní n.k. mun verða veruleg hækkun á afurðaverði Sláturhússins á Hellu. Þannig munu allir kjötflokkar, utan kálfakjöts, hækka um 8%. Eftir þessa verðbreytingu greiðir Sláturhúsið á Hellu langhæsta verð til bænda á landinu og greiðir hæsta verðið á landinu í öllum 31 gæðaflokkunum. Samhliða þessari hækkun hefur heimtökukostnaður verið hækkaður um 10 krónur pr. kíló og þá mun flutningskostnaður hækka einnig.

Mikill verðmunur á bæði rúlluplasti og rúlluneti

Landssamband kúabænda birti á föstudaginn niðurstöður verðkönnunar sambandsins á rúlluplasti og rúlluneti. Fram kemur í könnuninni að all verulegur munur er á verði til bænda á báðum rekstrarvörum. Þá kemur jafnframt nokkuð á óvart, að mjög margir aðilar flytja þessar rekstrarvörur til landsins. LK kannaði verð á 75 cm rúlluplasti og 123 cm breiðu rúlluneti. Lægst var verðið á plastinu hjá fyrirtækinu Búvís og hæst var verðið hjá fyrirtækinu Vélaval-Varmahlíð og munar þar 18% á hæsta og lægsta verði. Meðalverðið var 6,93 kr/meter plasts og var hæsta verðið 10,1% yfir meðalverðinu.

Breytingar á tímasetningum kynbótasýninga á Gaddstaðaflötum

Á fundi með knöpum 2. júní síðastliðinn í Félagsheimili Sleipnis kom fram að þeir teldu engan grundvöll fyrir því að vera með sýningu fyrr en í endaðan júní, ástandið væri þannig á hrossunum. Einnig óskuðu þeir eftir sýningu í lok júlí. Búnaðarsamband Suðurlands hefur því ákveðið að sýningunni verði frestað til 28. júní og standi út þá viku. Það mun þó verða dæmt 8. og 9. júní í næstu viku til að koma til móts við þá sem þess óskuðu. Yfirlitssýningin verður fimmtudaginn 10. júní.

Ekki ástæða til að halda búfé inni vegna hættu á flúoreitrun

Komnar eru niðurstöður á efnagreiningum flúors í gróðursýnum sem tekin voru 26. maí s.l. Samkvæmt þeim er ekki ástæða til þess að óttast flúormengun í gróðri eins og staðan er. Þolmörk nautgripa og sauðfjár eru 30-40 mg/kg F þurrefnis og 70-100 mg/kg F þurrefnis hjá sauðfé. Öll sýnin eru vel undir þolmörkum sauðfjár, sýni á Raufarfelli er við þolmörk nautgripa og hrossa og eina sýnið sem er yfir þeim er frá Efstu-Grund. Það var hins vegar mjög lítið sýni og verður að taka niðurstöðum þess með fyrirvara.
Samkvæmt þessu er ekki ástæða til þess að halda búfénaði inni vegna hættu á flúoreitrun.
Niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

back to top