Tekið á óvissu um mjólk utan greiðslumarks

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fyrir helgina fram frumvarp til laga á Alþingi um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Frumvarpið felur í sér að tekið verði á þeirri óvissu sem ríkir um innvigtun og sölu á mjólk utan greiðslumarks. Í frumvarpinu er lagt til að afurðastöðvum (mjólkursamlögum) verði gert að greiða fjársekt fyrir að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark og markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði. Sama gildir ef rekstraraðili afurðastöðvar markaðsfærir innan lands afurðir úr mjólk sem er umfram greiðslumark framleiðanda án samþykkis framkvæmdanefndar búvörusamninga. Frumvarpið gerir ráð að sektin nemi 110 kr. fyrir hvern lítra mjólkur sem markaðsfærð er innanlands.

 Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir framleiðendum verði heimilt að markaðsfæra mjólkurafurðir á innanlandsmarkaði sem hann hefur sjálfur unnið úr mjólk frá eigin lögbýli (heimavinnsla) allt að 10.000 lítrum mjólkur, án þess að það teljist til nýtingar á greiðslumarki lögbýlisins.


Athygli vekur að í athugasemdum við frumvarpið kemur fram hugtakið „mjólkurbóndi“. Í Orðabók Háskólans er þetta hugtak ekki að finna og ekki er málvenja að tala um mjólkurbændur. Hins vegar er hugtakið kúabóndi vel þekkt og víða notað og á við bændur sem búa með kýr og nautgripi og framleiða mjólk og kjöt.


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


back to top