Djúpsteikja hrútaeistu

Vaxandi útflutningur hefur verið á innmat úr sauðfé og stórgripum frá Sláturhúsi KVH ehf. á Hvammstanga til landa í Evrópu, Asíu og til Bandaríkjanna.
„Við fluttum dálítið af innmat úr lömbum til Kína í haust,“ segir Magnús Jónsson framkvæmdastjóri. „Kínverjarnir tóku ákveðinn afskurð, fitu, nýru og svoleiðis. Svo erum við að skoða að flytja þangað vambir og keppi. Það fór smámagn af því í haust og kemur til með að verða meira í næstu sláturtíð.

Til Evrópu sendum við lifur, þindar og fleira sem væntanlega er notað í vinnslu til manneldis. Þá sendum við hrútseistu til Bandaríkjanna. Það er eini innmaturinn sem Bandaríkjamenn kaupa af okkur. Okkur er sagt að þeir djúpsteiki þau. Útflutningur á eistum þangað var í gangi fyrir nokkrum árum en lagðist síðan af þar til nú.“


Magnús segir að það magn af innmat sem flutt hefur verið út sé ekki tiltakanlega mikið, en fari þó vaxandi milli ára.


„Við höfum aldrei flutt innmat út í eins miklum mæli og í fyrra,“ heldur Magnús áfram. „Að vísu hafa menn verið að flytja út eitthvert magn sem hefur þá farið í dýrafóður og annað þess háttar. En tilgangurinn með þessum útflutningi er tvíþættur. Annars vegar að koma þessum aukaafurðum okkar í verð en einnig erum við að leita leiða til þess að minnka urðun.“


Magnús segir nauðsynlegt að skapa verðmæti úr innmatnum með einum eða öðrum hætti. Til framtíðar litið verði öll urðun á honum bönnuð. Tvennt verði því í stöðunni, að auka útflutninginn eða vinna hann hér heima í dýrafóður eða til moltugerðar.


Spurður um hvað fengist hafi fyrir þann innmat sem fluttur var út í fyrra segir Magnús það nema 25 milljónum króna. Árið áður hafi verið flutt út fyrir fimm milljónir.


back to top