Steinefnajafnvægi og doðavarnir

Að undanförnu hefur athygli fóðurfræðinga í auknum mæli beinst að fóðrun kúa fyrir burð. Það er orðið ljóst sem Dishington sýndi fram við Dýralæknaháskólann í Osló 1975 að fóðrun með háu hlutfalli neikvæðra jóna fyrir burð ver kýr gegn bráðadoða. Þessi rannsókn hefur nú verið staðfest og Olav Österås bendir á í grein í tímaritinu Buskap að slík fóðrun dregur einnig úr hættunni á stálmabólgu og þar með júgurbólgu. Það er því ljóst að það er eftirsóknarvert að fóðra kýr með lágu hlutfalli jákvæðra jóna (katjóna) og háu hlutfalli neikvæðra jóna (anjóna) fyrir burð. Mjög mikilvægt er að þessu sé öfugt farið strax eftir burð.


Talað er um katjóna/anjóna jafnvægi (KAJ). Katjónir í fóðri eru t.d. natríum, kalí, kalsíum og magnesíum, en anjónir eru t.d. klór, súlföt og fosföt. Verði meira af anjónum en katjónum í fóðrinu binst afgangurinn af neikvæðu anjónunum með vetni (H+) og mynda sýru þannig að efnaskipti líkamans súrna. Þetta er hægt að mæla t.d. með því að mæla sýrustig (pH) í þvagi. Í fóðrinu er hægt að reikna út KAJ með því að draga anjónirnar (Cl, S, P) frá katjónunum (N, K, Mg, Ca). Fyrir burð þarf sú tala að vera neikvæð, en strax eftir burð þarf hún að verða jákvæð.


Það er langt frá því að vera einfalt að stjórna KAJ. Anjónir fást úr efnum eins og magnesíumklóríði (MgCl2), magnesíumsúlfati (MgSO4), kalsíumklóríði (CaCl2), ammóníumklóríði (NH3Cl), ammóníumsúlfati ((NH4)2SO4), saltsýru (HCl) og brennisteinssýru (H2SO4). Vandamálið er að mörg þessi efni eru bragðvond eða beinlínis hættuleg.
Sýrustig í þvagi lækkar (súrnar) niður fyrir pH 7,5 hjá geldum kúm og kvígum þegar KAJ í fóðri er lægra en 0. Ef KAJ er –300 fer pH niður í 6. Sé KAJ hærra en 0 verður pH í þvagi 8-8,5 sem er eðlilegt í nautgripum.
Hér á landi er klór ekki mældur í heyi og þess vegna er ekki hægt að reikna KAJ í  gróffóðrinu. Besti mælikvarðinn á KAJ í fóðri er því að mæla pH (sýrustig) í þvagi kúnna.


Lækkun á KAJ geta fylgt umtalsverð vandkvæði vegna þess að fóður sem er ríkt af anjónum er oft ólystugt og  þurrefnisátið minnkar. Það getur leitt  til vanfóðrunar og fitusöfnunar í lifur sem veldur súrdoða og vandamálum eftir burð. Finnar hafa framleitt kjarnfóður sem er ríkt af anjónum til þess að fóðra með rétt fyrir burð. Það er m.a. bragðbætt með melassa en er of dýrt fóður. Þar að auki er ekki æskilegt að breyta um kjarnfóður rétt um burð en þá þarf KAJ að verða jákvætt. Sú leið sem helst er hægt að mæla með er að eiga gott tún og orkuríkt hey af því sem er svelt af kalíi með því að bera ekki á það skít og nota á það kalílausan, tilbúinn áburð. Þá þarf að vera hægt að fóðra einstakar kýr með því fóðri rétt fyrir burð, því eftir burð og framan af mjaltaskeiði veldur slíkt fóður verulegum heilsuvandamálum. Þó ætti alltaf að forðast að fóðra kýr með mjög kalíríku fóðri. Undirritaður hefur þurft að takast á við slíkt vandamál í hjörð sem var beitt á kalísnauða beit og fyrir mörgum árum kom upp slíkt svæðisbundið vandamál  hér á landi.
Neikvætt KAJ rétt fyrir burð, dregur úr bráðadoða og stálmabólgu og ef til vill júgurbólgu. Það er vissulega áhugavert því til eru athuganir sem sýna að á búum með mikinn bráðadoða er einnig mikið um júgurbólgu í kvígum. Sumir segja að kálfarnir séu með væga súrnun í efnaskiptunum við burð ef móðirin er með súr efnaskipti. Hvort það getur haft áhrif á lífsþrótt kálfsins og á hvaða hátt er mér ekki kunnugt um.

 

Þorsteinn Ólafsson

 

Byggt á:
Olav Österås: Mjölkefeber og kation/anion-balansen, Buskap, 5, 2004 s. 58-59
Rasmus Lang-Ree: Grovforet kan gi mjölkefeber, Buskap, 5, 2004 s. 60-61

 

 

back to top