Bændur og landbúnaðarráðherra leggjast gegn ESB-aðild

Búnaðarþing var sett í gær og í máli Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, við setninguna kom fram að sterk og almenn andstaða er hjá bændum við aðild að ESB en nýleg könnun sýnir að 92% þeirra leggjast gegn aðild. Haraldur sagði niðurstöðuna sýna að ekki væri gjá á milli bænda og forystu þeirra en um 10% úr félagatali samtakanna voru spurðir álits í könnuninni.
Haraldur sagði mikil tækifæri vera í útflutningi landbúnaðarafurða og hvatti bændur til að huga meira að útflutningi en gert er í dag Hann benti um leið á að í dag miðaðist framleiðslustefna flestra greina eingöngu við að metta innanlandsmarkað.Staðrreyndin væri hins vegar sú að mun hærra verð fengist fyrir íslenskt lambakjöt á mörgum útflutningsmörkuðum heldur en hér heima. Sem dæmi væru útflutningsverðmæti frá hverju meðalsauðfjárbúi í landinu um 2,3 milljónir króna. Þá hafi loðdýrabændur aldrei fengið hærra verð fyrir loðskinn.
Haraldur sagði að fluttar hefðu verið út landbúnaðarafurðir í fyrra fyrir um 9 milljarða króna. Þó það teldist ekki mjög há fjárhæð þá samsvaraði hún næstum sömu fjárhæð og öll bein framlög til bænda í búvörusamningum í ár.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók í raun undir með formanni Bændasamtakanna í ávarpi sínu og ítrekaði andstöðu sína og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs við aðild að Evrópusambandinu. Hann rifjaði upp að Íslendingar hefðu gengið til viðræðna með fyrirvörum sem fram kæmu í afgreiðslu Alþingis og að þeim yrði ekki breytt án aðkomu Alþingis. Hann sagði jafnframt að ráðuneytið hefði lokið sínum hlut í undirbúningi aðildarviðræðna með því að skila inn svörum við spurningum ESB um íslenskan landbúnað og þátttöku í rýnifundum um löggjöf Íslands og Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn ESB muni nú ákveða næstu skref.


back to top