Bændur vilja aðgerðir til að mæta hækkunum

„Ljóst þykir að grípa verður til aðgerða til að mæta þeim miklu hækkunum á aðföngum, s.s. á áburði og fóðri, sem bændur hafa mætt,“ segir á vefsíðu Bændasamtakanna í tilefni af fundi í verðlagsnefnd búvara í gærmorgun.
Á fundinum voru engar verðbreytingar ákveðnar en að sögn Ólafs Friðrikssonar formanns mun nefndin hittast aftur innan skamms. „Við fórum yfir miklar áburðarverðshækkanir, sem eru upp á 70-80% frá því í fyrra. Á fundinum kom fram það hald manna að áburður mundi hækka jafnvel enn meira á heimsmarkaði, þó að þær hækkanir skili sér ekki hingað á þessu vori.“ Hann segir helstu áburðarsala veita bændum gjaldfrest fram í maí gangi þeir frá kaupum í ársbyrjun. „Engu að síður vill nefndin fylgjast grannt með þannig að grípa megi inn í ef ástæða þykir til,“ segir Ólafur.

Á fundi nefndarinnar komu fram fyrirspurnir frá fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Bændasamtökunum um útfærslu þeirra vörugjalda- og tollalækkana sem sagðar voru hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Bændur bíða nú að sögn óþreyjufullir eftir verðhækkunum á búvörum vegna hækkandi rekstrarkostnaðar.


Ólafur segir eðlilegt að bændur óski eftir því að afurðir þeirra hækki til samræmis við það. Dagsetning hækkananna hafi hins vegar ekki verið ákveðin en það verði þó á komandi vori.


back to top