Drög að stofnun Búnaðarsambands Suðurlands voru lögð fyrir 100 árum í dag

Þann 20. janúar 1908 var haldið bændanámskeið að Þjórsártúni við Þjórsárbrú. Námskeiðið stóð í 10 daga og var vel sótt en þátttakendur voru 50 talsins. Stjórnandi þessa námskeiðs var Sigurður Sigurðarson, ráðunautur frá Langholti.
Haldnir voru umræðufundir um ýmis framfaramál og á einum þeirra kom fyrst fram hugmyndin að stofnun Búnaðarsambands Suðurlands. Samþykkt var strax gerð um nauðsyn á slíku sambandi og framkvæmd málsins síðan falin stjórn Smjörbúasambands Suðurlands en formaður þess var þá Ágúst Helgason í Birtingaholti.

Aðalfundur Smjörbúasambandsins kom saman að Þjórsártúni skömmu síðar eða þann 4. febrúar. Þar mætti Sigurður Sigurðarson og talaði fyrir stofnun búnaðarsambands í héraðinu. Á fundinum var síðan lagt fyrir stjórn Smjörbúasambandsins „að skrifa öllum búnaðarfélögum milli Hvalfjarðar og Skeiðarársands og skora á þau að senda fulltrúa á fund, er haldinn skyldi 6. júlí n. k. að Þjórsártúni“.

Stjórn Smjörbúasambandsins sendi síðan búnaðarfélögunum bréf, dags. fyrir nákvæmlega 100 árum í dag, og birtum við hér texta þess til gamans:


„Frá samræðufundi nemenda og kennara búnaðarnámsskeiðsins við Þjórsárbrú 30. jan. þ. á. hefur nýafstöðnum aðalfundi Smjörbúasambandi Suðurlands borist svohljóðandi tillaga, er samræðufundurinn hafði samþykkt:


„Fundurinn álítur nauðsynlegt, að
stofnað sje Búnaðarsamband fyrir Suður-
land, og telur æskilegt, að Smjörbúasam-
band Suðurlands gangist fyrir að koma
því á fót.“


Mál þetta var síðan rætt töluvert á Sambandsfundinum, og fjellu umræður mjög á einn veg um, að stofnun slíks búnaðarsambands væri nauðsynleg. Var þá samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að fela stjórn Sambandsins að skrifa öllum Búnaðarfjelögum milli Hvalfjarðar og Skeiðarársands og skora á þau að senda fulltrúa til að mæta á fundi til að ræða stofnun slíks Búnaðarsambands, og skyldi þar leggja fram frumvarp til laga fyrir það.
Samkvæmt framanrituðu boðum vjer hjer með til slíks fundar að Þjórsárbrú mánud. 6. júlí næstkomandi, kl. 12 á hádegi, og væntum vjer, að búnaðarfjelögin leggist ekki undir höfuð að senda einn fulltrúa hvert á fund þennan og er að sjálfsögðu við því búist, að búnaðarfjelögin kosti þessa ferð fulltrúanna að öllu leyti.


Þjórsárbrú 5. febr. 1908.


Ágúst Helgason.         Eggert Benediktsson.


Ólafur Finnsson.“


Búnaðarfélögin brugðust flest allvel við áskoruninni og sendu alls 28 búnaðarfélög fulltrúa á stofnfundinn.


back to top