Smitsjúkdómar og varnir gegn þeim

Á aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands þann 26. mars s.l. fjallaði Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma um smitsjúkdóma og varnir gegn þeim. Erindið var mjög áhugavert og þótti stjórn HS tilvalið að fleiri fengju að fræðast um þessi mál en þeir sem áttu þess kost að mæta á aðalfundinn. Hér birtist því úrdráttur úr erindinu en þeir sem áhuga hafa á að kynna sér málið betur geta kynnt sér það frekar í fundargerð aðalfundar á slóðinni www.bssl.is undir Hrossaræktarsamtök Suðurlands.

Besta vörnin gegn smitsjúkdómum er að flytja ekki inn lifandi dýr. Íslendingar verða að leggja mikla áherslu á það í alþjóðlegum samningum að gefa ekkert eftir í þeim efnum. Innflutningur á notuðum reiðtygjum er algjörlega bannaður. Varðandi notaðan reiðfatnað hafa stjórnvöld ekki treyst sér til að banna ferðamönnum að koma í notuðum reiðfatnaði til landsins. Hins vegar þarf að brýna það fyrir ferðamönnum að skilyrðislaust þurfi hann að vera þveginn í þvottavél (reiðbuxur, úlpur og annað sem þolir þvott) eða þveginn vel í höndum, sótthreinsaður með Virkoni og geymdur í 5 daga áður en komið er með hann til landsins. Á það síðarnefnda einkum við um reiðskó og -stígvél. Bannað er að flytja til landsins notaða reiðhanska. Hundar geta verið smitaðir af hestainflúensu og þess vegna þarf að gæta fyllstu varúðar við innflutning á þeim.

Viðbragðsáætlanir eru til ef eftirfarandi kemur upp; óþekktir alvarlegir sjúkdómar, hestainflúensa og kverkeitlabólga. Varðandi fóðureitranir sem oft eru hópsýkingar væri minni hætta á smiti milli dýra en mikilvægt engu að síður að missa ekki smitefnið út í umhverfið. Helstu sýkingar sem hross geta fengið úr fóðri eru salmonella, hræeitrun og hvanneyriveiki. Jafnvel má telja miltisbrand í þessum flokki en sá sjúkdómur er sem betur fer afar sjaldgjæfur. Fyrstu einkenni salmonellusmits eru hiti, lystarleysi og niðurgangur en þó ber að hafa í huga að stundurm verður ekki vart við niðurgang fyrr en eftir nokkra daga. Hesteigendur ættu að hafa í huga að laða ekki villtan fugl að hrossahögum með því að gefa síld og brauð. Nauðsynlegt er að tryggja alltaf aðgang að fersku, rennandi vatni. Varðandi búfjáráburð frá alifugla- og svínabúum þyrfti að hafa í huga að hann virtist laða að sér villtan fugl.

Sigríður minntist á aðra smitsjúkdóma eins og stífkrampa, sveppasýkingu, augnvírus og Herpes týpur 2 og 3. Stífkrampi væri tengdur hænsnfuglum og því væri ekki æskilegt að breyta hænsnahúsum í hesthús. Hesteigendur ættu að láta endurtaka bólusetningar gegn stífkrampa á sér á 10 ára fresti því það væri stórvarasamt að fá stífkrampa. Á sveppasýkingar mætti bera Virkon en þær væru hvimleiðar. Herpes týpa 2 veldur hósta hjá hrossum og gengur yfir á nokkrum dögum. Herpes týpa 3 er í raun kynsjúkdómur og má sjá á skaufa á hestum og kynfærum hryssna.
Að lokum, íslenski hesturinn er ein af okkar verðmætustu erfðaauðlindum og standa þarf vörð um heilbrigði og velferð hans.


Tekið saman af Höllu Eygló Sveinsdóttur.


Smitsjúkdómar og varnir gegn þeim

Á aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands þann 26. mars s.l. fjallaði Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma um smitsjúkdóma og varnir gegn þeim. Erindið var mjög áhugavert og þótti stjórn HS tilvalið að fleiri fengju að fræðast um þessi mál en þeir sem áttu þess kost að mæta á aðalfundinn. Hér birtist því úrdráttur úr erindinu en þeir sem áhuga hafa á að kynna sér málið betur geta kynnt sér það frekar í fundargerð aðalfundar á slóðinni www.bssl.is undir Hrossaræktarsamtök Suðurlands.
(meira…)


back to top