Eiga bændur að rækta korn?

Þessa dagana eru bændur mikið að spyrja ráðunauta út í kornrækt, tilkostnað við hana og hvort að hún borgi sig yfirleitt. Því er til að svara að það er að sjálfsögðu háð uppskeru á hektara, þ.e. deilistærðinni sem tilkostnaðinum er dreift á. Undanfarin ár hafa ráðunautar BSSL reiknað út að núllpunkturinn við kornræktina er á bilinu 3,3 – 3,5 tonn/hektara sé kornið þurrkað og er þetta vor engin undantekning frá því. Sé kornið votverkað með própíonsýru má gera ráð fyrir að uppskeran megi vera eitthvað lægri.

Tímabært að draga gætilega úr peningalegu aðhaldi

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um eina prósentu í 17%. Hagvísar benda til þess að skilyrði séu til þess að draga úr peningalegu aðhaldi. Verðbólguþrýstingur hefur verið á undanhaldi um leið og eftirspurn hefur dregist saman, atvinna minnkað og gengi krónunnar orðið stöðugra. Sveigjanleiki þjóðarbúskaparins hefur komið fram í hraðri aðlögun innlendrar eftirspurnar, kaupmáttar launa og ytri jafnaðar. Mikill halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd hefur snúist í verulegan afgang.

Djúpsteikja hrútaeistu

Vaxandi útflutningur hefur verið á innmat úr sauðfé og stórgripum frá Sláturhúsi KVH ehf. á Hvammstanga til landa í Evrópu, Asíu og til Bandaríkjanna.
„Við fluttum dálítið af innmat úr lömbum til Kína í haust,“ segir Magnús Jónsson framkvæmdastjóri. „Kínverjarnir tóku ákveðinn afskurð, fitu, nýru og svoleiðis. Svo erum við að skoða að flytja þangað vambir og keppi. Það fór smámagn af því í haust og kemur til með að verða meira í næstu sláturtíð.

Söfnun fyrir Mæðrastyrksnefnd

Á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi 26.janúar sl.var tillaga samþykkt um að skipa nefnd sem ætlað var að eiga samstarf við hjálparstofnanir vegna ástandsins í þjóðfélaginu með matvælaaðstoð í huga. Tillagan fékk mjög góðar undirtektir á fundinum. Nefndina skipa stjórnarmenn FKS, formaður Búnaðarsambands Suðurlands og stjórnarformaður Auðhumlu. Nefndin ákvað að söfnunin gengi til Mæðrastyrksnefndar að þessu sinni.
Í góðu samstarfi við þessa aðila var söfnuninni komið á. Fyrir það vill stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi þakka sérstaklega. Nýlega var sent bréf til allra mjólkurinnleggjenda á Suðurlandi þar sem þeim var boðið að taka þátt í söfnuninni.

Missa bændur stéttarfélag sitt?

Samkeppniseftirlitið birti 6. mars síðastliðinn úrskurð þar sem kveðið var upp úr með að Bændasamtök Íslands hefðu staðið að ólöglegu verðsamráði og brotið þar með samkeppnislög. Samkvæmt úrskurðinum eru Bændasamtökin samtök fyrirtækja og hafi þau viðhaft samkeppnishamlandi samráð, sem hafi meðal annars birst í ályktunum Búnaðarþings 2008 þar sem ályktað var að hækka þyrfti afurðaverð, en einnig hafi það samráð birst í viðtölum við forsvarsmenn Bændasamtakanna í fjölmiðlum þar sem þeir lýstu sömu skoðunum. Önnur gögn sem Samkeppniseftirlitið byggir úrskurð sinn á sýna jafnframt, að mati eftirlitsins, að starfsmenn Bændasamtakanna hafi unnið að því að þrýsta á um verðhækkanir. Séu það skýr og alvarleg brot á bannákvæðum samkeppnislaga.

Skuldir kúabúa gríðarlega þungar

Skuldir mjólkurframleiðenda á Íslandi nema rúmlega 30 milljörðum króna og líkur eru leiddar að því að þrjú af hverjum tíu kúabúum eigi undir högg að sækja vegna skuldsetningar. Kúabú hér á landi eru rúmlega 700 talsins. Samtök bænda kalla eftir því að fjármögnun kúabúa verði tryggð til lengri tíma, sérstaklega með það í huga að bú og heimili bænda eru yfirleitt óaðskiljanleg eining.

Hægt að greiðslujafna erlendum húsnæðislánum

Frá og með deginum í dag geta viðskiptavinir Íslandsbanka óskað eftir greiðslujöfnun erlendra húsnæðislána. Um er að ræða úrræði sem lækkar greiðslubyrði viðskiptavina bankans sem eru með húsnæðislán í erlendri mynt en í flestum tilvikum lengist lánstíminn á móti. „Í meginatriðum er um að ræða lausn sem gerir fólki kleift að minnka greiðslubyrði sína til skamms tíma af erlendum lánum, auk þess að draga úr áhrifum gengissveiflna á einstaka afborganir. Jafnframt er eytt óvissu um mánaðarlegar afborganir með jafnari upphæð um hver mánaðarmót.

Bændasamtökin telja sig ekki hafa brotið samkeppnislög

Samkeppniseftirlitið birti í dag úrskurð sinn vegna rannsóknar sem hófst fyrir ári síðan á starfsháttum Bændasamtaka Íslands vegna gruns um brot á samkeppnislögum. Vegna málsins hafa Bændasamtök Íslands sent frá sér yfirlýsingu sem er svohljóðandi:
 
„Bændasamtök Íslands telja sig ekki hafa brotið samkeppnislög en svo telur Samkeppniseftirlitið sem úrskurðað hefur að BÍ skuli greiða 10 milljónir króna í stjórnvaldssekt fyrir það sem kallað er ólöglegt verðsamráð.

Bændasamtökin brutu samkeppnislög

Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Bændasamtök Íslands (BÍ) hafi brotið gegn samkeppnislögum með aðgerðum sem miðuðu að því að hækka verð á búvörum.
Snýr brotið að búvörum sem ekki lúta opinberri verðlagningu skv. búvörulögum, s.s. kjúklingum, eggjum, grænmeti og svínakjöti. Vegna þessa brots er BÍ gert að greiða 10 milljónir króna stjórnvaldssekt og lagt fyrir þau að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að samskonar brot verði endurtekin.

Úrræði vegna erlendra lána

Greiðendur erlendra húsnæðislána gætu séð fram á léttari greiðslubyrði næstu misseri verði ný greiðslujöfnunarleið Íslandsbanka á þessum lánum almenn. Bankinn ætlar strax í næstu viku að opna fyrir umsóknir viðskiptavina sinna um þetta úrræði. Um er að ræða eins konar teygjulán sem taka mið af greiðslubyrðinni eins og hún var 1. maí 2008 og breytast afborganir í samræmi við greiðslujöfnunarvísitölu, en ekki neysluvísitölu.

Ísland ekki lengur land heldur sjóður

Einn af þekktustu viðskiptarithöfundum Bandaríkjanna segir íslenska karla hafa stýrt uppbyggingu fjármálageirans af fífldirfsku og vankunnáttu. Ísland sé gjaldþrota land, krónan búin að vera, skuldir margföld landsframleiðsla og fólk hamstrar mat og peninga, samtímis því sem það sprengir upp Range Rover-jeppana sína til að ná peningum út úr tryggingafélögum. Þetta eru inngangsorð úttektar á uppsveiflunni hér og hruninu í fyrrahaust, og birtist í aprílhefti bandaríska tímaritsins Vanity Fair undir heitinu Wall Street í freðmýrinni (e. Wall Street on the Tundra).

Ráðleggur bændum að auka framleiðslu

Pål Haugstad, formaður norsku bændasamtakanna Norges Bondelag, var gestur Búnaðarþings í ár. Hann sagði í viðtali í Ríkissjónvarpinu að norrænir bændur hefðu sent stuðningsyfirlýsingu til íslenskra bænda og áskorun til stjórnvalda í þeim erfiðleikum sem nú blasa við. Varðandi Evrópumálin sagði Pål að útilokað væri að aðlaga landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins að norskum veruleika. Hann sagði það sama eiga við hérlendis.

Frumvarp í smíðum

Meðal þeirra sem tóku til máls á Búnaðarþingi í gær var Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra landbúnaðar, sjávarútvegs og fjármála. Hann sagði meðal annars að drög að nýju frumvarpi um Bjargráðasjóð lægju fyrir en í þeim er sjóðnum veitt heimild til að styrkja bændur vegna áburðarkaupa. Að hve miklu leyti liggur ekki fyrir en niðurstöðu er að vænta á næstu dögum.

Vatnaskil?

Íslenska krónan hefur átt í verulegri vök að verjast síðasta árið. Fyrir því höfum við öll fundið. Fyrir ári stóð gengisvísitala íslensku krónunnar, GVT, í um 130 stigum. Í dag er GVT í rúmlega 190 stigum. Greining Íslandsbanka fjallaði um gengisþróun GVT gagnvart þó nokkrum myntum í grein í gær sem fjallað var um hér á síðunni í morgun. Þar segir að blómaskeiði vaxtamunarviðskipta sé lokið.

Sænsk ofurkýr

Á heimasíðu Viking Genetics kemur fram að sá núlifandi gripur (SRB-svartskjöldóttar sænskar kýr) í Svíþjóð sem státar af mestum æviafurðum er 444 Dotty frá Br. Bengt og Göran Larsson, Holmryd, Bredared. Kýrin hefur borið 12 sinnum og hefur hiingað til mjólkað 163.337 kg OLM eða 12.197 kg verðefna. Meðalafurðir eru á 14 árum 11.095 kg mjólkur með 4,4% fitu og 3,5% prótein.

HÍ og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hugsanlega sameinaðir

Til greina kemur að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarskólann á Hvanneyri. Þetta kemur fram í bréfi sem menntamálaráðuneytið sendi stjórnendum skólanna um miðjan febrúar.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við HÍ, segir að í bréfinu sé óskað eftir því að báðir skólar skoði fýsileika þess að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. „Okkur finnst áhugavert að skoða þetta betur, en það á eftir að fara yfir málið,“ segir Jón Atli. Hann bendir á að sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands hafi lokið á síðasta ári og það yrði væntanlega notuð svipuð aðferðarfræði við þessa sameiningu. Jón Atli segir að samkvæmt ósk menntamálaráðuneytis verði skipaður hópur sem muni skoða hvort sameiningin sé æskileg. Sá hópur skili af sér í mars.

Nýja nautastöðin að komast í gagnið

Í dag verða þau naut sem eru í nautastöðinni á Hvanneyri flutt í nýju nautastöðina á Hesti. Þar með verður starfsemi á Hvanneyri lokið. Ætlunin er að hefja síðan sæðistöku í nýju stöðinni í næstu viku.
Í næstu viku verða síðan þeir nautkálfar sem enn eru í Uppeldisstöðinni í Þorleifskoti fluttir í nýju stöðina á Hesti.

Hollara að nota bygg en hveiti

Hægt er að auka hollustu brauðvara með því að nota að hluta til bygg í staðinn fyrir hveiti, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og Landbúnaðarháskóla Íslands. Í byggi eru trefjaefni sem geta lækkað kólestról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur. Ólafur Reykdal verkefnastjóri hjá Matís, segir í fréttatilkynningu að hægt sé að auka hollustu brauðvara með því að nota að hluta til bygg í staðinn fyrir hveiti.

Leiðréttir ekki búvörusamninga

Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra segir mjög erfitt að taka til baka þá skerðingu á búvörusamningum ríkisins við bændur, sem eru í fjárlögum þessa árs. Ef það eigi að gera þurfi að tryggja fé á fjárlögum til móts við slíka breytingu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherrann að því á Alþingi í morgun hvort hann ætlaði sér að taka skerðingarnar til baka.

Minkaskinn seldust upp í Kaupmannahöfn

Minkaskinn seldust upp á febrúar-uppboði hjá Kopenhagen Fur, stærsta skinnamarkaði heims. Alls seldust 3,5 milljónir skinna fyrir rúmlega 15 milljarða króna.
Nokkur spenna var fyrir uppboðið þar sem sala í haust var fremur dræm og alls óljóst hverning markaðurinn brygðist við fjármálakreppunni. Eftirspurnin fór hins vegar fram úr björtustu vonum enda seldust öll skinn sem boðin voru upp.
Verðið lækkaði að vísu um 12,5% frá síðasta uppboði en góð sala vegur þar upp á móti.

back to top