Austur-Skaftfellingar í tilraunarækt á olíufræjum

Aðalfundur Kornræktarfélags Austur–Skaftfellinga var haldinn að Smyrlabjörgum í Suðursveit 10. febrúar síðastliðinn. Félagið var stofnað 4. febrúar 1997 og er tilgangur þess að vera hagsmunafélag kornbænda í Austur–Skaftafellssýslu. Fundurinn var vel sóttur og mættu 40 manns, bændur, sveitarstjórnarmenn og annað áhugafólk um jarðrækt.
Á aðalfundinum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins sem miða að því að gera félagið að hagsmuna- og áhugamannafélagi um jarðrækt í Austur–Skaftafellssýslu. Til að ná því markmiði voru samþykktar breytingar sem m.a. fólu í sér neðangreind atriði. Í fyrsta lagi að starfsemi félagsins einskorðist ekki lengur við kornrækt heldur jarðrækt almennt í Austur–Skaftafellsýslu.
Í öðru lagi geta allir sem eftir því sækjast gerst félagsmenn. Í þriðja lagi var stjórnarmönnum fjölgað úr þremur í fimm, þannig að hver sveit í Austur–Skaftafellssýslu hefur fulltrúa í stjórn félagsins, og í fjórða lagi var nafni félagsins breytt í Ræktunarfélag Austur–Skaftfellinga (RASK). Nýkjörna stjórn Ræktunarfélags Austur–Skaftfellinga skipa þeir Óskar Þorleifsson frá Vík í Lóni, Eiríkur Egilsson  frá Seljavöllum í Nesjum, Bjarni Bergsson frá Viðborðsseli á Mýrum, Steinþór Torfason frá Hala í Suðursveit og Benedikt Steinþórsson frá Svínafelli í Öræfum.
Á aðalfundinum greindi Eiríkur Egilsson stjórnarmaður fundarmönnum frá starfsemi félagsins á undanförnum misserum. Í máli hans kom m.a. fram að félagið mun standa fyrir tilraunarækt á olíufræjum í Austur–Skaftafellsýslu næsta sumar í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann greindi jafnframt frá því að Sveinn Rúnar Ragnarsson væri ráðinn verkefnisstjóri yfir tilraunaræktinni og að félagið fengi styrk frá Sveitarfélaginu Hornafirði upp á 2.500.000. kr til að standa straum af kostnaði við hana. Þess ber einnig að geta að Búnaðarsamband Suðurlands veitir Ræktunarfélagi Austur–Skaftfellinga stuðning með því að leggja til mann við verklega þætti tilraunaræktuninnar.
Tilraunaræktunin á að fara fram í öllum sveitum Austur–Skaftafellssýslu þ.e. Lóni, Nesjum, Mýrum, Suðursveit og Öræfum. Í hverri sveit verður tilraunareitur þar sem sáð verður nokkrum yrkjum af annarsvegar olíunepju og hinsvegar olíurepju. Tilgangur tilraunaræktuninnar er að kanna hvort að þær ræktunaraðstæður sem eru fyrir hendi í Austur–Skaftafellssýslu séu nægulegar góðar svo að þessar tvær tegundir geti þroskað olíufræ. Mikilir hagsmunir eru fólgnir í ræktun olíufræja, því þau skila verðmætum afurðum þ.e. hráolíu og próteinhrati auk hálms sem m.a. er hægt að nýta sem undirburð. Hráolíuna er unnt að nýta í matarolíu, smurolíur, sápur, bragðefni og lífefnaeldsneyti svo fátt eitt sé nefnt. Hratið verður til þegar hráolían er pressuð úr fræjunum og inniheldur 30–40% prótein. Próteinhratið getur því orðið kærkomin búbót fyrir bændur í Austur–Skaftafellssýslu þar sem tilkoma þess getur dregið verulega úr hlutfalli aðkeypts fóðurs fyrir búfénað í sýslunni og þar með minnkað kostnað bænda vegna fóðuröflunar. Eins og áður sagði eru miklir möguleikar fólgnir í ræktun olíufræja en það er ennþá mörgum spurningum ósvarað um ræktun þeirra hér í Austur-Skaftafellssýslu. Af þeim sökum er nauðsynlegt að gera tilraunir til að leitast við að svara þeim.
Undir lok aðalfundarins skrifaði nýkjörin stjórn Ræktunarfélags Austur–Skaftfellinga ásamt Kristjáni Guðnasyni, formanni Atvinnu- og menningarmálanefndar, undir samning vegna fjárhagslegstuðnings Sveitarfélagsins Hornafjarðar við tilraunaræktuninnar á olíufræjum í Austur-Skaftafellssýslu. 
Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri sagði að verkefnið væri áhugavert vegna þeirrar nýsköpunar sem það feli í sér og vegna samstöðu sem náðst hefur meðal bænda í sveitarfélaginu um framkvæmd þess.  Taldi hann að ef og þegar ræktun olíufræja skilar árangri á svæðinu yrði það mikið lyftistöng fyrir alla íbúa og sveitarsjóð.  Sagði hann að einhugur hefði verið í bæjarstjórn um afgreiðslu málsins.
Stjórn Ræktunarfélags Austur–Skaftfellinga vill koma á framfæri sérstökum þökkum til bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem samþykkti fjárstuðninginn við tilraunaræktunina einróma.


back to top