Gengistrygging lána dæmd ólögmæt

Gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum var dæmd ólögmæt í fordæmisgefandi dómum sem féllu í Hæstarétti sl. miðvikudag. Í dómnum segir að: „Lög nr. 38/2001 [um vexti og verðtryggingu] heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.“ Lánin sem slík eru þó enn til staðar. Hins vegar skal miða við upphaflegan höfuðstól og reikna á hann vexti. Hvaða vextir það eiga að vera, er á þessari stundu óljóst. Líklegt er að þorri allra gengistryggðra bílalána og hluti gengistryggðra húsnæðislána séu ólögmæt.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu Hæstaréttar eru enn eftir ýmsir lausir endar. Ekki voru gerðar neinar varakröfur í þeim málum sem dómurinn tók á. Þeir sem tóku gengistryggð lán eru nú með lán sem ekki eru verðtryggð á nokkurn hátt og bera jafnvel mun lægri vexti en almennt tíðkast á íslenskum fjármálamarkaði. Er hæpið að lánþegar hefðu á sínum tíma fengið lán á slíkum kostakjörum. Ekki er fjarri lagi að álykta að lánasamningarnir hefðu með réttum forsendum frá upphafi kveðið á um lögmæta verðtryggingu, tengingu við vísitölu neysluverðs, og eftir atvikum hærri vexti. Hvernig þessi mál verða leidd til lykta, ætti að koma í ljós á næstu dögum. Rétt er að lánþegar með erlend lán, haldi ró sinni enn um sinn.


back to top