Skuldir kúabúa gríðarlega þungar

Skuldir mjólkurframleiðenda á Íslandi nema rúmlega 30 milljörðum króna og líkur eru leiddar að því að þrjú af hverjum tíu kúabúum eigi undir högg að sækja vegna skuldsetningar. Kúabú hér á landi eru rúmlega 700 talsins. Samtök bænda kalla eftir því að fjármögnun kúabúa verði tryggð til lengri tíma, sérstaklega með það í huga að bú og heimili bænda eru yfirleitt óaðskiljanleg eining.

Skuldastaða mjólkurframleiðenda hefur farið hraðversnandi á undan­förnum árum. Skuldir þeirra voru um 20 milljarðar í ársbyrjun 2006 en eru rúmlega 30 milljarðar í dag. Bændur hafa verið hvattir til uppbyggingar og hafa fjárfest í atvinnutækjum og mjólkurkvóta. Hluti þessarar uppbyggingar hefur verið fjármagnaður með erlendum lánum. Athygli vekur að fjölmörg kúabú skulda lítið eða ekkert sem bendir til að erfitt eða ómögulegt sé fyrir fjölda mjólkurframleiðendur að bjarga sínum fyrirtækjum, nema til komi aðgerðir stjórnvalda eins og afskriftir skulda. Ljóst er að skuldir einstakra kúarbúa eru 50 til 150 milljónir.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir stöðu mjólkurframleiðenda hafa farið hratt versnandi á undanförnum árum. Skuldir mjólkurframleiðenda hafi verið um 20 milljarðar árið 2006 en hafi farið hratt vaxandi. Aðspurður hvort bændur hafi farið offari í lántökum segir Haraldur að svo geti verið í einhverjum tilfellum.


„Höfum þó hugfast að allar forsendur fyrir uppbyggingunni hafa kollvarpast. Það er heldur ekkert leyndarmál að það var rekinn stífur áróður fyrir því að lítil áhætta væri fyrir bændur að taka erlend lán. Á gróðæristímanum voru bændur hvattir til lántöku af því að veð þeirra væru svo sterk, en það gleymdist að horfa á veltutölur búanna.“


Haraldur segir að til þess að setja í samhengi hversu rekstrar­umhverfi bænda hefur versnað mikið þá voru útgjöld meðalstórs kúabús til áburðarkaupa árið 2007 um 960 þúsund krónur. Í vor stefnir í að reikningurinn verði 2,5 milljónir. Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, segir að á Suðurlandi séu um 260 kúabú. Af þeim telji sambandið að rúmlega fimmtíu eigi í verulegum vanda og sami fjöldi nái rétt að halda sjó.


„Þetta eru þeir sem hafa verið að endurbæta aðstöðu sína og kaupa mjólkurkvóta. Þetta eru frekar ungir bændur en eldri, eins og eðlilegt er, þó erfið skuldastaða einskorðist ekki við aldur. Þetta er í mörgum tilfellum ungt barnafólk, sem eykur á alvarleika málsins.“ Sveinn segir að á Suðurlandi sé meirihluti búanna vel sett sem undirstriki hvað staða skuldsettustu búanna sé gríðarlega erfið. 


Fréttablaðið 11. mars 2008 / svavar@frettabladid.is


back to top