Fóðrun í mjöltum eykur nyt

Sænsk rannsókn bendir til þess að fóðrun í mjöltum auki oxytocin í blóði og nyt mjólkurkúa samanborið við fóðrun fyrir og/eða eftir mjaltir.

Í rannsókninni voru bornar saman fóðrun 1½ tíma fyrir mjaltir, í mjöltum og 1½ tíma eftir mjaltir. Fóðrun í mjöltum gaf hærri nyt og meiri afurðir í kg mjólkur, fitu, prótein og laktósa. Nythæðin reyndist vera 31,1 kg að meðaltali hjá hópnum sem var fóðraður í mjöltum samanborið við 30,3 kg hjá kúm fóðruðum fyrir mjaltir og 30,6 kg hjá kúm fóðruðum eftir mjaltir.
 
Alls voru 24 rauðskjöldóttar kýr (SRB) í rannsókninni sem stóð frá 7-30 vikum eftir burð. Kýrnar voru í básafjósi og mjólkaðar tvisvar á dag. Fóðrað var með heilfóðri eftir lyst í þremur flokkum eins og áður sagði. Einum og hálfum tíma fyrir mjaltir voru allar fóðurleifar fjarlægðar og gefið á ný; 1½ tíma fyrir mjaltir, í mjöltum eða 1½ tíma eftir mjaltir. Til þess að eyða einstaklingsáhrifum kúnna prófuðu allar kýrnar allar meðferðir. Rannsóknin var keyrð þrisvar sinnum þannig að eftir 2ja vikna aðlögun var hver kýr í rannsókninni í viku í senn þar sem nyt og blóðefni voru mæld.
 
Oxytocin eða mjaltavaki er hormón sem kemur kúnum til þess að selja. Oxytocin í blóði var marktækt hærra hjá þeim kúm sem voru fóðraðar í mjöltum (sjá mynd). Oxytocin í blóði steig mjög lítið við mjaltir hjá kúm sem fóðraðar voru fyrir og eftir mjaltir.


Samhengi fóðrunaraðferðar og oxytocin í blóði fyrir, um og eftir mjaltir. Johansson et al., 1999.


Hátt oxytocin hlutfall í blóði virðist auka nyt kúnna auk þess sem júgrið virðist tæmast betur. Mjaltir voru um 1 mínútu lengri hjá kúnum sem fóðraðar voru í mjöltum samanborið við hina hópana.


Kúafjöldinn í rannsókninni var lítill og aukningin í nythæð smávægileg en fleiri rannsóknir hafa sýnt sömu tilhneigingu, þ.e. að fóðrun í mjöltum hafi jákvæð áhrif fremur en hitt. Í flestum fjósum er auðvelt að fóðra í mjöltum, sérstaklega í básafjósum og einkum með kjarnfóðri. Í mjaltabásum er auðvelt að koma við kjarnfóðurgjöf en mörgum finnst það tefja mjaltir og verða til þess að kýrnar verði órólegri í mjöltum. Þrátt fyrir þetta og að nytin hafi aukist lítillega í þessari rannsókn er fóðrun í mjöltum eitthvað sem menn ættu að skoða með jákvæðum og opnum huga.


Heimild: Birgitta Johansson, Kerstin Uvnäs-Moberg, Chris H. Knight & Kerstin Svennersten-Sjaunja (1999): Effect of feeding before, during and after milking on milk production and the hormones oxytocin, prolactin, gastrin and somatostatin. Journal of Dairy Research, 66, 151-163.

back to top