Samkeppniseftirlitið heimilar samruna á svínakjötsmarkaði

Samkeppniseftirlitið hefur kveðið upp úrskurð um yfirtöku Stjörnugríss á svínabúunum á Hýrumel, Stafholtsveggjum og í Brautarholti. Niðurstaðan er að Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að hafast frekar að í málinu eins og segir í ákvörðunarorðum og mun eftirlitið því ekki koma í veg fyrir samrunann.
Forsaga málsins er að Arion banki yfirtók rekstur svínabúanna í Brautarholti, Hýrumel og Stafholtsveggjum á síðasta ári. Í byrjun mars 2010 var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um samruna þessara búa og í kjölfarið að gengið hefði verið frá kauptilboði Stjörnugríss hf. í eignir svínabúanna. Í júlí sama ár óskaði Stjörnugrís eftir undanþágu frá samkeppnislögum í ljósi þess að um væri að ræða kaup á bústofni félaganna til áframhaldandi eldis annars vegar og til slátrunar hins vegar.

Sú heimild fékkst ekki afgreidd á meðan Samkeppniseftirlitið var með samrunann til umfjöllunar en það gerði ekki athugasemdir að gripið væri til viðeigandi ráðstafana vegna reksturs búanna. Var þar m.a. vísað í lögbundnar reglur og kröfur Matvælastofnunar og dýralækna vegna ástands þeirra. Í kjölfarið benti Stjörnugrís á að fyritækið væri undir viðmiðunarmörkum um tilkynningarskyldu samruna þar sem heildarvelta samrunaaðila væri undir tveimur milljörðum króna á ári.


Álit Samkeppniseftirlitsins er ítarlegt en í ferlinu var farið ofan í saumana á rekstri Stjörnugríss og tengdum félögum en eins og kunnugt er rekstur þeirra umsvifamikill á svínakjöts- og eggjamarkaði. M.a. var leitað álita hjá aðilum á fóður- og smásölumarkaði.


Félög á fallandi fæti
Í niðurstöðum álitsins kemur fram að með hliðsjón af rannsókn málsins sé það mat Samkeppniseftirlitsins að samkeppni myndi raskast álíka mikið ef samruninn yrði ógiltur. Hliðsjón er höfð af því að í kjölfar útboðs Arion banka á svínabúunum hafi ekki borist viðunandi tilboð í eignirnar og að reksturinn hafi vart átt sér viðreisnar von. Í úrskurði eftirlitsins er það orðað sem svo að það sé „…niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að sjónarmið um fyrirtæki á fallandi fæti eigi við og að óhjákvæmilegt sé að heimila samruna á þeim grundvelli.”


Styrkir markaðsráðandi stöðu Stjörnugríss
Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið kjósi að heimila samrunann kemur fram í niðurstöðum að gjörningurinn styrki markaðsráðandi stöðu félagsins í svínarækt og slátrun. Sterk staða á eggjamarkaði hafi einnig áhrif til þess að styrkja samningsstöðu Stjörnugríss gagnvart fóðursölum ásamt því að félagið komist í þá aðstöðu að geta í krafti markaðsstöðu sinnar sett kjötvinnslum og dagvöruverslunum ósanngjarna viðskiptaskilmála. Þrátt fyrir þessi atriði telur Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að grípa til íhlutunar og ber það m.a. fyrir sig reglur samkeppnisréttarins um félög á fallandi fæti.


Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins


back to top