Beint frá býli og Ferðaþjónusta bænda hlutu Landbúnaðarverðlaunin

Búnaðarþing 2011 var sett við hátíðlega athöfn í Bændahöllinni í dag. Þingið mun starfa næstu þrjá daga, eða fram á miðvikudag. Þá veitti Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Landbúnaðarverðlaunin 2011 en að þessu sinni féllu þau í skaut Beint frá býli og Ferðaþjónustu bænda.
Í setningarræðu sinni vék Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, að þeim áskorunum sem að bændur um heim allan standa frammi fyrir nú um stundir. „Matur er mál málanna. Þar tengjast mörg viðfangsefni, orka, vatnsbúskapur, land, gróður, búfé, verslun, lífskjör fólks og þjóðfélagsskipulag. Við fyllum 7 milljarða íbúatölu heimsins á þessu ári. Á hinum svokallaða heimsmarkaði með mat, er í raun og veru ekki mikið magn. Eftirspurn og framboð eru óstöðug. Breytingar í heiminum eru ekki lengur í spádómsgreinum, þær eru raunverulegar,“ sagði Haraldur meðal annars í ræðu sinni. Ætla má að Búnaðarþingsfulltrúar taki þessi orð Haraldar með sér inn í fundahöld næstu daga en umræða um matvælaframleiðslu í heiminum hefur líklega aldrei verið brýnni.

Í upphafi setningarinnar var sýnt myndband sem Bændasamtökin létu vinna þar sem tæpt er á þeim framtíðartækifærum, sem og ógnunum, sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir. Ekki síst mátti greina þar samhljóm við orð Haraldar um mikilvægi matvælaframleiðslu til framtíðar.


Myndband sem framleitt var í mars 2011 og sýnt við setningu Búnaðarþings


Jón Bjarnason ávarpaði þingið og brýndi bændur til samstöðu og áframhaldandi samvinnu við uppbyggingu íslensks þjóðfélags í kjölfar efnahagshrunsins. Þá ávarpið Nils Björke formaður norsku bændasamtakanna þingið en Björke er heiðursgestur þingsins þetta árið. Bar hann íslenskum bændum kveðju norskra starfsbræðra sinna og var á móti hylltur með lófataki, ekki síst fyrir þann mikla stuðning sem norskir bændur sýndu íslenskum bændum vegan eldsumbrotanna á Suðurlandi síðasta ár.


Beint frá býli sem hlaut í dag Landbúnaðarverðlaunin var stofnað í febrúar 2008 með það að markmiði að vera samtök bænda sem stunda heimavinnslu og sölu á heimaunnum afurðum. Félagsskapurinn hefur farið vaxandi frá stofnun og eru félagsmenn nú um eitt hundrað. Hefur félagsskapurinn vakið verðskuldaða athygli og hlaut í dag verðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og árangur. Veitti Guðmundur Jón Guðmundsson formaður félagsins verðlaununum viðtöku fyrir hönd félagsins.


Ferðaþjónusta bænda var stofnuð árið 1980 en vísi að slíkri starfsemi má þá rekja lengra aftur í tímann. Um 300 manns eru nú skráðir fyrir starfsemi á vegum félagsskaparins á 156 bæjum. Ferðaþjónusta bænda hlýtur Landbúnaðarverðlaunin 2011 fyrir frumkvöðlastarf og frábæran árangur til margra ára og veitti Sigurlaug Gissurardóttir formaður verðlaununum viðtöku fyrir hönd félagsins.


back to top