Frumvarp um sameiningu ráðuneyta

Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórnarráðið á Alþingi í gærkvöldi. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru að ráðuneytum verður fækkað úr tólf í níu með með því að sameina dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í nýtt innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í nýtt velferðarráðuneyti og nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verður til með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneytið. Þá er lagt til að umhverfisráðuneytið taki að hluta yfir stjórnun og stefnumörkun varðandi nýtingu náttúruauðlinda og nafni ráðuneytisins verði í samræmi við það breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Verði frumvarpið samþykkt taka lögin gildi 1. janúar 2011.

Breytingarnar sem um ræðir hafa mætt töluverðri andstöðu bæði hjá hagsmunaaðilum og eins hjá ýmsum þingmönnum, meðal annars innan þingflokks Vinstri grænna. Einkum á það við um fyrirhugaða sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneytið. Frumvarpið er hins vegar í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra. Meðal þeirra röksemda sem andstæðingar breytinganna hafa haldið á lofti eru að ótækt sé að veikja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið meðan á aðildarviðræðum við Evrópusambandið stendur, en sameining muni veikja þá málaflokka, í það minnsta tímabundið.


Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur marg oft lýst yfir andstöðu sinni við þessar stjórnkerfisbreytingar, þ.e. sameiningu síns ráðuneytis við iðnaðarráðuneyti. Í viðtali við Morgunvakt Rásar 2 nú í morgun sagði Jón að frumvarpið væri illa unnið og hann hygðist greiða atkvæði gegn því.


back to top