SS hækkar verð á hrossakjöti til bænda um 24%

Sláturfélag Suðurlands (SS) hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að frá og með mánudeginum 28. febrúar n.k. hækki verð á hrossakjöti til bænda um u.þ.b. 24%. Sem dæmi þá hækkar HRI A úr 105 kr/kg í 130 kr/kg.
Fram kemur í tilkynningunni að frá árinu 2007 hefur verð til bænda fyrir hrossakjöt meira en tvöfaldast. SS hefur að sögn fyrirtækisins leitt þá hækkun og greiðir nú hæsta verð sláturleyfishafa fyrir hrossakjöt. Í upphafi ársins 2007 hóf SS að leita fyrir sér með útflutning á hrossaafurðum, sem legið hafði niðri um nokkurt skeið eftir að Japansmarkaður lokaðist. Á þeim tíma var mikið framboð á sláturhrossum. Biðlistar með hundruðum hrossa voru hjá sláturleyfishöfum um allt land og afsetning hrossaafurða lítil sem engin. Þá var bændaverð á HR1 A 61,20 kr/kg.

Hagþjónusta landbúnaðarins verði lögð niður

Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að leggja Hagþjónustu landbúnaðarins niður en frumvarpið gerir ráð fyrir að verkefni stofnunarinnar verði færð til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
Hagþjónusta landbúnaðarins er staðsett á Hvanneyri og því er í raun ekki um að ræða mikla breytingu.

Hrossarækt og hestamennska

Almennir fundir um málefni hrossaræktar og hestamennsku verða haldnir á eftirtöldum stöðum á næstu vikum. Allir fundirnir hefjast kl. 20:30.

Þriðjudaginn 1. mars. Hvanneyri, Borgarfirði.
Miðvikudaginn 2. mars. Félagsheimili Sleipnis, Selfossi.
Fimmtudaginn 3. mars. Reiðhöllinni í Víðidal, Reykjavík.

Yara birtir áburðarverð

Sláturfélag Suðurlands, sem flytur inn Yara-áburð hefur birt verðskrá á áburði þetta árið. Flestar áburðartegundir félagsins hækka um 10-14% frá því í fyrra. Í meðfylgjandi töflu má sjá verð, kr/tonn án vsk, með staðgreiðsluafslætti eins og það horfir við bændum nú og á síðasta ári. Verðskrá félagsins, yfirlit yfir greiðslukjör og vöruskrá er að finna á heimasíðu Yara, www.yara.is.

Lífland hækkar verð á kjarnfóðri um 4-10%

Lífland hefur tilkynnt að fyrirtækið mun hækka verð á kjarnfóðri um 4-10% þriðjudaginn 22. febrúar n.k. Hækkunin er mismikil eftir tegundum. Ástæður verðbreytingarinnar eru miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði hráefna til fóðurgerðar og veiking íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum að því er fram kemur í tilkynningu fyrirtækisins.

Fundur félagsráðs Félags kúabænda á Suðrlandi ályktar um verðlagsmál mjólkur

Fyrsti fundur nýkjörins félagsráðs félags kúabænda á Suðurlandi var haldinn á Hvolsvelli 14 febrúar síðastliðinn. Á fundinum voru kosnir fulltrúar félagsins til setu á komandi aðalfund LK og einnig inn á aðalfund Bssl í apríl næstkomandi. Einnig var kosið í stjórn félagsins fyrir komandi starfsár en á aðalfundi félagsins 31.janúar var Þórir Jónsson á Selalæk endurkjörinn formaður en á fyrsta fundi félagsráðs var Elín B. Sveinsdóttir endurkjörinn gjaldkeri félagsins en fráfarandi ritari og varaformaður félagsins, Arnheiður D. Einarsdóttir Guðnastöðum, baðst undan endurkjöri og nýr ritari kjörinn, sem er Samúel U. Eyjólfsson Bryðjuholti. Auk kosninga var rætt ítarlega um verðlagsmál og nýlega niðurstöðu verðlagsnefndar búvöru um hækkun á mjólk til bænda. Af því tilefni var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Fóðurblandan birtir áburðarverð

Fóðurblandan hefur birt áburðarvöruskrá og -verðskrá fyrir árið 2011. Fyrirtækið býður upp á sömu áburðartegundir og í fyrra auk þess sem bætt hefur verið við Magna S með efnainnihaldi 27% köfnunarefni (N). Nánast allar tegundir hækka um 13,7% milli ára ef 10% pöntunar- og staðgreiðsluafsláttur er nýttur. Þó hækkar Fjölgræðir 7 með efnainnihaldinu 22-14-9 um 17,3%. Fyrirtækið býður viðskiptamönnum sínum sem panta fyrir 15. mars n.k. upp á vaxtalausa greiðslusamninga gegn tryggingum og flutningstilboði heim á hlað. Annars vegar má velja um greiðslusamning með gjalddaga 1. október eða sex jafnar greiðslur frá júní til nóvember. Enginn lántökukostnaður né stimpilgjöld leggjast á samningana.

Austur-Skaftfellingar í tilraunarækt á olíufræjum

Aðalfundur Kornræktarfélags Austur–Skaftfellinga var haldinn að Smyrlabjörgum í Suðursveit 10. febrúar síðastliðinn. Félagið var stofnað 4. febrúar 1997 og er tilgangur þess að vera hagsmunafélag kornbænda í Austur–Skaftafellssýslu. Fundurinn var vel sóttur og mættu 40 manns, bændur, sveitarstjórnarmenn og annað áhugafólk um jarðrækt.
Á aðalfundinum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins sem miða að því að gera félagið að hagsmuna- og áhugamannafélagi um jarðrækt í Austur–Skaftafellssýslu. Til að ná því markmiði voru samþykktar breytingar sem m.a. fólu í sér neðangreind atriði. Í fyrsta lagi að starfsemi félagsins einskorðist ekki lengur við kornrækt heldur jarðrækt almennt í Austur–Skaftafellsýslu.

Er repjuolía framtíðareldsneyti dísilvéla á Íslandi?

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um það að ræktun vetrarrepju til framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjafa er talin einfaldasta og líklega eina raunhæfa framtíðarlausn á eldsneyti fyrir dísilvélar bifreiða og skipa hér á landi. Unnið hefur verið að tilraunum við ræktun og framleiðslu hér á landi og mikill áhugi virðist vera hjá bændum. Með vetrarrepju í þessu sambandi er átt við repju sem uppskorin er ári eftir sáningu.

Nautgriparæktarfundur 3. mars n.k.

Fimmtudaginn 3. mars n.k. verður haldinn nautgriparæktarfundur á vegum Búnaðarsambands Suðurlands og Bændasamtaka Íslands í Árhúsum á Hellu. Fundurinn hefst kl. 13.30. Á fundinum verður m.a. fjallað um niðurstöður skýrsluhaldsins á árinu 2010, nautahaldið og nautgriparækt almennt. Þá verða veittar viðurkenningar fyrir afurðahæstu búin og kýrnar á s.l. ári sem og bestu naut úr nautaárgöngum 2002 og 2003.

Sláturhúsið Hellu hækkar verð á nautgripakjöti til bænda

Sláturhúsið Hellu hefur tilkynnt um hækkun á verði nautgripakjöts til bænda frá og með mánudeginum 14. febrúar n.k. Um er að ræða hækkun á öllum verðflokkum ungneyta- og kýrkjöts. Hækkunin nemur 20 kr/kg í öllum flokkum nema hvað KIUA og KIA hækka 25 kr/kg og KIUB, KIB, UNIÚ A og B undir 210 kg hækka um 30 kr/kg. Hækkunin er á bilinu 3,4-7,5%.

Fóðurblandan hækkar verð á fóðri um 5-10%

Fóðurblandan hf. hefur tilkynnt um 5-10% verðhækkun á öllu tilbúnu fóðri miðvikudaginn 16. febrúar 2011. Hækkunin verður misjöfn eftir tegundum. Að sögn fyrirtækisins er ástæða hækkunarinnar hækkun á verði aðfanga á erlendum mörkuðum. Fóðublandan hækkaði verð síðast í desember s.l. og nú kostar algeng fóðurtegund eins og Kúakögglar-16 68.605 kr/tonn í lausu með magn- og staðgreiðsluafslætti. Eftir hækkun nú mun þessi sama fóðurtegund því kosta á bilinu 72.035-75.465 kr/tonn í lausu með magn- og staðgreiðsluafslætti eftir því hve mikil hækkunin verður.

Breyting á vinnu sauðfjárræktarráðunauta

Sauðfjárræktarráðunautar Búnaðarsambandsins eru frá störfum eins og sakir standa. Þórey Bjarnadóttir er komin í fæðingarorlof til eins árs og Fanney Ólöf Lárusdóttir er í veikindaleyfi. Á meðan sinnir tölvudeild BÍ allri þjónustu við www.fjarvis.is og Mark kerfið www.bufe.is. Merki má panta hjá Kristínu Helgadóttur, sími 563 0300, netfang: kh@bondi.is og best er að leita til Önnu Guðrúnar, sími 563 0300, netfang: agg@bondi.is með aðstoð við fjarvis.is.

Haldnir verða borgarafundir vegna sorpbrennslu

Haldinn var fundur í samstarfsnefnd um sóttvarnir þar sem rætt var um nýlegar mælingar á díoxínmengun í mjólk og kjöti í Skutulsfirði, nálægum fjörðum og á Svínafelli. Fundinn sátu fulltrúar Matvælastofnunar, Sóttvarnarlæknis og Umhverfisstofnunar. Einnig komu á fundinn sérfræðingar í eiturefnafræðum. Ákveðið var á fundinum að haldnir verði borgarafundir í nágrenni eldri sorpbrennslna á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum þar sem fulltrúar Matvælastofnunar, Sóttvarnarlæknis og Umhverfisstofnunar munu kynna stöðu mála og næstu skref fyrir íbúum.

Sláturhúsin á Norðurlandi greiða hærra verð en sunnlensku húsin

Sláturhúsin á á NV-landi, KS, SKVH og SAH, hafa nú hækkað verðskrár sínar og greiða nú mun hærra verð fyrir nautgripakjöt en Sláturfélag Suðurlands og Sláturhúsið Hellu. Samanborið við verðskrá SS er munurinn 23 kr/kg á UNIÚ A, 20 kr/kg á UNI A, 21 kr/kg á UNI M+ og 21 kr/kg á KI B og KI C. Í flestöllum verðflokkum munar 20-25 kr/kg. Ef þessi verðmunur er reiknaður á 250 kg fall munar 5.000 til 6.250 kr. á grip í innleggsverði. Verðskrá Sláturhússins á Hellu er mjög áþekk verðskrá SS en þar munar ekki nem 1-2 kr/kg ef munurinn er einhver á annað borð.

Nánast útilokað að viðhalda tollvernd ef Ísland gengur í ESB

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi var haldinn í Árhúsum á Hellu þann 31. janúar sl. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var sérstakur gestur fundarins Stefán Haukur Jóhannesson, formaður aðalsamninganefndar vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu.
Talsverðar umræður urðu í kjölfar erindis Stefáns. Í þeim kom m.a. fram það álit Stefáns að það sé „nánast útilokað“ að viðhalda tollvernd ef af aðild Íslands verður. Slíkt hljóta að teljast mikilvægar upplýsingar af hálfu aðalsamningamanns Íslendinga og á skjön við meirihlutaálit utanríkismálanefndar Alþingis frá 9. júlí 2009.

Rýnifundi um landbúnaðarmál lokið

Rýnifundi um 11. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, landbúnað og dreifbýlisþróun, lauk í Brussel í síðustu viku. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samningahópsins.
Landbúnaðarmál standa utan EES-samningsins og þarf að semja um þau frá grunni. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB byggir á sameiginlegum markaði fyrir landbúnaðarvörur, en engum tollum eða magntakmörkunum er beitt í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli aðildarríkjanna. Til að tryggja stöðu landbúnaðar og jafna samkeppnisstöðu bænda er sameiginlegt stuðningskerfi fyrir landbúnað innan ESB, sem skiptist annars vegar í beinar greiðslur til bænda, sem alfarið koma af fjárlögum ESB, og hins vegar stuðning við dreifbýlisþróun sem er fjármagnaður sameiginlega af ESB og hverju aðildarríki.

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna á svínakjötsmarkaði

Samkeppniseftirlitið hefur kveðið upp úrskurð um yfirtöku Stjörnugríss á svínabúunum á Hýrumel, Stafholtsveggjum og í Brautarholti. Niðurstaðan er að Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til þess að hafast frekar að í málinu eins og segir í ákvörðunarorðum og mun eftirlitið því ekki koma í veg fyrir samrunann.
Forsaga málsins er að Arion banki yfirtók rekstur svínabúanna í Brautarholti, Hýrumel og Stafholtsveggjum á síðasta ári. Í byrjun mars 2010 var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um samruna þessara búa og í kjölfarið að gengið hefði verið frá kauptilboði Stjörnugríss hf. í eignir svínabúanna. Í júlí sama ár óskaði Stjörnugrís eftir undanþágu frá samkeppnislögum í ljósi þess að um væri að ræða kaup á bústofni félaganna til áframhaldandi eldis annars vegar og til slátrunar hins vegar.

Búvís birtir áburðarverð

Búvís ehf hefur gefið út fyrstu áburðarverðin sem birtast á þessu ári. Verðlistinn hefur sérlega stuttan gildistíma eða frá 1. febrúar s.l. til hádegis í dag, 4. febrúar. Fyrirtækið hyggst gefa út nýjan verðlista n.k. mánudag, 7. febrúar.
Samanburður á verðum milli ára hjá Búvís er örðugur þar sem ekki er um sömu tegundir að ræða og í fyrra. Þó má nefna að í verðlista fyrirtækisins frá því á sl. ári var 27-6-6 boðinn á 63.940 kr/tonn ef pantað var fyrir 12. mars. Í verðlistanum sem gildir fram á hádegi í dag er staðgreiðsluverð á 26-6-6 69.840 kr/tonn. Munurinn er 9,2%.

Skýrsla um sérstöðu íslensks landbúnaðar á ensku

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafði samband við Landbúnaðarháskóla Íslands um mitt síðasta ár og óskaði eftir því að unnin væri skýrsla um sérstöðu íslensks landbúnaðar. Skýrslan átti að skapa grundvöll að samningsmarkmiðum íslensku samninganefndarinnar.

back to top