Nokkur mikilvæg atriði um sumarfóðrun mjólkurkúa

Lykilatriði í markvissri nýtingu beitar fyrir mjólkurkýr er skipulag, stjórnun og eftirlit. Þar koma við sögu meðal annars eftirfarandi atriði sem hver og einn verður að meta út frá eigin aðstæðum:

Hvernig er staða kúnna á mjólkurskeiðinu?
Ástæða getur verið að skipta hópnum m.t.t. beitar og stöðu kúnna í framleiðslu.
Fara þarf yfir burðartíma kúnna og eins burðartíma á 1.kálfskvígum, þarfir kúa sem eru að fara í geldstöðu eru allt aðrar en hámjólka kúa.

Hvaða spildur á að nota?
Of oft eru þetta gömul tún með mjög blönduðum túngróðri sem kúnum er ætlað að nýta. Í raun þurfa kýrnar aðgengi að ferskri, einsleitri beit t.d. nýleg vallarfoxtún, á sama hátt og við leggjum áherslu á aðra fóðuröflun með vallarfoxgrasi. Jafnframt mega spildur ekki liggja of langt frá fjósi, hámark 400- 600 metrar.

Hvernig á að haga brynningu kúnna?
Vatnsþörf kúa er mikil, hún er væntanlega um 40-60 lítrar á dag þegar nyt kúnna er 20 til 30 lítrar á sólarhring, háð umhverfishita og þurrefni fóðurs. Mikilvægt er að þær hafi gott aðgengi að vatni og þurfi sem minnst að hafa fyrir því að nálgast það.

Hvaða beitarskipulag á að nota?
Ýmis tilbrigði er hægt að nota, mælt er með hólfabeit og/eða beit með rafgirðingu. Hólfabeitin kostar ekki eins mikla vinnu og beit með færslu rafgirðingar. Grundvallaratriði er, ef hólfabeit er notuð, að hólfin séu ekki of stór og síðan þegar kýrnar fara á nýtt hólf, að fyrra beitarhólfið fái hvíld og/eða slátt og sé friðað til að endurvöxtur verði tiltölulega jafn og auðvelt að nýta það aftur síðar til beitar.

Hvenær á að setja út og hvenær á að hýsa kýr (vor, haust)?
Almennt á það við í þessu sambandi að setja gripi tiltölulega snemma út, jafnvel þó lítil sem engin beit er komin, þeim verður minna um fóðurbreytinguna og ættu að halda lyst á heyi enda sé það þá gæðafóður. Taka þær frekar fyrr inn áður en haustslagviðrin fara að hafa veruleg áhrif.

Á að hýsa kýrnar á nóttunni?
Svar við þessu getur verið háð aðstæðum á hverjum stað. Í rannsóknum á beitaratferli mjólkurkúa erlendis hefur komið fram að þegar kýr eru á beit þá nota þær útiveruna á mismunandi hátt. Þær bíta í lotum, oft 4-6 lotur á sólarhring, nýta beit mjög lítið yfir nóttina en lengsta beitarlotan er yfirleitt síðla dags (40% af dagsskammtinum) og þá eftir kvöldmjaltir og þar til næturhúmið fellur á.

Hvað með hey- og kjarnfóðurgjöf með beit?
Til að tryggja jafnvægi í vömb kúnna og draga úr sveiflum er mælt með því að kúnum sé gefið hey með beitinni allt sumarið. Við mjög sterka beit eins og kálbeit þá er nauðsynlegt að kýr hafi aðgengi að eitthvað trénuðu fóðri til að halda vambarstarfseminni í lagi. Magnið sem þær taka til sín af slíku “fóðri” má samt sem áður ekki vera mikið.
Góð beit er orku- og próteinrík og þá ætti að vera hægt að nota fóðurblöndu sem væri með tiltölulega lágt próteininnihald. Eins kemur vel til greina að nota bygg sem vðbótarfóður með beit. Við bestu beitarskilyrði ættu kýr að geta mjólkað 18-20 kg/dag af beitinni eingöngu.

Hvað með nýtingu grænfóðurs?
Til að halda uppi nægilegum orku- og próteinstyrk á beit er eðlilegt að nota grænfóður sem hluta af beitarskipulaginu og þá einkum á tveimur álagstímum. Í fyrsta lagi að brúa bilið frá 1.slætti að hánni og í öðru lagi að viðhalda ferskleika beitarinnar síðsumars/haust. Nánar má lesa um mismunandi nýtingarmöguleika grænfóðurs í síðustu tölublöðum Bændablaðsins þar sem ýmsir reyndir “beitarbændur” lýsa reynslu sinni.


Að lokum


  • Rétt nýting beitar byggir á að gefa sér tíma í undirbúning; hvaða spildur ætla ég að nota ? Hversu marga hektarar þarf ? Hver verður gripafjöldinn ? Hvernig á að sinna brynningu ? o.s.frv.
  • Eitt af því sem eðlilegt er að skoða; á að slá t.d 1-2 hektara mjög snemma til að fá “háarbeit” enn fyrr en venja hefur verið ?
  • Mikilvægt er að hafa hreinar grastegundir í beitartúnum og nota nýleg tún. Kýrnar á þessum tíma sem fóðra á til afurða gera sömu kröfur um gæðafóður eins og á öðrum tímum ársins.
  • Mikilvægt er að hreinsa landið eftir þörfum og eftir hvert beitartímabil.
  • Bregðast þarf við áður en afleiðingarnar koma fram í tanknum!

back to top