Fóðrun ungkálfa með kálfafóstru

Fóðrun ungkálfa með kálfafóstru

Guðmundur Jóhannesson
Búnaðarsambandi Suðurlands


Með stækkandi kúabúum verður æ algengara að kálfar séu fóðraðir í stærri hópum en tíðkaðist áður fyrr enda fjölgar ásettum kálfum á hverju búi með aukinni bústærð. Þetta útheimtir meiri vinnu við fóðrun kálfanna og ekki hvað síst mjólkurfóðrun. Það er því eðlilegt að margir velti fyrir sér og skoði möguleika á notkun sjálfvirkrar tækni til mjólkurgjafar eða svonefndar kálfafóstrur.
Kálfafóstrur eru þó ekki hin eina og sanna lausn á vandamálum kúabóndans við mjólkurfóðrun kálfanna. Þeim geta fylgt vandamál eins og flestu öðru. Eitt af þeim er hin harða samkeppni sem verður milli kálfanna um aðgengi að fóstrunni, líkt og við þekkjum með kýrnar og kjarnfóðurbásana. Á vegum Danmarks JordbrugsForskning hafa verið gerðar rannsóknir á hinum ýmsu vandamálum sem upp koma við notkun kálfafóstra. Þessar rannsóknir voru gerðar á Kvægbrugets Forsøgscenter í Foulum og hér er ætlunin að skýra aðeins frá þeim.


Fjöldi kálfa á kálfafóstru
Við sjálfvirka mjólkurfóðrun fer kálfurinn í kálfafóstru þar sem hann sýgur mjólk í gegnum túttu líkt og á túttufötu. Kálfafóstran les hálsband kálfsins og skammtar honum fyrirfram ákveðið magn mjólkur og þar sem hver kálfur er einstaklingsmerktur er útilokað að þeir geti stolið frá hvorum öðrum. Hins vegar er mikil samkeppni um aðgengi að kálfafóstrunni.
Mynd 1
Lengd heimsókna (mín. á kálf á dag) með 12 eða 24 kálfum á fóstru. Súlurnar sýna heimsóknir þar sem kálfurinn drekkur (grænt), drekkur og tómsýgur á eftir (gult) og fær enga mjólk (rautt). Þar sem 24 kálfar eru um eina fóstru nota þeir minni tíma til drekka og dvelja skemur í fóstrunni en kálfar í minni hópum.
Ein rannsóknanna á Foulum miðaði að því að finna “besta” fjölda kálfa um hverja kálfafóstru. Hún leiddi í ljós að í 24 kálfa hópum var mun meiri samkeppni en í minni hópum með 12 kálfum. Hér er ávallt talað um eina kálfafóstru á hóp. Í 24 kálfa hópunum urðu kálfarnir fyrir áreiti annarra kálfa í 50% þess tíma sem þeir voru í fóstrunni meðan að sambærilegur tími í minni hópunum var aðeins 10%. Hinir kálfarnir ýmist stjökuðu við, ruddust á eða stönguðu þann sem var í fóstrunni á hverjum tíma. Þá var biðtími eftir að komast í fóstruna mun meiri í stærri hópunum eða 21 mínúta samanborið við 6 mínútur í minni hópunum auk þess sem hverjum kálfi var meinaður aðgangur oftar í stóru hópunum (2,5 samanborið við 1,4 sinnum á dag). Samkeppnin í stóru hópunum varð einnig til þess að drykkjarhraði kálfanna jókst um 30%.
Samhliða þessu var einnig skráð hvers eðlis heimsóknir kálfanna í fóstruna yfir daginn voru. Gerður var greinarmunur á heimsóknum þar sem kálfarnir drukku (1), drukku og héldu áfram að sjúga eftir að skammturinn kláraðist (2) og árangurslausum heimsóknum (3).
Í stóru hópunum drukku kálfarnir mun hraðar og eyddu því minni tíma í fóstrunni en í minni hópunum (mynd 1). Þeir heimsóttu fóstruna einnig sjaldnar yfir daginn. Sænskar rannsóknir hafa einnig sýnt að 10 kálfa hópar minnka samkeppnina enn frekar og draga úr hættu á öndunarfærasjúkdómum og að í 8 kálfa hópum er 40% minni hætta á öndunarfærasjúkdómum og 40 gramma meiri vöxtur á dag en í 16 kálfa hópum.


Mjólkurmagn
Þegar áhrif mjólkurmagns á notkun kálfanna á fóstrunni voru skoðuð kom í ljós að kálfar á lítilli mjólk nota lengri tíma á dag í fóstrunni en kálfar á mikilli mjólk. Í fljótu bragði virðist þetta órökrétt en á sér þó eðlilegar skýringar.
Mynd 2
Lengd heimsókna (mín. á kálf á dag) með litlum eða stórum mjólkurskammti. Súlurnar sýna heimsóknir þar sem kálfurinn drekkur (grænt), drekkur og tómsýgur á eftir (gult) og fær enga mjólk (rautt). Kálfar sem fá litla mjólk dvelja lengur í fóstrunni vegna mun fleiri árangurslausra heimsókna.
Kálfafóstrur eru að öllu jöfnu stilltar þannig mjólkinni er skipt í skammta með ákveðnu millibili milli skammta. Þegar kálfurinn er búinn með dagsskammtinn eða lágmarkstími milli skammta er ekki liðinn fær hann enga mjólk við heimsókn í fóstruna. Það köllum við árangurslausa heimsókn.
Rannsóknin sýndi að kálfar sem fengu litla mjólk (5 lítra á dag) áttu mun fleiri árangurslausar heimsóknir á dag en kálfar sem fengu mikla mjólk (8 lítra á dag). Þeir komu margoft yfir daginn og könnuðu hvort enga mjólk væri að hafa og eyddu að meðaltali 51 mínútu á dag í fóstrunni samanborið við 42 mínútur á dag hjá þeim sem fengu mikla mjólk.
Af þessum tíma fóru 30 mínútur í árangurslausar heimsóknir hjá kálfunum á minni mjólkurskammtinum, eða meira en helmingur alls tímans í fóstrunni, en aðeins 14 mínútur hjá þeim sem fengu stærri mjólkurskammtinn (mynd 2).
Þessi mikli fjöldi árangurslausra heimsókna og sá tími sem í þær fer, er í raun vandamál þar sem afköst fóstrunnar minnka sem þessu nemur. Þá getur lítill mjólkurskammtur aukið samkeppni milli kálfanna þó svo fjöldinn breytist ekki og leitt til þess að þeir kálfar sem eiga eftir mjólk af sínum dagsskammti komist einfaldlega ekki að til þess að drekka hann.


Skammtafjöldi
Mikilvægt er að skipta dagsskammtinum ekki í of marga og litla eða of stóra og fáa skammta yfir sólarhringinn.
Mynd 3
Lengd heimsókna (mín. á kálf á dag) þar sem dagsskammtinum er skipt í 4 eða 8 skammta. Súlurnar sýna heimsóknir þar sem kálfurinn drekkur (grænt), drekkur og tómsýgur á eftir (gult) og fær enga mjólk (rautt). Kálfar sem fá dagsskammtinn í 8 skömmtum nota lengri tíma í sog eftir að þeir hafa drukkið skammtinn.
Kálfar sem fá færri og stærri skammta yfir daginn dvelja að öllu jöfnu skemur í fóstrunni en þeir sem fá fleiri og minni (mynd 3). Sogþörf kálfanna er ekki betur fullnægt með mörgum og litlum skömmtum en þó er ekki ráðlegt að hafa skammtana stærri en 1,5-2 lítra í einu. Mikilvægt er að fullnægja sogþörf kálfanna en varast verður að örva hana um of með því að hafa skammtana marga og litla. Það getur kallað á sogvandamál.


Fráfærur
Við notkun kálfafóstru er upplagt að venja kálfana af mjólk með því að smáminnka mjólkurskammtinn yfir ákveðið tímabil, t.d. á hálfum mánuði. Áhrif þess að minnka mjólkurskammtinn á tveimur vikum hafa verið könnuð og kom í ljós að eftir viku, þegar búið var að helminga skammtinn, hafði heimsóknatíðni og lengd heimsókna ekkert breyst. Hins vegar fjölgaði árangurslausum heimsóknum upp í 60% allra heimsókna sem sýnir að kálfarnir reyna að ná í meiri mjólk.


Hvenær skal byrja að nota kálfafóstru
Það getur verið nauðsynlegt að hjálpa kálfum að venjast kálfafóstrunni fyrstu dagana eftir að þeir koma í hópinn. Rannsókn með 18 kálfum í hóp með eina fóstru leiddi í ljós að nauðsynlegt var að aðstoða kálfa sem höfðu fengið minna en helming dagsskammtsins áður en þeir fóru yfir á fóstruna. Kálfarnir voru settir á fóstruna ýmist 6 eða 14 daga gamlir og á fyrstu vikunni þurftu yngri kálfarnir áberandi meiri aðstoð en þeir eldri. Þannig þurftu 80% yngri kálfanna hjálp að meðaltali 2,8 daga en 60% eldri kálfanna í 1,5 daga að meðaltali. Ungir kálfar eiga erfiðara með að venjast samkeppninni og því er um að gera að setja kálfana ekki of unga á fóstruna, sérstaklega ekki ef hópurinn er orðinn nokkuð stór. Séu kálfarnir fáir er óhætt að setja kálfana yngri á fóstruna en ella.


Hreinlæti
Að lokum er rétt að minna á að þrif á kálfafóstrum eru mjög mikilvæg. Mjólk er prýðilegasta gerlafóður og séu fóstrurnar ekki þrifnar er hætt við óæskilegri bakteríumyndun sem getur leitt til sýkingar í kálfunum. Það er því brýnt að þrífa fóstrurnar reglubundið og láta þær alls ekki standa ónotaðar og óþrifnar um tíma, þ.e. þann tíma sem engir kálfar eru á mjólkurskeiði.


Samantekt


  • Hafið ekki of marga kálfa um eina fóstru, út frá rannsóknum er ekki hægt að mæla með meira 12 kálfum í hóp og alls ekki fleiri en 16.
  • Mæla verður með að dagsskammtar séu frekar stærri en minni.
  • Skiptið dagsskammtinum ekki í of fáa og smáa skammta, hafið þá frekar færri og stærri.
  • Venjið kálfana af fóstrunni með því að smáminnka mjólkurskammtinn.
  • Setjið kálfana ekki of unga á fóstru, ekki er hægt að mæla með því að byrja fyrr en þeir eru a.m.k. vikugamlir og helst eldri.
  • Þrífið fóstrurnar reglubundið.


Heimild:
Jensen, Margit Bak 2006. Sådan opnås succes med mælkefodringsautomater til kalve i grupper. Kvæg 8, 24-28.

back to top