Framtíð norræns landbúnaðar björt

Nils T. Bjørke, formaður norsku bændasamtakanna, ávarpaði Búnaðarþing við setningu þess í gær og sagði framtíð matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum vera sérlega bjarta og í raun yrði norrænn landbúnaðar mikilvægari en áður, ekki síst út frá hnattrænu sjónarmiði. Bjørke lagði áherslu á að Noregur og Ísland ættu það sameiginlegt að eiga auðlindir sem aðrar þjóðir þarfnist. Loftlagsbreytingar í heiminum gætu komið betur út hjá Norðurlöndum en öðrum þjóðum, þar sem hækkandi hitastig gæti veitt norrænni landbúnaðarframleiðslu tækifæri til að rækta fleiri tegundir en áður og þannig öðlast aukið mikilvægi þegar kæmi að fæðuöryggi.
Framtíð landbúnaðar á Norðurlöndum væri því björt enda nóg af vatni og góðri jörð sem byðu enn upp á möguleika til framleiðsluaukningar. Mikilvægi eigin matvælaframleiðslu kæmi einnig enn skýrar í ljós þegar horft væri til hækkandi heimsmarkaðsverðs á matvöru.

Hvatti bændur til að berjast gegn ESB
Bjørke vék einnig að ESB í máli sínu og hvatti bændur til að staðið yrði utan sambandsins. Hann sagði Noreg og Ísland geta verið lítil lönd með sjálfstæðar raddir í heiminum, svo lengi sem löndin stæðu utan ESB. Þannig fylltu bæði þau hlutverk sem stóru aðildarþjóðirnar gætu ekki og notað sér möguleika sem litlar aðildarþjóðir hefðu ekki lengur.


back to top