Lungnapest í sauðfé

Þann 28. janúar síðastliðinn boðuðu Matvælastofnun og Búnaðarsamband Suðurlands til opins fræðslu- og umræðufundar í Fossbúð, Skógum. Tilefnið var uppkomin tilfelli lungnapestar í sauðfé undir Eyja-fjöllum og í Mýrdal. Frummælendur voru þau Halldór Runólfsson, Þorsteinn Ólafsson og Katrín Andrésdóttir, dýralæknar hjá MAST auk Eggerts Gunnarssonar, dýralæknis á Keldum. Fundarsókn var hin besta eða um 60 manns. Frummælendur fluttu fróðlegar tölur um eðli, útbreiðslu og aðgerðir gegn lungnasjúkdómum og studdu mál sitt með glærusýningu. Að erindum loknum var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir en þar kom margt þarft fram í spurningum og svörum.

Góðir fundir um fjarvis.is

Dagana 31. janúar og 1. febrúar s.l var Þórey Bjarnadóttir ásamt þeim Jóni Viðari og Jóni Baldri frá BÍ með fundi um skýrsluhaldskerfið www.fjarvis.is. Einn fundur var í hverri sýslu og var þátttaka bænda góð. Jón Baldur fór yfir þróun kerfisins og hvaða verkefni væru framundan. Jón Viðar fór vel yfir skýrslurnar sem vinna má úr kerfinu og útskýrði fyrir fundarmönnum BLUP kynbótamatið og hvað það hefur mikið gildið í ræktunarstarfinu.

Styrkir til frumbýlinga í sauðfjárrækt

Við minnum á umsóknarfrestur vegna styrkja til fumbýlinga í sauðfjárrækt rennur út þann 1. mars n.k. Styrkir þessir hafa verið í boði frá því að núverandi sauðfjársamningur tók gildi 2008 og eru ætlaðir þeim sem eru að hefja sauðfjárrækt. Styrkumsóknum skal skila til Bændasamtaka Íslands.

Hert eftirlit með merkingum gripa – Hvernig á að bregðast við?

Matvælastofnun kynnti fyrir áramótin hert eftirlit með því að ákvæði reglugerðar um merkingar búfjár væru virt. Þannig fylgist stofnunin nú með að rekstraraðilar sláturhúsa fari eftir ákvæðum reglugerðarinnar er banna þeim að taka til flutninga ómerkt búfé sem og setja afurðir af slíku fé á almennan markað. Í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar mun ómerktu búfé sem kemur í sláturhús verða slátrað og takist ekki að rekja uppruna dýrsins innan 24 klst. verða afurðir sem dæmdar óhæfar til manneldis, þ.e. skrokkurinn fær ekki stimpil um heilbrigðisskoðun.
Fyrir bændur þýðir þetta að sláturleyfishöfum er óheimilt að taka til flutnings ómerkta gripi og sjálfsagt að setja viðkomandi bílstjóra ekki í þá stöðu að reyna að neyða hann til þess. Enn fremur getur þetta þýtt að afurðir gripa sem eru ómerktir, óskráðir eða rangt skráðir verða ekki settar á markað, þ.e. kjötinu verður hent án þess að greiðsla komi fyrir. Það þýðir einfaldelga tekjutap fyrir viðkomandi bónda.

Ekki ástæða að ætla að díoxínmengaðar afurðir hafi borist til Íslands

Matvælastofnun hefur, með aðstoð fóðurframleiðenda, staðfest að það hráefni sem flutt hefur verið inn til fóðurgerðar eigi ekki uppruna að rekja til mengunarinnar. Ekki hefur verið hægt að rekja innflutning á búfjárafurðum til mengunarinnar og er því ekki ástæða að ætla að díoxínmengaðar afurðir hafi borist til landsins.

Aðalfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi

Föstudagskvöldið 4. febrúar verður aðalfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum á Hellu og hefst hann kl. 20:30.  Tæpt ár er nú liðið frá stofnfundi félagsins sem heppnaðist afar vel. Nú er komið að því að gera upp fyrsta árið í starfi félagsins og leggja drög að framtíðarverkefnum. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf s.s. skýrsla stjórnar og kosningar í stjórn og nefndir. Að loknum fundarstörfum fer síðan fram keppnin um skörpustu ungu sýslu Suðurlands 2011, Búsvar, þar sem Árnesingar eiga titil að verja.

Fundir um fjarvis.is

Við minnum á fundi um skýrsluhaldskerfið fjarvis.is á starfssvæði búnaðarsambandsins sem hefjast í dag með fundi á Smyrlabjörgum í A-Skaft. kl. 14. Jón Viðar Jónmundsson og Jón Baldur Lorange frá BÍ munu mæta á fundina ásamt Þóreyju Bjarnadóttur. Þau fara yfir og ræða hina fjölbreytilegu möguleika til að sækja margvíslegar upplýsingar í kerfið.  Jafnframt er leitað eftir hugmyndum notenda um þá þætti sem brýnast er að lagfæra eða bæta við í kerfinu. Þá er mjög mikilvægt að bændur komi vel undirbúnir á fundinn til að einhverjar umræður skapist um kerfið.

Afurðaskýrslur nautgriparæktarfélaganna 2010

Þá eru afurðaskýrslur nautgriparæktarfélaganna fyrir árið 2010 komnar á vefinn hjá okkur. Alls skiluðu 220 bú skýrslum á árinu 2010 og þar af 216 allt árið. Meðalafurðir á Suðurlandi minnkuðu aðeins eða úr 5.440 kg/árskú í 5.424 kg/árskú. Þátttaka í skýrsluhaldinu dróst aðeins saman og var 90,3% miðað við mjólkurinnlegg á árinu 2010 en 92,7% árið áður.

Mótframlag bænda í LSB lækkar

Lífeyrissjóður bænda mun innheimta 4% mótframlag á árinu 2011 vegna breytinga á á mótframlagsgreiðslum úr ríkissjóði. Sem kunnugt þurftu bændur að greiða 8% mótframlag frá júlí-des. í fyrra af reiknuðu endurgjaldi og launum en það lækkar nú í 4%. Greiðslur í Lífeyrissjóð bænda munu því verða samtals 8% af gjaldstofni, þ.e. 4% iðgjald að viðbættu 4% mótframlagi. Tryggingagjaldstofn er því reiknað endurgjald og laun að viðbættu 4% mótframlagi í lífeyrissjóð.

Miklar og góðar afurðir á Stóra Ármóti á síðasta ári

Ársuppgjör nautgriparæktarinnar hefur nú verið birt og afurðir á síðasta ári á tilraunabúinu á Stóra Ármóti enduðu í 6.972 kg mjólkur eftir árskú sem eru mestu afurðir þar frá upphafi. Segja verður að mjólkurframleiðsla þar hafi gengið ákaflega vel undanfarin ár og afurðir hafa aukist jafnt og þétt. Að verulegum hluta má þakka það hve vel hefur tekist til með það fóðrunarkerfi sem notast er við. Þá hefur betra uppeldi kvígnanna skilað betur undirbúnum gripum fyrir sitt hlutverk sem mjólkurkýr. Ekki má gleyma því að frjósemin hefur verið með ágætum og hefur tekist að halda bili milli burða innan skikkanlegra marka. Bil milli burða reiknast nú 390 dagar á búinu og fanghlutfallið 50% hjá kúnum en 71-72% hjá 1. kálfs kvígum og kvígum.

Afurðir á síðasta ári mestar í Skagafirði

Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar 2010 verður væntanlega sett á vefinn í dag. Afurðir eru heldur minni en í fyrra eða 5.342 kg/árskú á móti 5.358 kg/árskú á árinu 2009. Hér á Suðurlandi minnkuðu afurðir eftir árskú lítillega milli ára eða um 16 kg, úr 5.440 kg árið 2009 í 5.424 kg árið 2010. Afurðahæsta búið á landinu á síðasta ári var hjá Jóni og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð en þar mjólkuðu 34,4 árskýr 7.818 kg mjólkur til jafnaðar. Í öðru sæti er Steinar Guðbrandsson í Tröð í Borgarbyggð (fyrrum Kolbeinsstaðahreppi) en hjá honum mjólkuðu 23,7 árskýr 7.802 kg að meðaltali.
BSSL raðar afurðahæstu búum ekki eftir mjólkurmagni heldur verðefnum og er þar miðað við mjólkurmagn úr skýrsluhaldi og meðalefnainnihald úr tanksýnum hjá MS. Afurðahæsta búið á Suðurlandi er að þessu sinni bú þeirra Eggerts, Jónu og Páli á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Þar mjólkuðu kýrnar til jafnaðar 7.671 kg mjólkur á árskú og 568 kg verðefna (MFP).

Brýnt að lengja tímafrest v/umsókna í Bjargráðasjóð

Á síðasta stjórnarfundi Búnaðarsambands Suðurlands sem haldinn var 21. jan. s.l. var meðal annars rætt um eldgosið í Eyjafjallajökli og áhrif þess. Þar kom fram að sá tímafrestur sem gefinn er til tjónaumsókna í Bjargráðasjóð er tæpast nægilega langur til þess að tjón og áhrif þeirra verði að fullu metinn. Stjórn Búnaðarsambandsins hefur því sent stjórn Bjargráðasjóðs eftirfarandi áskorun þess efnis að hún beiti sér fyrir endurskoðun á reglunum:

Klaufskurður bætir líðan kúnna og eykur afurðir

Þorstein Logi Einarsson og Sigmar Aðalsteinsson sjá um klaufsnyrtingu fyrir Kynbótastöð Suðurlands. Þeir bændur sem áhuga hafa á að láta snyrta klaufir kúa sinna hafi samband við Þorstein Loga í síma 867-4104 og eða í netfangið thorsteinn82@simnet.is. Þá er líka hægt að panta klaufskurð á skrifstofu Búnaðarsambandsins. Á síðasta ári voru klaufir á 2.593 kúm á 75 bæjum klipptar á Suðurlandi. Kostnaður við klaufskurð á síðasta ári var kr. 725 á kú.

Fundur um lungnasjúkdóma í sauðfé

Búnaðarsamband Suðurlands og Matvælastofnun boða til fundar um lungnasjúkdóma í sauðfé í Fossbúð, föstudaginn 28. janúar 2011 kl 13:00. 
Allt áhugafólk um sauðfjárrækt er velkomið

Rennsli í Ölfusá við Selfoss enn að aukast

Vatnavextir á Suðurlandi eru nú í rénun að mestu en þó er rennsli Ölfusár við Selfoss enn að aukast og nær hámarki síðdegis eða í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Vatnsborð í Hvítá er farið að lækka við Iðu og hefur líklega náð hámarki við Gíslastaði undir Hestfjalli snemma í morgun.

Varað við vatnavöxtum

Miklir vatnavextir eru nú á vatnasviði Hvítár í Árnessýsu vegna hlýinda á landinu og úrkomu. Í Auðsholti í Hrunamannahreppi hefur áin flætt yfir bakka sína en ekki meira en venjan er á þessum árstíma. Rennslið í Hvítá við Fremstaver á Kili er margfalt meira en vanalega eða tæpir 430 rúmmetrar á sekúndu og að sögn Veðurstofunnar er ástæðan hlýindi á hálendinu og hröð snjóbráðnun þar. Veðurstofan lét Almannavarnir Árnessýslu, það er lögregluna, vita á miðnætti og varaði við vatnavöxtum.

Verð á mjólk til bænda hækkar um 3,25 kr/l þann 1. feb. n.k.

Verð á mjólk til bænda mun hækka þann 1. febrúar n.k. um 3,25 kr/l, þ.e. úr 71,13 kr. í 74,38 kr. Þetta er 4,56% á afurðastöðvaverði mjólkur. Jafnframt hefur Verðlagsnefnd búvara ákveðið að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum, sem nefndin verðleggur, hækki 1. febrúar n.k. um 2,25% að meðaltali, þó þannig að nýmjólk hækkar hlutfallslega til jafns við hækkun til bænda. Þessar verðhækkanir eru tilkomnar vegna hækkana á breytilegum kostnaði til búrekstrar.
Sú hækkun á afurðastöðvaverði sem bændur fá að þessu sinni byggir á hækkun kostnaðarhliðar verðlagsgrundvallar frá 1. desember 2009 til 1. desember 2010 að frádregnu viðhaldi, afskriftum, vöxtum og launum. Gæta verður að því að breytingar á vaxtalið á þessu tímabili eru neikvæðar, þar sem vextir hafa lækkað mjög á framangreindu tímabili.
Þessi hækkun sú fyrsta sem kúabændur fá í 26 mánuði, eða frá 1. nóvember 2008 en við síðustu verðbreytingu, 1. ágúst 2009, kom verðhækkunin hins vegar öll í hlut mjólkuriðnaðarins.

Vefsíða Búnaðarsambandsins vinsæl á síðasta ári

Vefsíða Búnaðarsambandsins var vinsæl á síðasta ári að venju ef tekið er mið af því að um sérhæfðan landbúnaðarvef er að ræða. Alls heimsóttu 19.621 vefinn í 181.843 heimsóknum. Töluverð aukning varð í bæði gestafjölda og fjölda heimsókna milli ára. Gestum fjölgaði um 3.518 milli ára og heimsóknum um 15.418. Síðuflettingum fjölgaði einnig milli ára eða úr 410.615 á árinu 2009 í 432.159 á síðasta ári. Það má því segja að á meðaldegi sé vefsvæðið bssl.is heimsótt 500 sinnum og flettingar séu 1.184.

Mjólkurinnlegg sunnlenskra kúabúa 1,4 millj. lítra minna 2010 en árið áður

Á árinu 2010 nam heildarinnlegg kúabúa á Suðurlandi 48,185 milljónum lítra sem er 1,4 milljónum lítra minna en árið áður. Meðalbústærð var því 192.494 lítrar á móti 195.277 lítrum árið áður. Inni í tölum um meðalbústærð eru aðeins bú með innlegg allt árið. Mest var innleggið úr Árnessýslu eða 24,682 milljónir lítra og þar er meðalbústræðin einnig mest eða 224.104 lítrar. Úr Rangárvallasýslu komu 17,5 milljónir lítra til innleggs, að meðaltali 192,5 þús. lítrar á bú. Mun minni framleiðsla er í Skaftafellssýslunum báðum. Mjólkurinnlegg síðasta árs í V-Skaft. nam 3,7 millj. lítra og meðalinnlegg á bú var 94,4 þús. lítrar en í A-Skaft. nam innleggið 2,3 milljónum lítra eða að meðaltali 176 þús. lítrar á bú.

Ný stjórn hjá Lífeyrissjóði bænda

Ný stjórn hefur verið skipuð hjá Lífeyrissjóði bænda. Loftur Þorsteinsson og Guðmundur Grétar Guðmundsson láta nú af störfum en nýir stjórnarmenn eru Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson. Skúli Bjarnason verður áfram formaður stjórnar.

back to top