Sumarbeit kúnna II

Sumarbeit kúnna II


Guðmundur Jóhannesson
Búnaðarsambandi Suðurlands


Í fyrri hluta greinarinnar var fjallað val á beitilandi, beitarframboð, landþörf, byrjun beitar að vori og kjarnfóðurnotkun með beit. Í þessum síðari hluta verður aðeins fjallað um beitarkerfi, beitarþunga og -álag og síðan haustfóðrunina.


Beitarkerfi
Oft hefur beitarumræða snúist um beitarkerfi. Rætt er um skiptibeit, hólfabeit, randabeit o.s.frv. Mismunandi beitarkerfi gefa í sjálfu sér engan mismun í afköstum beitilands og gripa nema að verið sé að tala um mismunandi beitarþunga eða beitarálag. Við skulum rifja þessi hugtök upp. Beitarþunga mælum við með fjölda gripa á flatareiningu lands en beitarálag sem fjölda gripa á magneiningu gróðurs (beitar).
Á mynd sjáum við almennt samband beitarþunga við annars vegar afurðir eftir hvern grip og hins vegar afurðamagn eftir einingu beitilands. Þar sést glöggt hve mikill munur er á nýtingu lands eftir því hvort stefnt er að mestum afköstum á grip eða flatareiningu lands. Hérlendis má ætla að þar sem flestir bændur hafa mikið land til umráða stefni menn að því að nýta gripina til fullnustu. Andstæða þessa er t.d. á Nýja-Sjálandi þar sem stefnt er hámarksafköstum á einingu lands enda fer öll mjólkurframleiðsla fram á beit.
Þrátt fyrir það sem sagði hér á undan geta mismunandi beitarkerfi skilað mismunandi árangri, sérstakelga hvað vinnufyrirkomulag varðar. Randabeit sem stýrt er með færanlegum rafstreng kallar til dæmis á reglulegt eftirlit og vinnu sem margir kjósa að sleppa frá á mesta annatíma við heyskap. Þetta er samt ef til vill gott aðhald með nauðsynlegu eftirliti sem veitir ákveðinn kost við beitarstjórn.
Hérlendis er skiptibeit lítt stunduð, þar sem notkun beitarhólfa er skipulögð með tilliti til að skipta beitarpeningi niður í hólf eftir fóðurþörfum hverju sinni. Þá er hámjólka kúm fyrst beitt á hólfin og þeim þannig tryggð gæðamesta beitin en síðan fylgja lágmjólka kýr og geldneyti til að hreinsa hólfin betur. Þá má vel hugsa sér hross til að hreinsa beitarhólf vel. Skiptibeit getur hentað vel á stærri kúabúum.


Haustfóðrun
Beitarvandamál koma yfirleitt upp seinni hluta sumars og fram á haustið. Í þessu sambandi er rétt að minna á myndina hér til hliðar sem sýnir niðurstöður beitarathuganna í Eyjafirði. Þar má sjá að á síðustu tveimur mánuðum beitartímans kom fram munur sem svara til 3,5 kg af mjólk eftir hverja kú á dag milli búa í besta og lakasta flokki. Þetta sýnir glögglega mikilvægi góðrar haustbeitar eigi kýrnar að halda nythæð. Þessu til viðbótar er rétt að minna á hve erfitt er að vinna upp afurðir þegar kýrnar koma á bás. Haustbeitin getur því gert gæfumuninn í getu viðkomandi bús til framleiðslu á mjólk yfir haustmánuðina og fyrri hluta vetrar. Ástæða er að hafa í huga þann mun sem er á verði mjólkur yfir vetrarmánuðina og sumarmánuðina.
Beitarvandamálin seinni hluta sumars skapast vegna ört hrakandi gæða beitarinnar auk þess sem beitarframboð minnkar. Þá bætast við þættir eins og ótryggara veður með haustrigningum og hrakviðrum. Afleiðingarnar verða oft á tíðum óheppilegar sveiflur í fóðrun kúnna en eins og menn þekkja eru þær aldrei til góðs.
Úrbótaleiðin hlýtur að vera sú að reyna að tryggja gæði og magn síðsumar- og haustbeitar með áborinni há eða grænfóðri. Til að draga úr áhrifum snöggra fóðurbreytinga þarf að hefja heygjöf með beitinni snemma, helst í byrjun september. Þá verður einnig að huga að kjarnfóðurnotkun á þessum tíma á annan hátt en um hásumarið og verður rætt um það hér á eftir.
Tilkoma rúllutækninnar hefur einnig breytt miklu frá því sem áður var. Þar er átt við þann möguleika að geyma áborna há og grænfóður í böggum til innifóðrunar. Á þennan hátt má vafalítið auka nýtingu grænfóðurs og lengja í raun beitartímann að haustinu. Þetta verður samt að skoða miðað við aðstæður á hverju búi fyrir sig. Þá verður að meta á móti ávinningi í afurðum og betri nýtingu fóðursins, aukinn kostnað vegna pökkunar þess og alla þá vinnu sem það krefst.

back to top