Umsóknareyðublað um bústofnskaupastyrki til frumbýlinga
Komið er á vefinn umsóknareyðublað um bústofnskaupastyrki til frumbýlinga í sauðfjárrækt sem úthlutað verður skv. gildandi sauðfjársamningi, fyrst í apríl næstkomandi. Styrknum verður úthlutað til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum.
Drög að stofnun Búnaðarsambands Suðurlands voru lögð fyrir 100 árum í dag
Þann 20. janúar 1908 var haldið bændanámskeið að Þjórsártúni við Þjórsárbrú. Námskeiðið stóð í 10 daga og var vel sótt en þátttakendur voru 50 talsins. Stjórnandi þessa námskeiðs var Sigurður Sigurðarson, ráðunautur frá Langholti.
Haldnir voru umræðufundir um ýmis framfaramál og á einum þeirra kom fyrst fram hugmyndin að stofnun Búnaðarsambands Suðurlands. Samþykkt var strax gerð um nauðsyn á slíku sambandi og framkvæmd málsins síðan falin stjórn Smjörbúasambands Suðurlands en formaður þess var þá Ágúst Helgason í Birtingaholti.
Heimasíðan mun liggja niðri um tíma í kvöld
Vegna viðhalds mun heimasíðan liggja niðri frá um það bil kl. 21 til kl. 24 í kvöld. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.
Kúm fjölgar og búin stækka
Á síðasta ári komu 226 bú til uppgjörs í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hér á Suðurlandi. Þetta er fækkun um 8 bú frá árinu áður. Þetta þýðir 84% þeirra búa sem voru í framleiðslu um áramótin 2006/07 tóku þátt í skýrsluhaldi á árinu 2007.
Meðalafurðir stóðu nánast í stað, enduðu í 5.579 kg/árskú sem er einu kg meira en 2006. Fituinnihald í mjólk hækkaði úr 3,95% í 4,02% og próteininnihaldið hækkaði um 0,01 prósentustig, í 3,41%. Meðalafurðir í kg verðefna (MFP) jukust þannig um 5 kg milli ára, úr 410 kg MFP/árskú í 415 kg MFP/árskú. Ef litið er til heilsárskúa, þ.e. kúa sem eru á skýrslu allt árið, kemur í ljós að meðalafurðir þeirra aukast úr 5.570 kg í 5.681 kg.
Hvað gera bændur nú?
Það hefur sjaldan verið jafn brýnt tilefni til að velta fyrir sér innkaupum og notkun á hverju áburðarkorni eins og í ár. Sigurður Þór Guðmundsson jarðræktarráðunautur á Norðurlandi hefur tekið saman yfirlit um þá stöðu sem bændur eru í um þessar mundir vegna hækkandi áburðarverðs. Í meðfylgjandi Excel-skjali má sjá hvaða tegundir eru í boði og reiknuð út mismunandi áburðarþörf miðað við ólíkar forsendur. Í töflu 1 má sjá verð eins og það býðst í febrúar 2008 og jafnframt umreiknað yfir í krónur á kg köfnunarefnis (kr/kg N). Þá er sett upp tafla sem sýnir það magn af fosfór og kalí sem fylgir 120 kg af köfnunarefni.
Hækkanirnar meiri í raun
YARA og Áburðarverksmiðjan hafa nú birt áburðarverðskrár sínar og er hækkun milli ára á bilinu 36-82% hjá báðum fyrirtækjunum, þ.e. ef borin eru saman verð einstakra áburðartegunda nú við sömu mánuði í fyrra. Í raun má þó segja að hækkunin sé öllu meiri því að afsláttarkjör eru breytt frá því sem var 2006-07. Þannig bauð YARA mest 15% afslátt frá sínu lokaverði í júní 2007 ef áburður var pantaður í nóvember 2006. Nú býðst mönnum mest 10% afsláttur frá júníverði 2008 ef pantað er í janúar eða febrúar 2008.
Á sama hátt bauð Áburðarverksmiðjan í fyrra mest 15% pöntunarafslátt ef pantað var fyrir 15. janúar auk 5% staðgreiðsluafsláttar ef greitt var fyrir sama tíma. Nú eru bestu afsláttarkjör Áburðarverksmiðjunnar hins vegar 10% pöntunarafsláttur ef pantað er fyrir 15. febrúar auk 3% staðgreiðsluafsláttar ef greitt er fyrir þann sama tíma.
Mestur hluti áburðar undanfarin ár hefur verið seldur á mestu afsláttarkjörum hverju sinni.
Þorfinnur Þórarinsson mun hætta sem formaður BSSL
Á formannafundi Búnaðarsambands Suðurlands sl. föstudag, 18. janúar, lýsti Þorfinnur Þórarinsson því yfir að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi kjörs á næsta aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands. Þorfinnur hefur setið í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands frá árinu 1993, þar af frá árinu 2000 sem formaður stjórnar.
Stöðug fækkun nautgripa
Nautgripum fækkar stöðugt í Danmörku og um áramótin síðustu var tala þeirra komin niður í 1.545.000. Það er fækkun um 34.000 eða 2,2% frá árinu áður. Fjöldi mjólkurkúa dróst saman um 4 þús. og voru þær 551 þús. um áramótin. Ekki er útlit fyrir að úr fækkun kúnna dragi því að kvígum hefur fækkað um 16 þús. milli ára eða 2,5%. Heildarfjöldi kvígna í Danmörku var 618 þús. um áramótin.
Hertar kröfur til kynbótahrossa
Ákveðin hafa verið einkunnalágmörk kynbótahrossa fyrir Landsmót 2008. Kröfurnar hafa verið hertar talsvert frá því fyrir Landsmót 2006, eða um fimm stig í hverjum flokki einstaklingssýndra kynbótahrossa. Einnig hafa lágmörk afkvæmasýndra stóðhesta verið hækkuð um tvö stig í aðaleinkunn í kynbótamati. Engar kynbótahryssur verða sýndar með afkvæmum á Landsmóti 2008 en á síðastliðnu ári ákvað Fagráð í hrossarækt að leggja þær af.
Nýir heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands
Í kvöldverðarboði í kjölfar formannafundar BSSL sl. föstudagskvöld voru kjörnir tveir nýir heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands. Þetta voru þeir Ágúst Sigurðsson í Birtingaholti og Páll Lýðsson í Litlu-Sandvík. Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri fór yfir æviágrip þeirra og Þorfinnur Þórarinsson, formaður Búnaðarsambandsins afhenti þeim heiðursskjal og blómvönd.
Hátíðarkvöldverður BSSL
Búnaðarsamband Suðurlands hélt árlegan formannafund sinn síðastliðinn föstudag, 18. janúar 2008, þar sem saman komu formenn allra búnaðar- og búgreinafélaga á starfssvæði Búnaðarsambandsins. Fundurinn endaði með hátíðarkvöldverði í tilefni þess að Búnaðarsambandið fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári. Fundurinn, sem og hátíðarkvöldverðurinn voru hvoru tveggja á Hótel Selfossi.
Suðurland bragðast best
„Suðurland bragðast best“ er heitið á málþingi sem haldið verður 30. janúar á Hótel Selfossi. Markmið málþingsins er að vekja athygli á framboði og nýsköpun í matvælaframleiðslu á Suðurlandi og að hvetja Sunnlendinga til þess að nýta matvæli úr heimabyggð. Þá er átt við heimamenn alla, en ekki síst þá sem stunda veitingarekstur og ferðaþjónustu.
Hyggst afnema fóðurtoll
„Við erum að skoða að afnema kjarnfóðurtollinn. Það er mikill áhugi fyrir þessu í landbúnaðinum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Einar segir að verð á áburði, kjarnfóðri og fleiru hafi hækkað hratt, því sé tollurinn í endurskoðun. „Þetta skýrist í mars í síðasta lagi, hvað verður.“ Tvö fyrirtæki framleiða kjarnfóður hér á landi, í heild um níutíu þúsund tonn á ári, en innflutningur er hverfandi.
Erfiðast að velja undaneldisdýrin
Í upphafi árs var Sigríður Pétursdóttir, bóndi á Ólafsvöllum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sæmd hinni íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir störf sín að ræktun íslenska fjárhundsins. Þegar Sigríður hóf ræktun íslenska fjárhundsins á sjöunda áratug síðustu aldar var ræktunarstofninn mjög fátæklegur en með hugsjónastarfi sínu tókst henni ásamt örfáum öðrum ræktendum að bjarga kyninu.
Jóhannes Hr. Símonarson framkvæmdastjóri
Jóhannes Hr. Símonarson, ráðunautur BSSL hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu sem haldin verður dagana 22.-24. ágúst í sumar. Sýningin er stærsti viðburður afmælisfagnaðar Búnaðarsambands Suðurlands sem er 100 ára á árinu.
Að sögn Jóhannesar er þetta spennandi verkefni þar sem ætlunin er að sameina góða fagsýningu fyrir bændur og afar öfluga neytendasýningu. Á sýningunni mun landbúnaðurinn sýna allt það sem hann hefur upp á að bjóða í víðustu skilgreiningu orðsins. Allir landsmenn ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari sýningu.
Landbúnaðarstofnun verður Matvælastofnun
Frá og með 1. janúar 2008 tóku gildi breytingar á starfsemi Landbúnaðarstofnunar. Nafni stofnunarinnar hefur verið breytt í Matvælastofnun (e: Icelandic Food and Veterinary Authority) og samhliða þessari nafnabreytingu munu verkefni stofnunarinnar breytast í þá veru að matvælasvið Fiskistofu og matvælasvið Umhverfisstofnunar færast yfir til Matvælastofnunar. Jafnframt hefur nýtt merki verið hannað utan um skammstöfun stofnunarinnar, MAST.
Heimilsföng fyrrum Landbúnaðastofnunar breytast ekki né heldur kennitala og símanúmer.
Skortur á erlendri samkeppni í fóðri
„Mér finnst nú, þegar þessar gífurlegu hækkanir verða á fóðrinu, að ekki sé lengur forsvaranlegt að ráðamenn verji áfram fákeppni og trufli heilbrigða samkeppni á þessum markaði,“ segir Guðbjörg Jónsdóttir bóndi.
Hún rekur kúabú á Læk í Flóa ásamt manni sínum, Gauta Gunnarssyni. Þau hjónin hafa á milli 40 og 50 kýr í fjósi og 215 þúsund lítra greiðslumark.
Hlakkar til að finna fjósalyktina
Byrjað var að reisa nýtt fjós á bænum Stærri-Árskógi í Dalvíkurbyggð við utanverðan Eyjafjörð í gær, en útihúsin þar gjöreyðilögðust í eldsvoða í nóvember. Guðmundur Geir Jónsson bóndi var að störfum við fimmta mann þegar Morgunblaðið kom í heimsókn skömmu fyrir hádegi. Gámar með stálbitum og öðru efni í eitt stykki fjós voru komnir í hlað og von á fleirum.
Fækkar um 650 í fjármálageiranum?
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ríkir nú ráðningarstöðvun hjá flestum fjármálastofnunum á íslenska fjármálamarkaðnum, hvort sem um viðskiptabanka, sparisjóði, verðbréfafyrirtæki eða fjárfestingarfyrirtæki er að ræða. Heimildarmenn Morgunblaðsins úr fjármálageiranum eru þeirrar skoðunar, að þetta séu eðlileg og skiljanleg viðbrögð fjármálafyrirtækja, því útilokað sé að segja til um það, hversu lengi sú niðursveifla kemur til með að vara, sem nú ríkir, og jafnútilokað sé að segja til um það, hvenær botninum verði náð.
Jarðarverð hækkar
Þó að jarðarverð sé kannski ekki hátt í Bandaríkjunum á evrópskan mælikvarða heefur það aldrei verið hærra en nú. Meðalverð er nú um 290 þús. krónur á hektara og hefur farið hækkandi undanfarið gagnstætt því sem gerst hefur með lóðir þar.